trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 09/10/2015

Drottningarviðtal Fréttablaðsins við Illuga svarar ekki lykilspurningum. Ekki minnst á lán frá Orku Energy

Fréttaskýring – Karl Th. BirgissonIllugi Gunnarsson

Í Fréttablaðinu í dag er tveggja síðna viðtal við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra, sem einkum snýst um tengsl hans við fyrirtækið Orku Energy og fundi með stjórnvöldum í Kína.

Óhætt er að segja að blaðamenn Fréttablaðsins séu ekki aðgangsharðir við ráðherrann eftir margra mánaða þögn og þrálátar spurningar.

Tvennt vekur einkum athygli við lestur viðtalsins.

Vefmiðillinn Stundin hefur upplýst, að ráðherrann hafi fengið þriggja milljóna króna lán frá Orku Energy fyrir nokkrum misserum. Spurningum um þetta lán hefur Illugi ekki svarað í fimm mánuði þrátt fyrir ítrekaðar spurningar frá mörgum fjölmiðlum.

Í viðtali við Ríkisútvarpið í gær var ráðherrann spurður um þetta lán, en hann vísaði í þetta væntanlega viðtal við Fréttablaðið, sem er nú komið á prent.

Í viðtalinu er Illugi hvergi spurður um lánið, né heldur nefnir hann það að fyrra bragði. Spurningum um það er því allsendis ósvarað enn og allt óljóst um það.

Illugi veit að hann verður spurður frekar um þetta lán, og þögnin er flóttakennd. Hann hefur ekki lært nóg af Hönnu Birnu.

Seinna atriðið er um viðskipti tveggja vina.

Illugi upplýsti sjálfur óvænt í vor – eftir að umræður og fyrirspurnir hófust um tengsl hans og Orku Energy, einkum vegna Kínaferðar þeirra og fleiri – að Haukur Harðarson, stjórnarformaður félagsins og náinn vinur Illuga, hefði keypt íbúð hans sumarið 2014 þegar Illugi og fjölskylda hans lentu í fjárhagsörðugleikum. Þau hefðu síðan leigt íbúðina af Hauki.

Þetta er allt rétt, en í viðtalinu kemur oftar en einu sinni fyrir orðalag á borð við að Illugi hafi selt húsnæðið, „látið það af hendi,“ og því hafi þetta verið eins og hver önnur viðskipti á markaði, sem ekki væri orð á gerandi eða ástæða til að tilkynna um sem hagsmunatengsl.

Nákvæmara er, að ólíkt flestum öðrum í fjárhagsvanda lét Illugi húsnæðið aldrei af hendi – fjölskyldan þurfti ekki að flytja og finna sér annan samastað – heldur var þar áfram og er enn. Þetta vinarbragð Hauks Harðarsonar, sem vissulega má kalla svo og er sannarlega lofsvert, var því annað og meira en viðskipti óskyldra aðila á markaði, eins og ráðherrann lætur í veðri vaka.

Hann hefði getað sagt: „Vinur minn gerði okkur greiða, gerði okkur kleift að vera hér áfram og fyrir það erum við þakklát.“ Það skilja allir og hugsa um Hauk Harðarson sem vin í raun.

En Illugi segir: „Í staðinn gefur maður frá sér húsið sitt, íbúðina, í okkar tilfelli.“

Þetta er beinlínis rangt, en í takti við fórnarlambsvæðingartilhneigingu stjórnmálamanna sem lenda í vanda. Slík viðbrögð og ofanábreiðsla eru ekki beint traustvekjandi. Og við þennan gjörning mynduðust sannarlega mjög sterk hagsmunatengsl.

Í viðtalinu kemur líka fram – eins og til að undirstrika að fjölskyldan hafi misst húsnæðið – að þau leiti sér nú að nýrri íbúð. Samt ekki af því að þau vilji það eða þurfi þess, heldur af því að „það er komið óbragð í munninn á manni“ vegna opinberrar umfjöllunar, eins og ráðherrann orðar það.

Það er líklega fágætt, að fólk flytji nauðugt úr húsnæði þar sem því líkar vel og líður vel, vegna frétta um vinatengsl.

Þriðja atriðið í viðtalinu er athygli vert. Illugi segir um Kínaferðina, þar sem hann kom fram á ráðherra- og viðskiptafundum með Orku Energy og Marel, að tilviljun hafi ráðið því að þessi tilteknu fyrirtæki voru á staðnum:

„Það var aldrei hugsunin að fulltrúar frá Orku Energy eða Marel ættu að vera í sendinefndinni, en fulltrúar þessara fyrirtækja voru staddir í Peking á þessum tíma.“

Ástæðulaust er að draga þetta í efa, en er það virkilega svo, að samsetning sendinefnda á opinberum fundum með kínverskum stjórnvöldum ráðist af því hverjir eiga næturstað í borginni fyrir tilviljun í það skiptið – hafa jafnvel fyrir ólán misst af tengifluginu til Síngapúr og eru strandaglópar?

Ekki verður annað ráðið af viðtalinu og er einstaklega fróðlegt, ef satt er.

Í lokin er rétt að hrósa Illuga fyrir það, að minnast aðeins einu sinni á barnið sitt í svo löngu viðtali. Hann hefur þó líklega lært það af Hönnu Birnu.

Flokkun : Efst á baugi
1,589