trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 24/03/2018

Birtan frá Björgúlfi Ólafssyni

Björgúlfur Ólafsson átti sinn uppáhaldsstað í lítilli vík við stórt stöðuvatn. Þarna stiklaði hann um sem barn með afa sínum og ömmu, þangað fannst honum ánægjulegast að bjóða vinum sínum og þarna held ég hann hafi átt margar sínar innilegustu stundir og þangað leitaði hann þegar dagarnir urðu erfiðir.

Þetta er einn fegursti staður landsins, staður úr alfaraleið, falinn bak við smáa hæðarkolla og umlukinn hrauni. Þarna stendur gamalt sumarhús á brekkubrún og útsýnið í sólarátt er stórfengleg sena í fagurfræðilegu jafnvægi: vatnsflöturinn, eyjarnar, himinninn og fjallið í fjarska sem dregur til sín augað og er allra hæða val.

Það er eins og þar komi aldrei komi illviðri, hvað þá mannskaðaveður, en það getur rignt. Og þá skyggir yfir og rignir eins og hellt sé úr fötu, en þegar upp styttir er fegurðin jafnvel meiri en áður og maður uppgötvar, að það sem gerir þennan stað einstakan er ekki þessi augljósa fegurð, heldur birtan.

Þannig var Björgúlfur. Þrátt fyrir óvenjulegan glæsileika, líkamlegt atgervi, og gáfur á svo mörgum sviðum var það birtan sem í raun gerði hann einstakan. Það geislaði svo af honum, að það var stundum eins og Bjögga fyndist sjálfum að hann þyrfti ekki á sínum augljósu gáfum að halda. Hann gerði fyrirhafnarlítið margt það sem við hin þurfum að bisa lengi við, en vildi fela að hann væri okkur fremri.

Þessi birta stafaði því ekki bara af skíru yfirliti og fríðleik og ekki bara af frábærri kímnigáfu og glaðlyndi heldur fyrst og fremst af því, að hann lét ljósið alltaf skína á aðra en sjálfan sig.

Umtöluð greiðvikni og hjálpsemi hans var í raun bara ein mynd þessa persónuleika. Af sama meiði var stöðug viðleitni hans til fá fólk að vera tillitssamt við hvert annað og eyða sér ekki upp í stælum eða innihaldslausu masi heldur hafa gaman, gera og ræða eitthvað sem skipti máli. Hann var ævinlega mesti talsmaður jákvæðninnar í hverjum hópi.

Ég veit ekki hvort það er nokkurn tímann tíðarandinn að vera lítillátur og óeigingjarn, en svo var sannarlega ekki þegar við vorum að útskrifast úr menntaskóla og marka okkur stefnu. Þá voru tímar uppanna að ganga í garð, unga fólksins á framabraut, sem barst mikið á og slagorð dagsins voru markaður, metnaður og samkeppni.

Björgúlfur ákvað hins vegar að verða rithöfundur, en eflaust vissi hann ekki í upphafi hvernig slagorð tímans gátu með sínum hætti birst í lífi ungs rithöfundar sem skrifaði af hlýju og dálítið barnslegri forvitni um lífið, en sótti sér ekki fyrimyndir í þeirra daga listrænu stórvirki. Bjöggi skrifaði í bókum sínum og blaðapistlum fallegan og áreynslulausan texta sem knúinn er áfram af forvitni höfundarins um lífið og tilveruna. Það var hið hversdagslega sem höfðaði til listrænna gáfna hans og margt í daglegu lífi hans var sennilega sprottið af sömu rót.

Sumir hversdagsgjörningar hans verða að minnsta kosti best skildir sem listaverk, þótt áhorfendurnir væru mis vel færir um að skilja það á stað og stund; eins og þegar hann stöðvaði eina bílinn sem gat komið okkur tveimur til bjargar á biluðum jeppa í óveðri á miðjum Sprengisandi, til þess eins að spyrja ökumanninn hvort hann væri sannur, eða þegar hann fékk allan mannfjöldann til að klappa fyrir sneypulegum smalahundi á landbúnaðarsýningu inn við Elliðaár.

Og kaffiboðið sem hann hélt ömmu sinni var slíkur gerningur að löngu seinna var hann stoppaður af gamalli konu á Laugaveginum sem spurði „Ert þú ungi maðurinn sem bakaðir marengstertuna?“

En sumir gerninga Björgúlfs voru áhrifaríkari en aðrir og svo var um dularfullt heimboð í ókunnugt hús þar sem hann reyndist eiga unnustu og stuttu síðar lítil ræða um að von væri á barni. Líf Bjögga hafði tekið algerlega nýja stefnu og nú gat hann gefið eigin fjölskyldu og börnum af sjálfum sér af sömu gjafmildinni og alltaf. Og það sem hann fékk aftur til baka var svo auðvitað ekki minna.

Víkin við vatnið er fjölskyldustaður Bjögga, staður æskuminninga manns sem ólst upp við umhyggju og ást og veitti börnum sínum það sama ómælt. Nú léku börnin hans sér í víkinni og syntu í litlu tjörninni eins og hann sjálfur hafði gert. Margrét Birta, Óli og Teitur birtast eitt af öðru í þessari fallegu og björtu mynd af staðnum þar sem sjálf fjöllin stilla sér upp eins og gestir fyrir myndatöku.

En engin saga er svona sæl og tekur aldrei enda. Hvílíkt reiðarslag, að nú þegar létta tók eftir erfiða hríð og tíminn hafði líknað og lagt til nýja og vongóða daga skyldi það hjarta, sem tengir öll þessi hjörtu önnur skyndilega hætta að slá.

Í dag sameinumst við í sorginni, en finnum um leið fyrir djúpu þakklæti fyrir allt sem hann gaf okkur, sá sem nú er kvaddur hinstu kveðju.

Takk fyrir, takk fyrir allt, Björgúlfur Ólafsson.

Hans Jakob Beck

(Minningarorð flutt í Fríkirkjunni í Reykjavík 20. mars 2018)

1,247