Átökin við Hallgrím Helgason. Eða: Andstyggilegheit ung-intelligensíunnar
Ritdómur – Eiríkur Bergmann Einarsson
Sjóveikur í Munchen
Hallgrímur Helgason
(JPV, 2015)
101 Reykjavík barst mér nýútkomin með póstinum til Kaupmannahafnar þar sem ég þá var við nám. Ekki man ég lengur hvort ég hafði beðið um sendinguna eða hvort foreldrar mínir hafi upp á sitt eindæmi ákveðið að bókin kynni að vera að mínum smekk. Það skiptir sosum ekki máli nú. En allar götur síðan hefur glíman við Hallgrím staðið yfir, eða réttara sagt glíman við bækurnar hans. Því þótt samskiptin við manninn sjálfan hafi alltaf verið ljúf þá hafa átökin við bækurnar hans verið úfnari. Miklu úfnari.
Sko, þetta er einhvern veginn svona: Ég er Hallgríms-fan, en stundum hata ég höfundarverkið – sem ég samt innst inni elska. Kannski ég hati að elska það, eða þá – sem er allt eins líklegt – að ég elski að hata það. Allavega – it´s complicated.
Ég barðist sumsé hatramlega við 101 Reykjavík í snjáða námsmannssófanum mínum í Köben og hafði að lokum sigur, þótt brölt hafi haltur á fætur eftir alla útúrdúrana, botnlangana og blindgöturnar sem höfundurinn dró mann miskunnarlaust með sér í eftir hamslausum flæðistílnum sem frussaðist í allar áttir. En það var bara eitthvað svo sérstakt við hann Hlyn Björn sem hélt manni við lesturinn.
Þegar Höfundur Íslands kom út var ég fluttur til Óslóar og hugði mér gott til glóðarinnar í daglegum lestarferðum til og frá vinnu. Í þeirri viðureign varð ég hins vegar undir. Á einni heimleiðinni þegar ég var kominn undir miðja bók hafði lestrarpirringurinn magnast og flætt upp úr höfðinu sem olli því að ég fleygði bókinni frá mér í vagninum á leiðinni út úr lestinni. Frelsinu feginn gekk ég léttstígari heim, þar sem þægilegra lesefni beið. Skimaði að vísu eftir bókinni á sömu lestarleið morguninn eftir en varð nú bara hálffeginn að rekast ekki á hana.
Næst var það Hr. Alheimur. Sosusm góð hugmynd en svo fannst mér textinn bara leysast upp í tómar dellur.
Það var svo í Roklandi sem mér fannst höfundinum takast að koma böndum á ógnarflæðið, þannig að stíllinn fengi betur notið sín. Böddi er í mínum huga ein best smíðaða persóna íslenskra samtímabókmennta.
100 ráð til þess að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp fannst mér líka fín, en kannski einhvers konar millibilsbók – eins og sú sem hér átti að vera til umræðu og ég kem vonandi að rétt á eftir.
Svo kom stórvirkið, Konan við 1000°. Með henni varð Hallgrímur höfundur á heimsvísu. Loksins fengu hæfileikarnir að njóta sín en nú undir agaðri stjórn þroskaðs höfundar sem hafði alvöru yfirsýn yfir risavaxið sögusviðið. Að mínu viti langbesta bók Hallgríms til þessa.
En snúum okkur þá að þeirri sem þetta tilskrifelsi átti að snúast um, Sjóveikur í Munchen. Ástæða umfjöllunarinnar hér að ofan um fyrri bækur er að þetta fyrsta sjálfsævisögulega verk höfundar lýsir í raun tilurð listamannsins. Árið sem lagði grunninn að þeim rithöfundi sem við höfum fengið að njóta. Og jú, líka að glíma við í mismiklum átökum.
Eftir ár í myndlistarskólanum heima fer hann liðlega tvítugur Ungur Maður, eins og hann kallar sig í bókinni, til vetrardvalar við listaakademíuna í Munchen – en vildi þó heldur til Berlínar. Ungum Manni er lýst sem uppburðarlitlum, feimnum og öllum einhvern veginn á skakk og skjön – eiginlega sem algjörum aula svo maður segi það bara hreint út. Það er örugglega allt saman nokkuð fært í stílinn en fyrir vikið fæst áhugavert sjónarhorn þessa hlédræga ungmennis sem fremur er eins og áhorfandi að lífinu en þátttakandi í því.
Satt að segja var ég eiginlega búinn að gleyma þessum ömurlegu andstyggilegheitum íslenskrar ung-intellígensíu sem tíðkuðust á ofanverðri liðinni öld og Hallgrímur lýsir ansi vel í bókinni. Þegar alltaf var verið að setja menn niður með orðastungum. Landa sína í Munchen með gáfnakomplexana standandi eins og greninálar út úr sér dregur hann sundur og saman í nístandi háði. Eina hetja sögunnar er fótboltakappinn Ásgeir Sigurvinsson í skemmtilegum kafla, eiginlega eina gleðikafla bókarinnar.
Öðrum þræði lýsir bókin svo líka eymd Reykjavíkur, sveitaþorpsins sem hér var svo óbærilega þrúgandi áður en borgin varð þessi hip og kúl miðstöð hipsterana. Og þrá ungmannsins eftir alvöru metrópólis.
Bókin er sögð vera skáldævisaga. Við fáum þó á tilfinninguna að atburðir séu nokkuð réttir en ofan í minningar sínar skáldar Hallgrímur stöðugar uppsölur svarts efnis og allra handa vandræðgangi þeim tengdum. Undir lokin verður það að eins konar táknmynd þess hvernig skáldið kemur til, verður til. Sjálfum þótti mér það þó óþarft en truflaði samt ekki lesturinn að ráði.
Í umræðunni um bókina hefur mest verið gert úr nauðgun sem Hallgrímur varð fyrir í Flórens. En í bókinni afmarkast sá atburður við aðeins stuttan kafla og hefur ekki mikil áhrif á framvindu frásagnarinnar.
Hallgrímur er í þessari bók samur við sig í fjörlegum stíl en þar sem straumurinn áður frussaðist stjórnlaust í allar áttir með tilheyrandi skemmdum á efniviðnum rennur textinn hér eftir skipulagðari og lesendavænni brautum.
Sjóveikur í Munchen er kannski ekki á meðal stórvirkja Hallgríms sem rithöfundar en fyrir þá sem annaðhvort eru áhugasamir um höfundinn sjálfan eða tíðarandann í kringum árið 1981 – svo einkennilega fjarlægur sem hann virðist nú – þá er bókin dægilegasta lesning. Hvað sem öðru líður má allavega njóta textafjörsins.
Eiríkur Bergmann Einarsson
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021