AÐ SKIPTA Á TUNGUM
Í tilefni dagsins
Það er 1. des., fyrsti desember. Í Silfrinu á Rúv er verið að tala við forstjóra Air Iceland Connect. Fyrir nokkrum misserum hét þetta félag Flugfélag Íslands. Reksturinn gekk ekki sem skyldi. Þá fékk stjórn félagsins þá hugmynd að skíra félagið upp. Ætlunin var að auðvelda útlendingum að segja nafnið. Þetta átti að vera örugg leið til ábata og betri rekstrar. Það hefur ekki gengið eftir. Farþegum fækkar. Félagið hangir enn á horreiminni. Þar að auki er að íslenska heitið horfið. Og brot ef þjóðerni.
Með malið í forstjóranum í eyrunum rifjaðist upp fyrir mér að í apríl síðast liðnum var mér bent á grein sem ég skrifaði í Þjóðviljann 1972. Þetta var eins konar 1.des. grein, birt myndskreytt í blaðinu þann 6. desember. Mér þykir hún eiga við í dag, 47 árum síðar. Því er hún hér með millifyrirsögnum, óstytt:
Að skipta á tungum
Það var misjafnt hvað menn höfðust að á fullveldisdaginn. Meðan háskólastúdentar fluttu einhverja bezt heppnuðu dagskrá, sem flutt hef ur verið í útvarp, undir kjörorðunum Gegn hervaldi — gegn auðvaldi, tók 61 Íslendingur við viðurkenningu frá bandaríska herliðinu á Keflavíkurflugvelli fyrir 10 og 15 ára ,,óeigingjarnt og mikilvægt starf að vörnum landsins“.
Svona er nú íslenzka lundin margslungin.
Af fimm dagblöðum og tvískiptu rikisútvarpi, sem boðið var að vera viðstödd „hátíðarhöld“ suður i Heiðinni vegna „viðurkenningarinnar“, mættu aðeins fulltrúar tveggja aðila: Morgunblaðsins og Þjóðviljans.
Hinum væntanlega „heiruðu“ og blaðamönnum var ekið frá Reykjavik til Keflavikur á kostnað veitendanna, og í rútu Keflavikurbæjar glumdi i eyrum dagskrá stúdentanna þar sem þeir fordæmdu hervald og auðvald við kæruleysislegar undirtektir „heiðursgestanna“.
Fyrir Íslands hönd
Eftir að hópnum hafði verið skilað í offiséraklúbbinn i Heiðinni, sem af öryggisástæðum er gegnt höfuðstöðvunum, upphófst kynning á „mikilvægi varnanna“. Kynninguna annaðist einn af starfsmönnum upplýsinga – deildarinnar, aðstoðar blaðafulltrúi hersins, Marshall höfuðsmaður. ()g vegna þess að Ameríkumenn er engir græningjar, talaði höfuðsmaðurinn á íslenku.
Kynningu sina framkvæmdi höfuðsmaðurinn með myndum auk orða, er inngangsorð hans að kynningunni voru: — Hlutverk „varnarliðsins“ er að taka þátt i starfsemi NATO fyrir Íslands hönd.
Og þá höfum við það.
Ósvífnir Rússar
Með myndum og hæfilegri orðkynngi útskýrði höfuðsmaðurinn mikilvægi „varnarflugsins“, og þyngst vó þar á metaskálum sú ósvífnislega afstaða Sovétmanna að neita að tilkynna flug véla úr sovézka flughernum. Svona eru nú Rússar ósvífnir andstæðingar.
Landvarnarliðið
Og það er ekkert kák á vörnunum hér. Auk flughers flotans, og flotans sjálfs, sem þó hefur ekki bækistöð hér, er í Heiðinni til staðar landvarnarlið.
Og hvernig skyldi það nú vera uppbyggt?
