Agentinn og pólitíska kyntröllið: Um einkastríð Styrmis Gunnarssonar
[Að gefnu tilefni birtir Herðubreið palladóm um Styrmi Gunnarsson sem fyrst kom fyrir sjónir lesenda snemma árs 2008. Hann á sérkennilega mikið erindi enn í dag.]
———-
Þetta var öllum starfsmönnum Morgunblaðsins óþægilega kunnugleg sjón: Í nýju Moggabyggingunni við Rauðavatn sáu aðrir starfsmenn inní fundarherbergið í glersalnum á annarri hæð þarsem ritstjóri blaðsins hellti sér yfir viðstadda með hefðbundnum froðufellingum um Morgunblaðið, sögu þess og prinsipp og mikilvægi alls þessa fyrir framtíð Íslands. Allir höfðu heyrt þessa ræðu oftar en þeir kærðu sig um að muna. Sumir horfðu löngunaraugum í átt að miðbænum og Aðalstrætinu.
Upplifunin var gamalkunn, en forsagan í þessu tilviki ómerkileg. Blaðamenn viðskiptadeildar höfðu verið að ræða óformlega sín á milli í óánægjutón um afgreiðslu Morgunblaðsins á tilteknum viðskiptafréttum. Inní hópinn vappaði Agnes Bragadóttir – sérstök trúnaðarkráka á öxl ritstjórans í sífelldum „sérverkefnum“ – og lét viðkomandi vita að henni þættu þessar samræður ekki lýsa djúpstæðum skilningi blaðamannanna á hlutverki Morgunblaðsins eða hinu sanna gangverki viðskiptalífsins og samfélagsins.
Nokkrum mínútum síðar hringdi síminn og boðað var til fundar með ritstjóranum. Og svo var blásið.
———-
Styrmir Gunnarsson hefur oft lýst því í samtölum að hann hafi sem ungur maður verið sóttur ofanúr Valhöll til að annast pólitísk skrif í Morgunblaðið og að höfuðviðfangsefnið hafi verið að svara og snúa útúr fyrir andstæðingum Flokksins í litlum dálki sem hét Staksteinar. Það gekk misvel enda höfundurinn ekki einn af beittustu pennum landsins. Honum til enn frekari ógæfu var að „andstæðingurinn“ var oftar en ekki Magnús Kjartansson á Þjóðviljanum, meinhæðinn stílisti sem skemmti lesendum sínum við að plokka í rólegheitunum burt þær fáu og skjóllitlu fjaðrir sem strákurinn þóttist skarta.
Með árunum hafa Staksteinar misst enn frekar það litla flug sem þeir höfðu þó – en nú alveg án aðstoðar Magnúsar heitins Kjartanssonar.
Þar birtist allajafna þráhyggjukennd prívatpólitík sem segir lesendum fátt annað en hvaða fantasíur ritstjórinn hefur ræktað með sér þann daginn – í sýndarveruleika sem verður æ sérkennilegri og raunalegri.
Lesendur blaðsins hafa dæmin fyrir sér á hverjum degi, lyfta ýmist brúnum, hlæja innaní sér eða spurja sig máski: Getur það verið? Eftir svolitla umhugsun er svarið undantekningarlaust: Nei, þetta er bara ruglið í honum Styrmi.
Sumt er fyndnara en annað: Þegar átök um fjölmiðlalög Davíðs Oddssonar stóðu sem hæst fór ekki framhjá neinum að Blaðamannafélagið barðist gegn þeim í nafni alls þess frelsis sem vestrænum samfélögum er mikilvægast og þáverandi formaður þess dró hvergi af sér. Mitt í þessari orrahríð var greint frá þeim stórtíðindum í Staksteinum að vopnaframleiðandi í Frakklandi væri í þann mund að kaupa fjöldann allan af fjölmiðlum þar í landi. Niðurlag Staksteinanna var eftir þessu: Styður formaður Blaðamannafélagsins vopnaframleiðendur?
Þetta er auðvitað barnalegur pólitískur skætingur – sem er meinlausari hliðin á Styrmi Gunnarssyni – en annað er alvarlegra fyrir blað, sem þykist vera fjölmiðill, með ritstjóra sem þykist vera blaðamaður. Það er launhyggjan og valdaáráttan.
