Viltu að ég biðji Brynju um að lita á sér hárið? – Einstök bók um einstæðar forsetakosningar
Væntanleg er bókin Alltaf einn á vaktinni – saga af forseta og þjóð hans eftir Karl Th. Birgisson. Þar rekur hann einstæða sögu forsetakjörsins árið 2012.
Bókin er byggð á opinberum heimildum, en einnig og ekki síður samtölum höfundar við fjölda þeirra sem koma við sögu, þar á meðal Ólaf Ragnar Grímsson forseta. Bókin er fjármögnuð í samvinnu við Karolina Fund, svo sem lesa má um hér.
Herðubreið mun á næstunni birta stutt kaflabrot úr bókinni með leyfi útgefanda.
Ástþór Magnússon var á Ríkisútvarpsvaktinni á fleiri vígstöðvum. Þegar Þóra tilkynnti um framboð sitt hætti hún auðvitað samstundis að stýra spurningaþættinum Útsvari ásamt Sigmari Guðmundssyni. Í hennar stað kom Brynja Þorgeirsdóttir, önnur ljóshærð og glæsileg kona.
Þessi ráðstöfun varð til þess að Ástþór hringdi í Sigmar og kvartaði yfir því að „tvífari“ Þóru væri farinn að stýra Útsvarinu. Það bryti gegn hlutleysisskyldum Ríkisútvarpsins og væri greinilega dulbúinn áróður í þágu Þóru.
„Hvað viltu að ég geri, Ástþór minn?“ svaraði Sigmar í símtalinu. „Á ég að biðja Brynju að lita hárið á sér dökkt? Ég er ekki viss um að ég geti farið fram á það.“
„Láttu ekki svona, Sigmar,“ sagði Ástþór og var ekki af baki dottinn. „Þú veizt alveg um hvað ég er að tala. Meira að segja Saddam Hussein var með tvífara.“
Ástþór var ekki einn um að fylgjast vel og grannt með, því að amx.is, vefur með yfirskriftinni „Vönduð miðlun frétta,“ brást svona við umfjöllun Brynju Þorgeirsdóttur um Listahátíð í Reykjavík 7. maí:
„Síðast í gærkvöldi sáu smáfuglarnir Þóru í útsendingu Ríkisútvarpsins. Var hún á skjánum í dágóða stund í þætti sem smáfuglarnir kunna ekki að nefna. Hún var þar sem starfsmaður RÚV inni á hverju heimili landsins.
Hvar voru hinir frambjóðendurnir? Fá þeir jafn mikinn tíma í útsendingu RÚV til að minna á persónu sína? Eru þeir sendir heim í stofu landsmanna tímunum saman í hverjum mánuði? Eða þurfa þeir af litlum efnum að kaupa sér lesnar hljóðauglýsingar í útvarp á meðan Þóra stendur brosandi í næsta litasjónvarpi?
Smáfuglarnir telja að útvarp ríkisstjórnarinnar ætti að sjá sóma sinn í því að gefa Þóru Arnórsdóttur frí frá störfum þangað til eftir kosningar og leggja til hliðar útsendingar á henni á meðan kosningabaráttunni stendur.“
Leiðrétting birtist þremur sólarhringum síðar.
(Úr 10. kafla: Skemmtiatriðin)
Eins og fyrr sagði er bókina að finna á Karolina Fund hér.
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021