Að kaupa sjálfan sig
Sá sem haldinn er aurasótt leitar í sífellu eftir meira fé. Og ef hann eygir gróðavon fer hann á stúfana til að góma fenginn.
Nú hafa gróðafíklar trekkt upp einn af sendimönnum sínum. Sá er kunnur gjaldþrotasmiður frá Bóluárunum og situr á alþingi. Hann er byrjaður að tala um að nauðsynlegt geti verið að selja einn af ríkisbönkunum til þess að landsmenn eigi fyrir brýnum framkvæmdum á vegakerfinu. Það er ákjósanleg átylla hjá þeim og honum því flestir vilja betra samgöngukerfi.
Ríkisbankarnir hafa skilað hagnaði að undanförnu. Hver þeirra hefur lagt ríkissjóði til 10-14 miljarða króna árlega. Söluverðmæti þess banka sem sendillinn, þingmaðurinn, ræðir um hefur verið nefnt 135 miljarðar hvort sem það er rétt metið eða ekki. Fyrir þá summu væri aldeilis hægt að bæta vegakerið í landinu. Og það er rétt hjá honum.
En það er margt sem hann nefnir ekki.
Hann segir til að mynda ekki frá því að ef bakinn yrði seldur má gera ráð fyrir að hann yrði greiddur upp á tíu árum eða svo, 13,5 miljarðar á ári. Það er svipuð summa og rekstur hans skilar í hagnað árlega. Samkvæmt því þyrftu kaupendurnir ekki að leggja til fé; bankinn á að greiða kaupverðið á sjálfum sér með árlegum hagnaði af sjálfum sér. Hann á að kaupa sig sjálfur. Og þegar áratugurinn er liðinn hefur ríkið fengið 135 miljarðana (ef til vill), það er að segja svipaða upphæð og bankinn hefði skilað í hagnað til ríkissjóð á sama tíma. En þá á ríkið (við) bankann ekki lengur. Fær ekki 13,5 miljarða arð af honum árlega eftir það og verður að hætta að að bæta innviði ríkisins fyrir þá upphæð ár hvert.
Aðferð sendisveins gróðabrallaranna er kunn. Við þekkjum hana. Við höfum orðið fyrir henni. Hún heitir að gefa banka, að fá banka að gjöf og við vitum til hvers það leiðir. Við höfum reynsluna.
En. Þeir eru byrjaðir að tala, sendlarnir. Við sem viljum ekki sama framgangsmáta og þeir verðum að vona að það séu nógu margir menn og konur á alþingi sem sjá í gegn um yfirvarp aurasóttargemsanna, stöðvi áætlanir þeirra og komi í veg fyrir nýja Bólu og nýtt Hrun.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020