Bárufleygur
Þeir voru glaðir á þinginu í dag, Klausturbræður og systir þeirra. Þau voru fjögur í þingsal auk forseta og starfsmanns skrifstofunnar. Og þau ræddu um orkupakkann, systkinin. Hvert við annað. Hrósuðu hvort öðru fyrir þekkinguna á honum, brostu hvert til annars og fóru fögrum orðum um málflutning hvers annars og spurðu hvort annað spjörunum úr (ekki misskilja þetta). Og svöruðu. Það ljómaði af þeim. En ekki bara vegna þess að þau vissu meira um orkupakkann en aðrir. Þau voru eftirvæntingarfull. Það var augljóst. Þau hafa vitað að náðarbréf var á leiðinni til þeirra. Bréf um réttlætið, sannleikann um Klausturmálið. Bréf frá stjórn persónuverndar. Hún hafði komist að þeirri niðurstöðu að njósnarinn, Bára Halldórsdóttir hefði brotið af sér þegar hún tók upp samtal þeirra, þingmanna Miðflokksins, á Klaustri í lok nóvember á síðasta ári; hún mátti þetta ekki hún Bára. Hún var sek. Þeir máttu vera á fylliríi á þingtíma. Þeir hefðu aldrei lítilsvirt fólk, klæmast á tungunni eða skrópað í vinnunni ef Bára hefði ekki verið þarna og tekið upp samtölin. Og það mátti hún ekki. Þeir áttu heimtingu á að fá að vera í friði við öl og æði. Fyrir Bára. Hún er sek. Þeir eru sýkn saka.
Þess vegna voru þeir glaðir í dag þegar þeir stigu í pontu hver á eftir öðrum og töluðu saman allt síðdegið og kvöldið um orkupakkann. Og hættuna af útlendingum. Og sæstrengjum. Og fyrir þjóðarheill í einangrun. Þeir voru enn að spjalla og skjalla hver annan klukkan 22:21 og munu sjálfsagt tala áfram meðan bára brotnar við strönd, mala alla vornóttina. Óhræddir og ódrukknir (ekki misskilja þetta).
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020