Á að knúsa Dóra DNA ærlega eða draga hann á tálar? Þarna er efinn
Ritdómur – Stefán Bogi Sveinsson
Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir – Lítil atvik, mikil eftirmál
Halldór Laxness Halldórsson
(Bjartur, 2015)
Hver er það sem hér er mættur með sína fyrstu* ljóðabók? Framan á kápunni heitir hann Halldór Halldórsson en á innsíðum heitir hann Halldór Laxness Halldórsson. Enn önnur útgáfa er Halldór L. Halldórsson.
Það er sjálfsagt ekkert einfalt mál að ætla að hasla sér völl í bókmenntum á Íslandi og heita Halldór Laxness. Það bætir síðan á flækjustigið að höfundurinn skuli fyrst hafa getið sér orð sem rappari, undir nafninu Dóri DNA, og hafi síðan þróað feril sinn yfir í uppistand sem hefur síðan leitt hann á leiksvið hjá Leikfélagi Akureyrar. Það er að minnsta kosti ljóst að Halldór er mikill hæfileikamaður og ekki einhamur í listinni. En svona fjölbreyttur ferill skapar ákveðið vandamál fyrir skáld að marka sér stað.
Þetta er kannski dálítið svipað og þegar þekktir gamanleikarar taka að sér bitastæð hlutverk í alvarlegum verkum. Það er nánast sama hversu góð frammistaða þeirra er, það eru alltaf einhverjir sem fara að hlæja. Dóri DNA hefur því ákveðið að stíga fram sem Halldór, skáld sem ætlast til að vera tekið alvarlega. Og eftir að hafa lesið fyrstu afurðina er ekki nema algjörlega sjálfsagt að verða við þeirri bón.
Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að hlýða tvívegis á upplestur hjá Halldóri á Litlu ljóðahátíðinni í Norðausturríki nú í haust. Hann er frábær upplesari. Áralöng reynsla af sviði kom berlega í ljós og ljóðin hittu í mark hvert af öðru. Eftir sat umfram annað sú tilfinning að maðurinn væri sannarlega ekkert að grínast. Eftir sat líka heilmikil gleði yfir því að þarna væri komin fram rödd sem talaði fyrir munn hóps, sem kannski hefur ekki alltaf átt sér rödd í ljóðlist. Rödd ungs karlmanns.
Það hljómar kannski einkennilega að segja þetta því það hefur sannarlega ekki skort á að ungir karlmenn gefi út ljóðabækur. En þó það sé kannski gróft að segja það, þá hefur rödd þeirra ef til vill ekki alltaf verið sú karlmannlegasta. Að skrifa ljóð er í eðli sínu að bera tilfinningar sínar á torg. Það er ekki ýkja karlmannlegt þegar upp er staðið. Þannig hafa ljóð og karlmennska að sumu leyti verið andstæður í samfélaginu. Þegar maður les Halldór kveður hins vegar við aðeins annan tón. Þetta er rödd ungs karlmanns sem ætlar sér að bera tilfinningar sínar á torg, án ritskoðunar og án þess að gefa neinn afslátt af karlmennskunni.
Ljóð Halldórs eru mjög tæpitungulaus, á sumum stöðum hreinlega gróf, og hann er alveg ófeiminn við að opna inn á mjög óaðlaðandi hliðar karlmennskunnar. Í ljóðum Halldórs er að finna ruddaskap, ofbeldi og klám, en allt eru þetta hlutir sem setja mikið mark sitt á líf ungra karlmanna. Þess vegna finnst mér að Halldór tali fyrir hóp sem ekki hefur átt sér mikinn sess í ljóðagerð fram til þessa.
Það er kannski helst að manni komi í hug ljóð Birgis Svan Símonarsonar, þar sem bílar, poppmenning og stelpur áttu sér sinn sess. En þessi heimur ungra karlmanna sem Halldór birtir er hrárri og meira brútal. Það er líka 2015.
En þó að það sé hressandi út af fyrir sig að heyra þessa rödd, þá dugir það eitt og sér ekki til þess að verkið gangi upp. Það sem heillar mig er sú staðreynd að þótt höfundurinn undirgangist allar þessar karlmennskuklisjur, þá gerir hann sér samt grein fyrir því að þær eru klisjur. Þess vegna er alltaf einhver gagnrýnisbroddur í ljóðunum. Jafnvel líka einhver ótti við að verða þegar upp er staðið heltekinn af þessum klisjum, nauðugur viljugur. Í ljóðunum er að finna næman skilning á þessu hlutskipti karlmannsins og þegar best tekst til er niðurstaðan hreint frábær. Ljóð sem hægt er að lesa aftur og aftur og verða algjörlega bergnuminn.
Miðað við fyrstu bók þá er um að ræða mjög heilsteypt verk. Þó ber að geta þess að ljóðin í bókinni skiptist nánast alveg í tvo flokka. Annars vegar eru það Hugmyndirnar. Stutt ljóð sem tilgreina hugmyndir að skáldsögum, leikritum, vörum eða sjónvarpsþáttum. Miðað við heiti bókarinnar mætti halda að þessi ljóð ættu að vera burðurinn í bókinni, en svo er alls ekki. Í þessum ljóðum skín grínistinn í gegn og þau þjóna eiginlega því hlutverki að vera einhvers konar „comic relief“. Að létta stemmninguna milli annarra texta sem sumir hverjir verða býsna dökkir og þungir.
