VEIÐIGJÖLD 2015. Fyrsti hluti
Á vormánuðum 2014 voru samþykkt á Alþingi lög um veiðigjöld sem gilda áttu til eins árs. Í grein um frumvarpið og umsögn sem ég gaf atvinnuveganefnd Alþingis benti ég m.a. á að í frumvarpinu fælist sú breyting að horfið væri frá þeirri meginhugsun laganna frá árinu 2012 að leggja gjald á auðlindarentu í fiskveiðum og tryggja þjóðinni hlutdeild í þeim tekjum sem fiskveiðiauðlindin gefur af sér. Greinin og umsögnin birtust á Herðubreið.is í apríl og maí 2014.
Þessi stefnubreyting er nú staðfest með nýju frumvarpi sem gilda á til þriggja ára meðan verið er að semja og pússa flókið álagningarkerfi sem hefur þó ekkert með ákvörðun gjaldsins að gera en er ný aðferð til að reikna út þorskígildi einstakra fiskitegunda. Frumvarpið nú á það sammerkt með frumvörpum síðustu tveggja ára að í því er enginn marktækur rökstuðningur fyrir meginefni þess auk þess sem það er illa unnið að öðru leyti.
Tilvitnaðar greinar, sem einnig má finna á vefsíðu minni IndriðiH, (Afnám veiðigjalda) (Umsögn um veiðigjaldafrumvarp 2014), ásamt eldri greinum um veiðigjöld (Veiðigjöld), eiga að mestu við um hið nýja frumvarp en hér á eftir verður fjallað nokkuð nánar um efni þess.
Rökstuðningur frumvarpsins
Upphaflegu lögin um veiðigjöld eru auðlindamál fremur en tekjuöflunarmál. Þau voru sett með það grundvallarsjónarmið í huga að rétturinn til veiða í fisksveiðilögsögu Íslands sé eign þjóðarinnar, hann sé hluti af náttúruauðlindum hennar. Megin tilgangur laganna var “að tryggja þjóðinni hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar.” Í upphaflegu lögunum eru skýr tengsl á milli auðlindarentu í fiskveiðum og veiðigjaldanna. Fjölluðu lögin að mestu um það hvað þjóðin sem eigandi auðlindarinnar skyldi fá í sinn hlut af umframarðinum eða rentunni af fiskveiðiauðlindinni og hve stóran hlut útgerðir skyldu fá til viðbótar við eðlilegan hagnað af þeim fjármunum sem þær hafa lagt fram. Fyrir því voru færð ítarleg rök í frumvarpi að þeim lögum og skýrslu sem áður hafði verið unnin til undirbúnings þeim. Þessi stefna á sterkan hljómgrunn meðal þjóðarinnar, sem komið hefur fram með ýmsum hætti.
Með lagafrumvarpinu nú eru þessi tengsl rofin og ekkert rökrænt samhengi er lengur á milli tilgangs laganna og ákvörðunar veiðigjaldanna. Í frumvarpinu er engin tilraun gerð til að skýra hvers vegna vikið er frá þessari stefnu en látið í veðri vaka að tilgangurinn sé óbreyttur. Almenni hluti greinargerðarinnar er dæmigerð tilraun til að fela rökþrot í innihaldslausum frösum og hentifræðum. Ekki er rökstutt af hverju er verið að leggja á veiðigjöld, hvers vegna er notaður sá skattstofn sem fyrir vali varð, af hverju heildarfjárhæð gjaldanna er reiknuð eins og lagt er til o.s.fr. Þá er ekki fjallað með rökum eða upplýsingum um hvaða áhrif þessar tillögur kunna að hafa á greinina og starfsemi fyrirtækja í greininni. Þannig er enginn vitrænn rökstuðningur í frumvarpinu um meginefni þess en niðurstöðurnar settar fram eins og þær hafi stokkið fullskapaðar úr höfði einhvers Seifs en meginhluta greinargerðarinnar er eytt í tæknileg atriði sem flest snúa að útreikningi þorskígilda.
Sanngirni
Helstu málsástæður sem upp eru taldar í greinargerðinni eru því marki brenndar að vera settar fram án rökstuðning og án tengsla við efni frumvarpsins. Eitt megintilefnið er sagt vera: “að eigandi nytjastofna á Íslandsmiðum, íslenska þjóðin, eigi sjálfsagðan rétt til sanngjarnar greiðslu frá þeim sem njóta aðgangs að nytjastofnum sjávar.” Það er síðan ítrekað með orðunum: “að eigandi auðlindarinnar, íslenska þjóðin, á rétt á sanngjörnu endurgjaldi fyrir heimildir sem veita aðgang að sjávarauðlindinni.” Þessi fögru fyrirheit reynast hins vegar innantóm því hvergi er gerð tilraun til að raungera þau með efni frumvarpsins. Ekkert mat lagt á verðmæti þessarar þjóðareignar, ekki sýnt fram á hver tengsl gjaldsins við auðlindina eru og enginn rök færð fyrir því hvernig niðurstaða frumvarpsins um veiðigjöld geti talist sanngjarnt endurgjald fyrir aðgang að sjávarauðlindinni.