Á nýliðnum haustmánuðum logaði Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík stafnanna á milli – og gerir enn – og leynifundir voru haldnir útaf REI og Villa – með og án Villa. Á mektarárum gamla valdsins voru slíkir fundir óhugsandi.
Hér áður og fyrrum var stíll Morgunblaðsins sá að segja engar fréttir af átökum í Sjálfstæðisflokknum. Fleiri fréttir voru sagðar af álfum og huldufólki, makríl og kolmunna, og öðru slíku sem þótti eiga meira erindi við almenning.
En nú bar nýrra við. Mogginn setti í fyrrahaust raunverulegar fréttir á forsíðu af blóðugum átökum í Flokknum, elti beinlínis uppi ummæli og lýsingar sem staðfestu hjaðningavígin í borgarstjórnarflokknum svo að engum duldist hvað um var að vera. Lesendur lyftu brúnum. Var Morgunblaðið orðið alvörudagblað sem sagði fréttir? Af sjálfum Flokknum?
En svo birtust fljótlega hughreystandi Staksteinar um einn af þessum leynifundum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þarsem rýtingar voru á lofti. Þar var átökum og aðför lýst, en svo kaus ritstjórinn að skrifa: „Menn yrðu sjálfsagt hissa ef þeir vissu hver hafði sig mest í frammi á þessum fundi!“
Já, lesendur yrðu sjálfsagt hissa ef blaðið sem þeir kaupa segði þeim hvað væri raunverulega að frétta.
Vitaskuld hefði ekkert annað vestrænt dagblað hagað sér svona, ýjað að frétt án þess að birta hana. En þessir litlu Staksteinar – og öll hin dæmin sem gætu fyllt nokkra árganga af Herðubreið – lýsa kjarnanum í hugarfari Styrmis Gunnarssonar. Hann lætur vita af því að hann viti – svo að við vitum örugglega að hann viti – og svo við vitum hvað hann hefur mikið vald. Hann er ekki blaðamaður, heldur einskonar agent, leyniþjónustumaður í dulargervi blaðamanns.
———-
Styrmir Gunnarsson hefur nokkrum sinnum gefið í skyn að hann hafi verið einhverskonar leyniþjónustumaður hérlendis. Í fyrra skrifaði hann í Reykjavíkurbréfi um að á árunum upp úr 1960 hefði forusta sjálfstæðismanna í Reykjavík unnið að því að koma upp varðliði, svipuðu því sem flokkurinn kallaði út 30. mars 1949. „Þar var nafngreindum einstaklingum skipað í flokka, sem starfa skyldu undir stjórn tiltekinna einstaklinga,“ segir í þessu Reykjavíkurbréfi. (Merk grein Guðna Th. Jóhannesssonar í þessu hefti Herðubreiðar varpar ljósi á þessa stemmningu innan Sjálfstæðisflokksins.)
Styrmir vék að sama máli í minningargrein um Eyjólf Konráð Jónsson, þar sem hann skrifaði: „Eyjólf Konráð Jónsson þekkti ég lítið þar til dag einn fyrir tæpum fjórum áratugum að æskuvinur minn, Hörður Einarsson hrl., sem leiddi mig til starfa á vettvangi Sjálfstæðisflokksins, bað mig að fara á fund Eykons, eins og hann var jafnan kallaður, hann ætti við mig erindi. […] Þetta var á þeim árum, þegar gríðarleg harka var í kalda stríðinu á milli hins frjálsa heims, undir forystu Bandaríkjanna, og Sovétríkjanna, sem höfðu raðað í kringum sig leppríkjum í Austur-Evrópu og víðar. Þeir sem ekki upplifðu kalda stríðið eins og það var harðast munu aldrei skilja þau viðhorf, sem réðu gerðum manna á þeim árum. Í þessu samtali fékk ég örlitla innsýn í veröld, sem ég vissi ekki að væri til á Íslandi en tengdist þessum alheimsátökum. Eykon bað mig um að taka að mér verkefni, sem ég gerði, en ekki fyrr en að lokinni alvarlegri umhugsun. Því sinnti ég á hans vegum fram eftir Viðreisnaráratugnum. Það starf hafði margvísleg áhrif á pólitíska vígstöðu flokkanna en eins og margt af því, sem gerðist á tímum kalda stríðsins, bíður frásögn af því síðari tíma. […] Upp úr þessu hitti ég hann a.m.k. vikulega en oft daglega. Við skiptumst á upplýsingum.“
Alheimsátökum? Það er ekkert verið að slá af. Svona skrifa bara strákar sem finnst þeir vera í úrvalsdeild.