Hugmynd að leikriti #2
Kardimommubærinn. Nema bara í Breiðholti.
Það mætti líka ef til vill halda að heiti bókarinnar sé fengið frá þessum styttri ljóðum, en mig grunar að það sé meiri og dýpri hugsun að baki því er svo. Að sumu leyti sitjum við ennþá uppi með karlmennskuímynd úr góðæri, þrátt fyrir allar kreppur. Þá ímynd að karlmaður eigi að vinna og græða peninga til að kaupa bíla og hús og græjur. Og að því fengnu þá eignist karlmaðurinn stelpur að vild. Þegar ímyndin er svona þá er ekkert nógu gott, nema að andvirðið sé minnst hundrað milljónir.
Hinn flokkurinn eru frekar langir prósar sem fjalla mikið um þá karlmennskuímynd sem að framan greinir. Og það er í þessum ljóðum sem gullið er að finna.
Með fyrsta ljóði bókarinnar, Performans, er reyndar eins og sprengju sé kastað framan í lesandann og honum er nánast ögrað til þess að leggja bókina frá sér.
Við byrjum á því að hasta á áhorfendur.
Þeim verður að líða illa.
Og svo er haldið áfram og gengið fram af lesandanum aftur og aftur þangað til að hápunktinum er náð þegar þjóðargersemi er kynnt til sögunnar.
Inn gengur Arnar Jónsson.
Það er búið að dressa hann upp eins og Steven
Seagal, hot glue-a fantagott ponytail á hann, stimpla
kleinuhringsskegg í grímuna á honum. Arnar er hræddur.
Nánast kjökrandi. Eins og honum hafi verið rænt og hann
neyddur í þessa múnderingu.
Það er skemmtilegt hvernig Halldór beitir orðfæri til að kalla fram tilfinningar. Slettum, tilvísunum í dægurmenningu og vörumerkjum er ætlað að ná fram ákveðnum tilfinningum en líka til að leggja áherslu á þann veruleika sem skáldið lýsir og ungir karlmenn ættu að þekkja. Þetta tekst hvað best í ljóðinu Til hins þýskumælandi heims, þar sem neysluhyggju og karlmennskulega ímynd Þýskalands má finna saman undir stýri á BMW X6.
Þar að auki vil ég: ískaldan spezi í cupholderinn og hlaðna
Heckler & Koch liggjandi í framsætinu. Helst með
hljóðdeyfi. Þar að auki væri ég til í kassa af litlum Licher
og einn rótsterkan Lamachun.
Spítt fyrir afganginn.
Karlmennskan er leiðarstef bókarinnar og það er á stöku stað nánast eins og örli á hómóerótík þegar verið er að vinna með vináttusambönd karlmanna, sem er mjög spennandi efniviður og það er vel unnið með hann hér. Í ljóðinu Fiskar dagsins (Kæri vinur) verður þetta hvað mest áberandi.
Núna langar mig að fara niður á körfuboltavöllinn og
keyra skellinöðruna og mig langar að rífa mig úr að ofan
og mig langar að detta með þér: Renna eftir malbikinu
og súpa hveljur meðan húðin á mér tætist eins og
parmesanostur á rifjárni. Það myndi gleðja mig núna.
Og það er farið ennþá dýpra.
Ég gleymi því aldrei þegar þú sveikst mig fyrir strákinn sem
þú þekktir ekki neitt. Þá elskaði ég þig mest.
Í dag elska ég þig enn meira. Fjarlægðin sem ærir í mér
hjartað og thumbnail-myndirnar sem ásækja mig á næturnar.
En það besta kemur síðast. Síðasta ljóðið, Nýr dagur í Eyjafirði (væntingar) er magnum opus þessarar afar frambærilegu fyrstu ljóðabókar Halldórs Laxness Halldórssonar. Það er svo gott að ég ætla ekki að vitna í það. Þið verðið bara að ná ykkur í eintak og lesa það. En það er frábært. Ég grét þegar ég las það, en inni í mér, því ég er jú karlmaður.
Og mér finnst ég eigi að gera eitt af þrennu við höfundinn: Taka innilega í spaðann á honum og klappa honum þéttingsfast á bakið. Taka utan um hann og knúsa hann ærlega. Eða þá að reyna að draga hann á tálar.
Ég veit ekki enn hvað er réttast. En það það er eitt af þessu þrennu.
Stefán Bogi Sveinsson
*Bókin er nú reyndar endurútgefin hjá Bjarti lítið eitt endurskoðuð. Hún kom áður út hjá Tungli, en þá í aðeins 69 eintökum og óseld eintök voru brennd eins og venja er hjá forlaginu. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum var ösku hinna óseldu eintaka stráð á leiði Sigurðar Breiðfjörð.
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021