Um gamlar kærustur og nýjar
Karl Th. Birgisson skrifar
Þær eru nógu flóknar þótt aðrir fari ekki að gera upp á milli þeirra.
Skiljið þið ekkert hvað ég á við? Það er óskup eðlilegt.
En þankarnir eru sumsé nokkurn veginn svona:
Þá sjaldan ég tjái mig opinberlega vill vefmiðillinn Eyjan endilega kalla mig fyrrverandi framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar. Og svosem engu logið um það.
Samt eru fjórtán ár síðan ég hætti störfum þar.
Eftir það vann ég hjá Blaðinu (ef einhver man eftir því), síðar nokkuð fyrir Hringbraut, ég hef undanfarin misseri skrifað svolítið í Stundina, gefið út bækur og alls konar.
Já, og gott ef ég gerði ekki einhverja þætti fyrir Ríkisútvarpið um tungumálið okkar og fleira.
Að ég nefni nú ekki hana Herðubreið.
Á Eyjunni er ég samt undantekningalaust kallaður fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar.
Það er soldið spes.
Sérstaklega vegna þess að það eru bara sjö ár síðan ég sagði upp störfum sem ritstjóri… já, einmitt Eyjunnar.
En olræt. Ég get skilið að Eyjan vilji ekki vitna í fyrrverandi ritstjóra Eyjunnar. Eða blaðamann á Blaðinu.
Og verum skilningsrík. Eitthvað þarf maðurinn jú að heita, svo að fólk skilji eitthvað.
Þessi sérkennilegheit smita samt út frá sér. Gleggsta fólk lítur jafnvel þannig á, að þegar mér verður á að hafa skoðun á einhverju, þá sé Samfylkingin að tala. Ég sé jafnvel gerður út af henni eða einhvers konar talsmaður hennar.
Við þær aðstæður ímynda ég mér að Logi Már Einarsson gráti sig í svefn á erfiðum kvöldum – þegar sérstakur talsmaður hans hefur tjáð sig, alltaf án þess að láta hann vita. Það er sár tilhugsun, því að mér þykir vænt um Loga, og ekki af því að hann er formaður Samfylkingarinnar. Svo gildir um marga fleiri í mörgum flokkum.
Ég spurðist eitt sinn fyrir um þennan sið þarna innan húss hjá DV/Eyjunni. Hvers vegna ég væri alltaf kenndur við Samfylkinguna, en ekki Blaðið, Hringbraut, Stundina, Ríkisútvarpið eða jafnvel hana Herðubreið okkar.
Það væri soldið eins og að kenna mig við þarþarþarþar-síðustu kærustu.
Svarið var dásamlegt: Við köllum Styrmi Gunnarsson alltaf fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins og Björn Bjarnason alltaf fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, svo að fólk geti sett málflutning þeirra í samhengi. Það sama gildir um þig, Karl Th. Birgisson.
Ég þakkaði fyrir svarið, hló í hjartanu, en skammaði náttúrlega viðmælandann fyrir að hafa sleppt Guðna Ágústssyni úr þessum fallega félagsskap, úr því að þessi klúbbur hefði verið stofnaður á annað borð. Mér þykir líka vanta í hann Hjörleif Guttormsson og Pál á Höllustöðum. Þá fyrst væri ég nú með mínu fólki.
Ég stillti mig reyndar um gagnsókn og að spyrja til dæmis hvers vegna óbermið hann Andrés Magnússon væri alltaf titlaður blaðamaður á Viðskiptablaðinu – harðpólitískasta blaði landsins – en ekki áróðursmaður Sjálfstæðisflokksins, sem hann er sannarlega í hjáverkum og ekkert að því. Ég sleppti því af því að mér þykir líka vænt um Andrés og hann er vinur minn.
En svona getur þörfin fyrir að flokka fólk og draga það í dilkana sína farið fram úr okkur. Í mínu tilviki skiptir hún engu máli nema fyrir þá sem eru þannig prógrammeraðir – sjá ekkert nema það sem þeir vilja sjá eða telja sig sjá – en við verðum vitni að þessari hneigð á hverjum degi. Hún verður oft átakanlega heimskuleg og stundum verulega ljót.
Ég er pólitískt skotinn í fjölmörgum þvert á flokka og get látið mig dreyma um alls konar ástarsambönd þar.
Ekki eins og það skipti samt máli. En getum við sum bara plís fengið að hafa hálfa og hálfa skoðun án þess að hún sé á vegum einhverra annarra? Sem eru þeim hinum sömu jafnvel þvert um geð?
Ég veit að mörgum þykir sú tilhugsun erfið – en getum við samt reynt?
Síðast þegar ég gáði var ég skráður í Samfylkinguna. Sorrí, bara verulega sorrí, Logi Már.
Þarsíðast var ég í Alþýðuflokknum. Mig tekur það sárt sem ég skrifa fyrir þína hönd, Guðmundur Árni Stefánsson formaður, og kveðjur til Indlands í sendiráðið.
Þar áður var ég í Bandalagi jafnaðarmanna. Ég biðst engrar afsökunar, Vilmundur. Bara engrar.
Það er nefnilega mörg kærastan, og allajafna er talsvert verkefni að vera skotinn og skuldbinda sig.
Og tvöfalt verk að þola mig.
Það vita þessir flokkar allir og kærusturnar ennþá betur.
Þau ráða samt ekki skrifum mínum.
Og enda vandséð hver vildi ábekja þau sum.
Karl Th. Birgisson
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019