Og „Við skiptumst á upplýsingum.“ Þær upplýsingar rötuðu auðvitað ekki í Morgunblaðið, fremur en margar aðrar. Hér talar hinn íslenski M James Bond-myndanna, sá sem veit betur og er treystandi til að meta hvað almenningi er hollast að vita og vita ekki.
Trúnaður blaðamanns er við lesendur sína, en trúnaður Styrmis er á endanum við flokkinn sem réði hann í leyniþjónustu sína á sjöunda áratug síðustu aldar.
———-
Yngri lesendur Herðubreiðar skilja kannski ekki hversvegna Morgunblaðið – en það kallar Styrmir sjálfan sig – er svona, en árum og áratugum saman var fáum umtalsverðum ráðum ráðið á Íslandi án þess að Morgunblaðið – hann og Matthías Johannessen – hefðu þar hönd í bagga, einsog lesa má um í merkum dagbókarbrotum Matthíasar frá fyrri árum sem birst hafa á vef Morgunblaðsins. Að Moggahöllinni við Aðalstræti var skammur gangur frá alþingishúsinu, stjórnarráðið var við hinn enda Austurstrætis og mitt á milli stóðu bankarnir í röðum – landsbúnaðarútvegs einsog skáldið orti –, að ógleymdu Eimskipafélaginu, Kolkrabbahúsinu, við Pósthússtræti.
Uppá Laufásvegi voru mikilvægustu vinir vestræns lýðræðis, en uppí Garðastræti lúrðu sovéskir agentar og höfðu beina sjón- og hlerunarlínu niðrá skrifstofur mannsins sem „sinnti verkefnum“ sem höfðu „margvísleg áhrif á pólitíska vígstöðu flokkanna“ á tímum „alheimsátaka“.
Sjálfstæðisflokkurinn – í helmingaskiptum við Framsóknarflokkinn og SÍS – réð því sem vert var að ráða í stjórnmálum, fjármálum og viðskiptum. Þræðirnir í þeim köngulóarvef lágu flestir til Moggans og Styrmir fékk snemma staðfestingu á því að völd mætti best öðlast í gegnum upplýsingar. Forustumenn í stjórnmálum og viðskiptum – sem oft voru hinir sömu og gerðu lítinn greinarmun á þessu tvennu – komu sínu á framfæri í gegnum blaðið og blaðið sá til þess að það, sem var óþægilegt eða viðkvæmt, kom ekki til umræðu.
Löngu eftir að hin flokksblöðin dóu lifði Morgunblaðið á þessari stöðu sinni. Fyrirtækin auglýstu, blaðið sinnti sínu, varði hagsmuni valdsins og ruggaði engum bátum. Það reyndi að koma sér upp ásýnd stórblaðs á vestræna vísu, birti aðeins erlendar fréttir á forsíðunni, þóttist sérfrótt um alþjóðamál og talaði í yfirlætistón um „stóru málin“. Hneyksli voru hinsvegar afgreidd með háværri þögn, nema þau væru greinilega óverjandi, orðin á allra vitorði og öllu venjulegu fólki augljós. Þegar þögnin dugði ekki lengur kaus Mogginn yfirleitt að kalla þau „áhyggjuefni“ og taldi málið útrætt.
Morgunblaðið hafði áhrif og forustumenn í stjórnmálum og atvinnulífi báru virðingu fyrir því.
———-
Nú er öldin önnur. Fyrir nokkrum árum fór Matthías Johannessen á eftirlaun, en Styrmir harðneitaði að fá annan ritstjóra sér við hlið. Hann ætlaði að sýna og sanna að hann gæti stýrt blaðinu einn síns liðs. Það voru mistök, bæði af hans hálfu og eigendanna.
Innanbúðarmönnum hafði lengi verið ljóst að Matthías var fagmaðurinn – blaðamaðurinn og hugmyndasmiðurinn – í ritstjóradúettinum. Hann er til að mynda upphafsmaðurinn að uppreisn Morgunblaðsins í kvótamálum og í umhverfismálum, sem hvorttveggja hefur farið óendanlega mikið í taugarnar á forustu Sjálfstæðisflokksins.