Samkvæmt frumvarpinu verða veiðigjöld á næsta fiskveiðiári um 9,4 milljarðar króna. Reikna má með að um helming þeirrar fjárhæðar þurfi til að greiða opinberan kostnað vegna sjávarútvegs þannig að eftir standa um 5 milljarðar sem eiginlegt endurgjald fyrir nýtingu auðlindarinnar. Er það sanngjarnt endurgjald? Söluverðmæti sjávarafurða er um eða yfir 250 milljarðar króna á ári. Eftir að greiddur hefur verið allur kostnaður við veiðar og vinnslu annar en fjármagnskostnaður eru eftir um eða yfir 80 milljarðar króna. Fjármagnskostnaður, vextir og eðlilegur arður af stofnfé er að hámarki 30 milljarðar á ári. Þá stendur eftir umframhagnaður, þ.e. hagnaður umfram það sem þarf til að greiða allan kostnað þ.m.t. fjármagnskostnað og eðlilegan hagnað eigenda. Þetta eru hreinar tekjur útgerðarinnar af nýtingu auðlindarinnar um 50 milljarðar króna á hverju ári.
Er frumvarpið þá sanngjarnt? Af 50 milljarða króna rentu af auðlind sinni á þjóðin að fá 5 milljarða króna í sinn hlut. Útgerðin, að stærstum hluta fáein stórfyrirtæki, sem eru með bróðurpartinn af öllum aflaheimildum, fær 45 milljarða króna. Þjóðin á sem sagt að fá um 10% af auðlindarentunni, útgerðin um 90%. Er þetta sanngirni?
Sáttagjörð
Þau rök eru nefnd í greinargerðinni að þörf sé á að ná “sátt um hvað teljist sanngjarnt og eðlilegt veiðigjald, enda eru viðhorfin misjöfn.” Hvorki kemur fram hverjir séu aðilar að slíkri sátt og hvaða viðhorf þeir hafi né hvernig niðurstaða frumvarpsins feli í sér slíka sátt. Þetta er einfaldlega afgreitt með því að ekki megi grafa undan hagkvæmum rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Hvernig það að taka lítið brot af 50 milljarða umframhagnaði sjávarútvegs stefnir honum í voða er ekki svarað en látið að því liggja að það geti hindrað atvinnuþróun og aukið samþjöppun. Merkileg röksemdafærsla þar sem almennt er talið að mikil rentusókn og há renta leiði til offjárfestingar, óhagræðis og fákeppni.
Spaugilegustu rökin sem dregin eru fram í greinargerðinni eru þó þau að ekki megi leggja á eðlileg veiðigjöld vegna þess að fyrirtækin greiði tekjuskatt. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa í áranna rás greitt lítið í tekjuskatt af ýmsum ástæðum, m.a. hagstæðum skattareglum. Ofsagróði síðustu ára gerir það að verkum að þau fara að greiða tekjuskatt eins og annar atvinnurekstur. Hafa ber í huga að tekjuskattur fyrirtækja er í reynd skattur á eigendurnar. Tekjuskattur á þau (20%) er ástæðan fyrir lágum skatti á arð (20%) sem greiddur er eigendum. Orð frumvarpsins verður að skilja á þann veg að auðlindaarð þjóðarinnar eigi að nota til lækkunar á tekjusköttum á eigendur útgerðarfyrirtækja.
Sáttatal frumvarpsins á væntanlega að skilja sem sátt milli þjóðarinnar og útgerðarinnar. Í slíkri sáttargjörð ætti eigandi auðlindarinnar að hafa bæði töglin og halgdirnar. Hann einn á tilkall til allrar rentu af auðlindinni. Hann á að geta valið sér viðsemjanda eða t.d. leigt aflaheimildirnar hæstbjóðanda eða boðið þær upp. Eigi að líta á frumvarpið sem sátttargjörð er ljóst að sá sem fór með umboð þjóðarinnar hefur látið beygja sig í duftið. Stóryrði um lögvarið eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni er þá ekki mikils virði.
(Í síðari hlutum greinarinnar verður fjallað nánar um efni frumvarpsins m.a. sýnt fram á að sú aðferð sem valin er til að ákveða gjaldið opnar leiðir fyrir undanskot frá gjaldinu og er hvati til falskrar verðlagningar o.fl.)
- Engin skattsvik(Enn um örlátan söngvara) - 16/10/2015
- Örláti söngvarinn - 16/10/2015
- Er Skrokkalda kjarabót? - 20/05/2015