Jú, i því eru ekki hermenn, heldur menn sem eru i öðrum störfum hjá hernum. Hlutverk þeirra er að verja flugvöllinn sjálfan, og sjálfsagt „varnarliðið“ meðan liðsauka drífur að, ef til styrjaldar kæmi. Þeir mundu því verja hina 5900 íbúa Hreiðursins, og svo talar fólk í fullri alvöru um tilgangsleysi varnanna.
Loftnet veiðiflotans
Kyrrstöðumyndir voru sýndar af rússneskum togurum og veiðiskipum. „Þessu er mikilvægt að fylgjast með, ekki einungis vegna landhelgisgæzlunnar, heldur líka vegna þess að rússnesku veiðiskipin hafa svo mörg loftnet“, sagði höfuðsmaðurinn. „Þetta eru áreiðanlega njósnatogarar“. Síðan var sýnd kvikmynd úr „eftirlitsflugi“, þar sem rússnesk herskip voru sýnd í bak og fyrir, og mynd af rússneskum kafbát með þremur langdrægum eldflaugum.
„Eitt er nauðsynlegt“
Áður en kvikmyndasýningin hófst, og njótendur fengu aðeins að horfa á kyrrstöðumyndir, var sýnd ein slík af björgunarsveitum hersins. Þeirri mynd fylgdi svohljóðandi skýring frá höfuðsmanninum:
Eitt nauðsynlegasta og mikilvægasta starf okkar hérlendis er björgunarstarfið sem við vinnum.
Hefur nokkur heyrt þetta áður?
Þegar búið var að sýna landanum allar þessar myndir og lesa yfir honum skýringar, mikið ýtarlegri en hér hafa birzt, spurði höfuðsmaðurinn að því hvort áheyrendurnir vildu leggja fram nokkrar spurningar. En enginn spurði neins. Það þarf nú ekki aldeilis að tyggja hlutina i okkur Íslendinga.
Með orrustusveitinni
Nú var haldið i rútuna á nýjan leik, og við undirleik frá hátíðarhöldum dagsins i Háskólabíói var ekið i flugskýli orrustusveitarinnar og það skoðað ásamt innihaldinu.
Margur landinn lét nokkuð yfir því að hann hefði nú séð allt þetta áður, og meira til, en aðrir voru lítillátir og litu gaumgæfilega á allt sem fyrir augu bar, og enn aðrir sýndu eldlegan áhuga og spurðu í þaula og fengu auðvitað svör, því þessi ferð til orrustusveitarinnar var jú gerð með það fyrir augum að fræða landann um mátt „varnanna“.
Á undan áætlun
Ekki varð allur mátturinn séður með heimsókn til orrustusveitanna. Einnig þurfti að kynna landanum aðbúnað þann sem liðið veitir sínum mönnum. Og hann er sko ekkert slor. Þarna i Heiðinni er líklega bezt búni barna- og unglingaskóli landsins með fullkomnum tækjum til allra mögulegra og ómögulegra hluta, og svo mikið þótti einum af fallkandidötum íslenzka skólakerfisins til dýrðarinnar koma, að honum varð að orði:
„Ofsalega hefði maður nú getað lært mikið í svona skóla“.
Síðasti viðkomustaður landanna áður en til afhendingar heiðursskjalanna kom var vistlegur klúbbur þar sem Könum á öllum aldri var gert kleift að koma saman án víns og ástunda hvers lags tómstundir.
En þar kom dulítið babb i bátinn.
Forvitni landans hafði aldrei verið slík, að verulegar tafir hefðu orðið af þeim sökum, og sumir lögðu sig fram við að ljúka skoðunum sínum hið bráðasta, því eftirvæntingarfull hátíðarhöld voru framundan. Því fór það svo, að þegar landinn hafði litið allt sem líta mátti, var enn eftir 1/2 klukkutími þar til hófið átti að byrja i klúbbi yfirmanna.
Verðlaunaaugað
Sú stofnun sem oftast hefur verið verðlaunuð allra stofnana á Vellinum er slökkvistöðin, sem ku vera sú öruggasta i öllu varnarkerfi NATO. Og ekki brást hún i þetta skiptið.
