trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 17/07/2014

Dóttir mín, þjófsnauturinn

Hann Kristján dánlódar bíómyndum sem er svo hægt að horfa á í tölvunni. Ég var að horfa á Frozen í gær með Sólrúnu og Bjarti.Frozen

Einhvern veginn svona hófst langt samtal sem ég átti við níu ára dóttur mína á leið niður Bankastrætið um daginn.

Það var soldið snúið. Nei – reyndar mjög erfitt. Og samtalinu er fjarri því lokið.

Fyrstu andmæli föður: Maður á ekki að hlaða niður myndum. Það jafngildir því að stela.

– Hvað meinarðu?

– Maður á að borga fyrir það sem maður horfir á.

– Ég skil ekki. En þegar ég horfi á Júróvisjónlög í YouTube? Eða barnaefni í sarpinum? Þá borgum við ekki neitt.

– Jú, það er búið að borga fyrir það. Sjónvarpsstöðvarnar borguðu og við borgum síðan fyrir að horfa á sjónvarpsstöðvarnar. Nema reyndar [úff, hvað þetta er að verða flókið] þegar sjónvarpsstöðvarnar eru ókeypis, en þá borga auglýsendur og við borgum í gegnum vöruverðið. En það er nú önnur saga. Maður á samt ekki að dánlóda. Það er þjófnaður.

– Ég skil samt ekki. Ég er alltaf horfa á nýju auglýsinguna sem afi er í. Við þurfum ekkert að borga fyrir það.

– Nei, það er rétt. Fyrirtækið sem framleiddi vöruna sem afi þinn er að auglýsa borgaði fyrir allt saman og vill endilega að við horfum sem oftast á auglýsinguna. Alveg ókeypis.

Barnið dæsti: En hvers vegna þarf að borga fyrir að horfa á myndir?

– Vegna þess að fullt af fólki vann við að búa til myndirnar, skrifa handritið, leika í þeim, taka þær upp, sjá um lýsingu, búningana, elda ofan í starfsfólkið og alveg endalaust. Þetta fólk þarf að fá borgað fyrir vinnuna sína. Ef það fær ekki borgað verða ekki gerðar neinar myndir eða þættir. Það þurfa allir að fá borgað fyrir vinnuna sína. Og ef við dánlóduðum öllu væri heldur ekki til nein Aðalvídeóleiga og enginn Reynir.

Stúlkan þagnaði og svipurinn benti til þess að eitthvað af þessu pabbatuði hefði náð í gegn. Og reyndar var hughreystandi að útlistanir mínar á kapítalismanum gerðu ekki endilega útslagið, heldur að fólk ætti að fá borgað fyrir vinnuna sína. Og svo náttúrlega þetta með Reyni og Aðalvídeóleiguna.

En samt. Hún var ekki sannfærð. Eðlilega. Í næstu heimsókn til Sólrúnar og Bjarts mun hún horfa á mynd sem Kristján hefur dánlódað.

Það er ekki góð tilhugsun. Hef ég nú komið inn hjá henni þeim þanka, að þar með sé hún þjófur eða í það minnsta þjófsnautur?

Það væri alvont. Því að í reynd er hún hvorugt. Og ætti ekki að upplifa sjálfa sig þannig. Samt tel ég mig vera og verða að segja henni satt.

FML.

———-

Umræðan um þjófnað á höfundarréttarvörðu efni er þekkt.

Píratarnir segja (í einfölduðu máli): Það er svo auðvelt að stela efni. Allir eru að stela. Af því að það er hægt. Deal with it.

Aðrir andmæla og segja réttilega: Þjófnaður verður ekkert skárri þótt ekki þurfi að nota kúbein og þess vegna steli fleiri. Þjófur er þjófur er þjófur.

Alltílæ, segja Píratar, finnum lausn: Endurskilgreinum höfundarréttinn.

Enginn veit hvað sú hugmynd merkir í praxís, en hún minnir á aðra gamla tillögu, um að endurskilgreina eignarréttinn. Það var reynt í nokkrum samfélögum, með kunnum afleiðingum.

Í fréttaundirvitundinni mallar nýlegt viðtal við Balta í Kastljósi, þar sem hann biðlaði til áhorfenda að stela ekki íslenzku efni, en það væri kannske í lagi með stóru útlenzku myndirnar. Þeir hefðu efni á þjófnaðinum.

Svo er endurómur af nokkurra vikna gömlu viðtali við Ladda, skömmu eftir að hann gaf út nýjasta DVD-diskinn sinn. Sá var varla kominn í verzlanir þegar efnið var komið á vefsíðu þangað sem fólk gat sótt það.

Mörg þúsund Íslendingar stálu efni frá Ladda með þessum hætti og ollu honum stórfelldu fjártjóni. Og það sem verra er: Líklega fannst þeim það flestum í fínu lagi.

———-

Við erum sumsé stödd hér: Fólk stelur af því að það er hægt. Og finnst það í lagi af því að það er svo auðvelt. Og réttlætir verknaðinn með því að svo margir geri það.

Þetta er aldeilis geðslegt.

Það hlýtur að vera eitt af mikilvægustu viðfangsefnum okkar að koma böndum á þennan stórþjófnað. Þess eru nokkur merki með Netflix og öðrum veitum, en þjófnaðurinn heldur áfram í stórum stíl.

Að óbreyttu alast heilu kynslóðirnar hér upp við að ekkert sé athugavert við að stela vinnu og verkum annarra. Það er ömurleg tilhugsun og börnin okkar eiga heilbrigðara uppeldi skilið.

 

1,363