Styrmir hefur líka gert sér grein fyrir þessu og hefur af þeim sökum alið með sér vanmetakennd gagnvart Matthíasi. Enda hefur hann aldrei sett sig í stellingar blaðamanns. Hann heldur sig við sinn gamla leist – völd og meiri völd, sem byggð eru á upplýsingaöflun, baktjaldamakki og leyndarhyggju.
Hinar faglegu afleiðingar hafa ekki látið á sér standa fyrir Morgunblaðið. Hið gamla stórblað er nú í þriðja sæti hvað lestur snertir, á eftir fríblöðum þarsem texti er skrifaður í kringum auglýsingar. Útbreiðslan minnkar ár frá ári og æ færri – sérstaklega ungt fólk – sjá ástæðu til að kaupa eða lesa Morgunblaðið. Auglýsingatekjur hafa snarminnkað og blaðið þynnist sífellt. Rekstrartapið árið 2006 var í kringum 500 milljónir. Ef reikningar síðasta árs skila sömu niðurstöðu er eigið fé blaðsins svotil upp urið. Faglega og rekstrarlega er blaðið að óbreyttu á öruggri leið til glötunar.
———-
Á sama tíma markast viðhorf viðskiptalífsins til Morgunblaðsins ýmist af áhugaleysi eða beinni óvild. Áður fyrr var Mogginn talinn nauðsynlegur hlekkur á milli stjórnmála og viðskipta, en með opnun samfélagsins – EES-samningnum og ýmsu öðru auknu frjálsræði – á atvinnulífið nú æ minna undir beinum afskiptum, velvild og greiðasemi stjórnmálamanna.
Fyrir þessu hefur Styrmir Gunnarsson fundið alveg sérstaklega. Völdin eru horfin. Hann er ekki lengur æðsti presturinn sem allir þurfa að ráðgast við, hafa góðan og fá meðmæli hjá. Hann er ritstjóri útí bæ og hefur enga sérstaka stöðu lengur sem slíkur umfram aðra. Áhrifamenn í viðskiptum yppa flestir öxlum þegar hann ber á góma.
Sumir bölva þó, af því að Styrmir er enginn venjulegur ritstjóri: Hann er vinur ákveðinna stjórnmálamanna og kaupsýslumanna, en andsnúinn öðrum. Hann heldur nánast sjúklega með gömlu peningunum og hatast að sama skapi við þá nýju. Þannig er hann á móti því að kaupsýslumenn eigi fjölmiðla – og á þá við Baug – en gleymir því að harðsvíraðir kaupsýslumenn hafa alltaf átt Morgunblaðið.
Hann upplifir ungu mennina með nýju peningana einsog úlfahjörð sem reikar síhungruð um heim hinna gömlu, réttsýnu eignamanna sem eignuðust Ísland á tuttugustu öld, „góða auðvaldið,“ sem Matthías hefur kallað svo.
Styrmir hefur upplýst að Morgunblaðið – þ.e. hann sjálfur – hafi snemma fengið mikilvægar upplýsingar um glæpsamlegt markaðs- og verðsamráð olíufélaganna. Um það birtist auðvitað ekki stafkrókur í blaðinu, af því að Styrmir er agent en ekki blaðamaður, en líka af því að helstu eigendur Morgunblaðsins voru eigendur Skeljungs og áttu yfir höfði sér þunga dóma. Þeir áttu gömlu peningana.
Um málin sem tengjast nýju peningunum – til dæmis Baugi sem hakkaði gamla heildsalaveldið í sig á nokkrum árum – þarf ekki að hafa mörg orð. Þar var Styrmir svo innmúraður agent að alræmt er og kostaði hann næstum starfið. Ein lítil saga segir mikla sögu:
Í ágúst 2002 kom Þorsteinn Pálsson á ritstjórnarskrifstofu Mogga. Þegar honum var boðið að ganga inn var Styrmir enn í símanum, á tali við Kristin Björnsson samráðsfursta. Styrmir hló hróðugur í símann og sagði þá Baugsmenn vera alveg grunlausa. Þá grunaði ekki hvað þeir ættu í vændum. Tryggvi Jónsson hefði verið hjá sér daginn áður og verið alveg grunlaus. Ritstjórinn hefði boðað Baugsforstjórann á sinn fund undir því yfirskini að hann vildi ræða umfjöllun um fyrirtækið í blaðinu, en í raun verið að þreifa á því hvort Tryggva grunaði hvað framundan væri.