Þegar eftirvæntingarfullir „heiðursmenn“ komu i klúbbhlaðið var slökkviliðið mætt til staðar með eitthvað af bílakosti sínum og blikkandi varúðarljós. Fór nú að færast örvænting um landann, og flugu þar málsverðir og vínföng á burt, og allt benti til heldur endaslepptrar „heiðurshátíðar“.
En verðlaunaaugað, eins og öfundgjarnir slökkviliðsmenn annars staðar af á landinu kalla slökkvilið Vallarins, stóð i verðlaunastykkinu, og auðvitað var allt óskemmt, matur, vínföng og húsið sjálft.
Þá andaði margur léttar.
Íslenzkir „varnarliðsmenn“
Og þar með hófst sjálf heiðrunin. Sjálfur aðmírállinn, sem samkvæmt íslenzkri tungu ber starfsheitið flotaforingi, ávarpaði „heiðursmennina“. Og hann talaði á íslenzku, og það sem meira er um vert, góðri íslenzku. Innihald ræðunnar var áróðurslaust þakklæti til „heiðurs mannanna”, og svo að dæmi sé tekið, fylgir þetta úr ræðunni:
„Þið sem eruð að taka við viðurkenningu i dag eruð sérstaklega mikilvægir. Það er mitt álit, að Íslendingarnir okkar séu eins góðir varnaliðsmenn og þeir sem bera einkennisbúninga“.
Síðan fengu menn innrammað skrautplagg upp á það.
Móðir mín í kví kví
Þá tók einn 10 ára „heiðurs maðurinn“ sig til og ávarpaði samkomuna. Að sjálfsögðu lagðist hann ekki svo lágt að tala á íslenzku, þar sem aðmírállinn skildi það mál, svo og allir aðrir viðstaddir, heldur launaði hann fyrir sig með eldhugaræðu á enskri tungu, og sagði svo meðal annars:
„Ekki var ég spurður að því hver væri móðir mín, hver væri faðir minn, eða hvar ég væri i pólitik, þegar ég var ráðinn hingað“.
Aumingja manninum var það ekki ljóst, að suma hluti bera menn utan á sér, aðra er aldrei hægt að upplýsa.
Með hervaldi, meðauðvaldi
Áfram hélt íslenzki „heiðursmaðurinn“ ræðu sinni:
„Þegar kemur að útborgunardeginum, þá er launatékkurinn þar sem hann á að vera“.
,,Eins og ykkur er kunnugt hefur íslenzka ríkisstjórnin ákveðið að láta endurskoða varnarsamninginn. Við skulum vona að sú endurskoðun leiði i ljós, sýni og sanni, að herstöðin verði ómissandi um ókomin ár. Ég er tilbúinn að vinna hér næstu 10 árin“.
Hann er stór i sniðum, Íslendingurinn.
Hver er nú eiginlega hvað?
Þegar „heiðursmennirnir “ voru farnir að gæða sér á amerískum mat i servíettum, og hella í sig alls kyns vínum, ómælt, spurði blaðamaðurinn Marshall höfuðsmann að því hvers vegna 1. des. hefði orðið fyrir valinu til slíkrar heiðrunar. Höfuðsmaðurinn svaraði:
„Síðastliðinn föstudag var klúbburinn upptekinn. Næsta föstudag var flotaforinginn upptekinn. Þess vegna varð 1. desember fyrr valinu; mér þykir það leitt“.
Og það var reyndar ýmislegt annað sem þeim kumpánum, höfuðsmanninum og aðmírálnum, þótti leitt, sem íslenzkum ,,heiðursmönnum“ þótti bara alls ekki leitt.
Því er það sem blaðamaður veit ekki lengur hver er hvað innan Vallar: Hver er til dæmis Íslendingur þar og hver NATÓ-ingur; var einhver heiðraður, eða var verið að niðurlægja einhvern?
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020