Davíð: Annaðhvort með eða á móti
Davíð Oddsson sker sig áberandi úr hópi forsetaframbjóðenda að því leyti að afstaða kjósenda til hans virðist alveg á hreinu frá upphafi og verður sennilega til enda. Fólk er annaðhvort með honum eða á móti. Andstaðan gegn Davíð sést nokkuð skýrt á harkalegum viðbrögðum margra t.d. á Facebook. Sumir láta sér nægja háðsglósur, en aðrir bregðast reiðir við og stundum sér maður heldur lengra gengið í orðavali en góðu hófi gegnir.
Fylgi við Davíð leynir sér heldur ekki á netinu. Og í þeim hópi eru sumir líka nokkuð hvassyrtir. Það er líka augljóst að hópurinn, sem stendur að baki Davíð er bæði harðsnúinn og vel skipulagður.
Þó bregður svo við að maður efast um að Davíð hafi sömu stjórn á liði sínu og forðum var. Þótt höfundur meðfylgjandi myndar (smellið til að stækka) sé greinilega vel fær í Photoshop er erfitt að trúa því að Davíð hafi sjálfur lagt blessun sína yfir svo rætna skrumskælingu. Þar gildir einu þótt myndin sé nokkuð nákvæmlega í samræmi við uppskrift framboðsins. En vissulega mætti höfundurinn koma fram og taka af allan vafa.
Staðfestingu þess hve skörp skil eru milli Davíðs og annarra frambjóðenda má líka lesa út úr nokkuð merkilegri könnun MMR, sem birt var í byrjun júní. Þar voru þátttendur beðnir að nefna næstbesta valkost, sem sé þann frambjóðanda sem þeir myndu líklegast kjósa ef fyrsta val væri ekki í framboði. Þótt alltaf þurfi að fara gætilega við að draga ályktanir af niðurstöðum kannana, má þarna sjá vísbendingar um sóknarfæri frambjóðendanna. Og þær vísbendingar eru á vissan hátt furðu skýrar.
Guðni Th. Jóhannesson, Halla Tómasdóttir og Andri Snær Magnason eru á svipuðu róli með möguleg sóknarfæri á bilinu 15-18 prósentustig. Sóknarfæri Guðna eru ívið minnst sem von er, enda er hann með langmesta fylgið. Sóknarfæri Davíðs mælast hins vegar ekki nema ríflega 5 stig, sem er nokkurn veginn á pari við Sturlu Jónsson. Þetta þýðir sem sagt að Sturla gæti í allra besta falli farið úr ríflega 2% upp í 6-7% og Davíð gæti að sama skapi gert sér vonir um 25-26% atkvæða. Miðað við þessar sömu tölur gæti Andri Snær svifið hátt í 30% og Halla upp undir 25%.
Auðvitað er ekki sennilegt að neitt þessu líkt gerist. Til þess þyrfti Guðni Th. Jóhannesson eiginlega að draga framboð sitt til baka. En þetta sýnir hins vegar afar skýrt hversu skörp skil eru milli Davíðs Oddssonar og hinna frambjóðendanna. Fólk er annað hvort með Davíð eða á móti honum.
Ef nýjar skoðanakannanir sýna ekki verulegar breytingar á allra næstu dögum, virðist kosningabaráttunni eiginlega hafa lokið áður en hún hófst. Ekkert annað virðist framundan en stórsigur Guðna. Það virðist jafnvel mögulegt að hann fái hreinan meirihluta.
Hin eindregna og fyrirframmótaða afstaða fólks til Davíðs sýnist styrkja Guðna. Kjósendur, sem annars myndu kannski velta bæði Andra Snæ og Höllu fyrir sér í fullri alvöru, þora sennilega ekki að taka neina áhættu.
- Að skella í lás - 10/08/2020
- Æra herra Negusar, Sniðugt á Íslandi og Búlúlala - 31/03/2020
- Jafnaðarkaup fyrir meðaltalsgamalmenni - 27/10/2019