Daginn eftir að Þorsteinn Pálsson sat hjá Styrmi réðst lögreglan inn í Baug.
Af nýrri dæmum er þetta: Síðastliðið haust birti Morgunblaðið frétt um stórfyrirtæki, sem ritstjóranum virðist vera alveg sérstaklega í nöp við, þarsem farið var rangt með staðreyndir. Blaðafulltrúi fyrirtækisins hringdi í yfirmann á Mogganum og kom hinu rétta á framfæri. Nokkrum dögum síðar birtust sömu rangfærslur í blaðinu og aftur var hringt til að koma sömu staðreyndum til skila. Vitleysan var ekki leiðrétt, en daginn eftir bárust forstjóra fyrirtækisins þau skilaboð að honum væri velkomið að koma uppí Hádegismóa og snæða hádegisverð með Styrmi Gunnarssyni.
Forstjórinn horfði stundarkorn á þessi skilaboð, dæsti fyrst, en hló svo, hristi höfuðið og sneri sér að öðru. Styrmir borðaði snitturnar sínar einn þann daginn, einsog svo marga aðra undanfarin misseri.
———-
Ekki hefur Morgunblaðinu undir stjórn Styrmis gengið betur að halda pólitískum áhrifum sínum. Í utanríkismálum velkist blaðið frá einu sjónarhorni til annars, allt frá skyndilegum bræðisköstum – svosem þegar íslensk kona þurfti á flugvelli að sæta meðferð af hálfu bandarískra yfirvalda sem þúsundir sæta á degi hverjum – til nýuppfundinnar einangrunarhyggju.
Fátt hefur valdið Styrmi Gunnarssyni djúpstæðari persónulegum vonbrigðum en brotthvarf bandaríska hersins frá Íslandi. Áratugum saman stóð hann í þeirri bjargföstu trú – vígamóður úr „alheimsátökunum“ – að það væri óhugsandi að Bandaríkjamenn færu með herafla sinn héðan. Þegar allir aðrir sáu að hverju stefndi setti hann fyrir augun blöðkuna sem var „sérstök vinátta“ Davíðs Oddssonar og George W. Bush. Morgunblaðið vitnaði óspart til hennar í leiðurum, studdi eindregið innrásina í Írak og fagnaði sérstaklega sinnepsgasinu sem Halldór Ásgrímsson sagðist hafa fundið þar.
Þegar tjöldin féllu upplifði Styrmir brottför hersins sem persónuleg svik við sig og allt sem hann hafði staðið fyrir frá unga aldri. Skyndilega var stoðunum kippt undan lífsstarfi hans. Einkavinirnir sviku.
Ýmislegt í skrifum Styrmis síðan bendir til þess að stefna hans – eða Morgunblaðsins – hafi staðið á þessum eina fæti. Að honum horfnum er blaðið ráðvillt, flækist um í frösum og klisjum, og lætur sér til dæmis sæma að bjóða uppá þessa skoðun í leiðara í maí 2006:
„Það er nauðsynlegt að minna á hvernig Evrópusambandið varð til. Eftir aldalangan nágrannakrytur með styrjöldum og manndrápum tóku nokkrar þjóðir í Evrópu höndum saman um að bindast slíkum hagsmunatengslum, að þær gætu ekki farið aftur í stríð hver gegn annarri. Sú hugsun er grundvöllurinn að Evrópusambandinu og kemur okkur Íslendingum ekkert við.“
Friður í Evrópu – sú hugsun kemur okkur Íslendingum vitaskuld ekkert við.
———-
Í innanlandspólitík er stefnan ögn skýrari, en hún byggir ekki á skoðunum heldur strategíu. Meginstoðir hennar eru að standa vörð um „arfleifð“ Davíðs Oddssonar og hindra framrás Samfylkingarinnar, auk þess vitanlega að leggja fæð á Ólaf Ragnar Grímsson.
Af þessum sökum var það mikið áfall fyrir Styrmi – þótt ekki væri það eins persónulegt og brottför hersins – þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var mynduð. Nokkrum dögum síðar tilkynnti hann á ritstjórnarfundi að hann hefði ákveðið að nú yrði „tekið fastar“ á pólitískum fréttum í blaðinu. Fyrir þessu voru hvorki færð fagleg né málefnaleg rök. Styrmir var einfaldlega á móti stjórnarsamstarfinu og hann ætlaði að nota Morgunblaðið gegn því svosem kostur væri. Það fór um allmarga heiðarlega blaðamenn á þessum fundi.
Lesendur hafa dæmin fyrir augunum mörgum sinnum í viku. Ritstjórinn hamast á Samfylkingunni, einsog blindaður af stæku hatri, með sama útúrsnúningi og skætingi og hann lærði í Valhöll í gamla daga. Svo langt er gengið að bera upplognar sakir á Dag B. Eggertsson í leiðara.
Skýringarnar hefur Styrmir gefið sjálfur í Reykjavíkurbréfi: Sjálfstæðisflokkurinn átti að mynda stjórn með VG til að hindra framgang Samfylkingarinnar og sérstaklega Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þar lágu engin málefnaleg sjónarmið að baki önnur en „arfleifð“ Davíðs, þjóðernissinnuð íhaldsstefna sem vill viðhalda veröld sem var, verja hið gamla og hatast við hið nýja.
Svo rammt hefur kveðið að þessu að bæði formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafa séð sig tilneydd að leiðrétta vitleysuna í Styrmi opinberlega. Það hefðu eitt sinn þótt stórtíðindi. Aðrir láta sér í léttu rúmi liggja þus veruleikafirrts manns.
Að einhverju leyti virðist Styrmir líta á sig sem pólitískt kyntröll. Hann hefur mangað til við Ingibjörgu Sólrúnu, Valgerði Sverrisdóttur, Svandísi Svavarsdóttur og Margréti Sverrisdóttur, svo aðeins fáar séu nefndar. Engin þeirra hefur viljað þýðast hann pólitískt – hátindur tilhugalífsins er rómantískur snittulöns við Rauðavatn – og þær hafa uppskorið réttmæta reiði ritstjórans með sífelldu hnjóði og skítkasti svo að jaðrar við einelti. Enginn karlkyns stjórnmálamaður hefur mátt þola viðlíka útreið, sem rennir stoðum undir þá útbreiddu kenningu að ritstjóri Morgunblaðsins sé haldinn kvenfyrirlitningu á alvarlegu stigi.
En Styrmir skynjar ekkert af þessu. Hann rótar í flaginu sínu, telur sig áhrifamikinn spunameistara og reynir í örvæntingu að hafa áhrif á rás atburða. Á meðan siglir þjóðfélagið framhjá, áhugalaust um það sem engu máli skiptir, nema einstaka velviljað fólk sem hugsar: Synd hvernig komið er fyrir honum.
———-
Á Morgunblaðinu hefur góðum blaðamönnum snarfækkað á síðustu árum og sumir segja að flestir þeirra hæfileikaríkustu séu farnir. Þar kemur einkum tvennt til: Efnistök og stjórnunarstíll ritstjórans.
Blaðamenn Moggans hafa séð ýmislegt, en margir hrukku við þegar Sjálfstæðisflokkurinn missti stjórn borgarinnar útúr höndunum á sér í haust. Þar leit Styrmir á sig sem einn aðalleikenda og spunameistara og þá voru gefin út fréttaverkefni í þeim tilgangi einum að rétta ritstjóranum vopn í Staksteina sem hann hélt í þráhyggju sinni að mundu skipta einhverju máli.
Þögnin gamla er líka gulls ígildi: Mogginn sagði frá því á innsíðu í smáfrétt að Þorsteinn Davíðsson hefði verið ráðinn héraðsdómari. Ekkert var minnst á einhver nefnd hefði metið einn hæfari en annan. Aðrir fjölmiðlar fjölluðu að sjálfsögðu um það og þá var einsog við manninn mælt: Í tvennum Staksteinum froðufelldi ritstjórinn útaf þeim fjölmiðlum, pólitískum ofsóknum og annarlegum hvötum.
Þeir sem reiddu sig á Morgunblaðið eingöngu sem fréttamiðil hlutu hinsvegar að klóra sér í höfðinu. Um hvað var maðurinn að tala? Morgunblaðið hafði ekki flutt eina einustu frétt um að nokkrar deilur tengdust þessu máli.
Reglulega gerist það að blaðamenn bera fram hugmyndir um fréttaefni og umfjöllun, en ritstjórinn drepur þær í fæðingu með athugasemdum einsog: „Þetta er ekki einsog það lítur út fyrir að vera. Ég veit hvernig í þessu liggur. Við skrifum ekkert um þetta.“
Þegar heiðarlegir blaðamenn voga sér að gera athugasemdir við þetta og annað smálegt eru viðbrögðin fyrirsjáanleg: Reiðiþrunginn fyrirlestur um hlutverk Morgunblaðsins, sögu þess og prinsipp, ræðan sem allir kunna utanbókar. Ef athugasemdin er sérstaklega vel ígrunduð eða umræðuefnið viðkvæmt eru ekki haldnar neinar ræður. Þá er beinlínis öskrað á viðkomandi og allir hæfileikaríku blaðamennirnir á fundinum horfa í gaupnir sér og velta fyrir sér afhverju þeir láta bjóða sér þetta.
Hrós er ekki til í stjórnunarbókmenntum Styrmis. Viðhorfskannanir innan Morgunblaðsins hafa ítrekað sýnt að verst þykir starfsmönnum að fá aldrei jákvæð viðbrögð frá ritstjóranum. Styrmir gefur lítið fyrir slíka smámuni; segist ekki sjá ástæðu til að hrósa fólki fyrir að vinna vinnuna sína.
Um gagnrýni á ritstjórann gilda önnur lögmál. Hann ræður. Hann hefur rétt fyrir sér. Þá eru reiðilestrarnir og froðufellingarnar aldrei langt undan.
Enda eru margir farnir, einkum úr viðskiptafréttunum sem eru sérstakt hugðarefni Styrmis, en upptalningin væri löng.
Það vakti allmikla athygli þegar Davíð Logi Sigurðsson, eitt af allra bestu „Morgunblaðseggjunum“ sem kaus sér friðvænlegri slóðir í Líbanon, skrifaði þetta á vef sinn fyrir skömmu:
„Það er leiðinlegt að blaðið og það góða fólk sem þar starfar skuli þurfa að gjalda fyrir þann einarða ásetning ritstjórans að bera sigur úr býtum í því stríði sem hann telur sig verða að heyja um þessar mundir í pólitíkinni – með mismálefnalegum hætti. Persónulega hef ég miklar efasemdir um að sá stríðsrekstur þjóni hagsmunum Morgunblaðsins. En ef ég þekki mitt heimafólk rétt telur ritstjórinn að aðeins hann geti skilgreint þá hagsmuni, aðeins hann þekki þá til hlítar.“
Davíð Logi er grandvar og orðvar séntilmaður og því þarf ekki mikið ímyndunarafl til að skynja það sem kraumar þarna undir.
———-
Styrmir Gunnarsson hefur reynt í anda leyniþjónustuagentsins reynt að sveipa sig dulúð, veitir sárafá viðtöl og kemur sjaldan fram opinberlega. Eitt af uppáhaldstrixum hans í Reykjavíkurbréfum og Staksteinum er að rekja efni máls almennum atriðum, gefa í skyn að nokkur ósögð lykilatriði skipti sköpum fyrir réttan skilning á málinu og bæta við: „Kannski verður sú saga sögð síðar.“
„Ég veit. Ég þekki til. Ég hef upplýsingar. Þess vegna skil ég málið og hef rétt fyrir mér. Einsog alltaf. Kannski upplýsi ég ykkur síðar.“
Styrmir hefur haldið dagbækur um áratugaskeið og hyggur á útgáfu einhverskonar ritverks um stjórnmál og samfélag sem byggt verður á þeim. Hann samdi fyrir nokkru við Mál og menningu um útgáfu á þessu verki, þótt óvíst sé hjá hvaða forlagi það kemur á endanum út. Einhverjir binda eflaust vonir við að bókin sé þetta „síðar“ sem Styrmi hefur orðið svo tíðrætt um.
Ekki veðja aleigunni á það. Það stríðir gegn kjarnanum í sálarlífi Styrmis Gunnarssonar – leyndarhyggjunni – að upplýsa venjulegt fólk um „mikilvæga“ hluti. Það hefur ekki sömu þekkingu, yfirsýn og reynslu og hann og skilur ekki innsta eðli hlutanna. Þess vegna hefur hann þagað öll þessi ár og þegir enn.
Í „æviuppgjöri“ sínu mun Styrmir Gunnarsson naumast gera meira en að krafsa í yfirborðið á leyndardómunum sem hafa barist um í brjósti hans svo lengi. Kannski fer líka best á því.
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021