Tveir dagar. Vúdú
Tveir dagar til kosninga. Hvað var okkur boðið upp á?
Jú, það var náttúrlega könnun. Ég las fréttir af henni á nokkrum miðlum þar sem fyrirsagnir voru ýmist um að Sjálfstæðisflokkurinn væri stærstur eða langstærstur.
Sem var eiginlega varla frétt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið stærsti flokkur landsins frá því hann var stofnaður. Með einni undantekningu.
Í kosningunum 2009. Þá fékk hann um 24 prósent. Og það fannst mér vera fréttin í þessari könnun.
Ef úrslitin verða svona á laugardag fær flokkurinn sama fylgi og í Hrunkosningunum vorið 2009. Sögulegt hamfaraafhroð.
Hvað er þá orðið allt þitt starf, Bjarni Benediktsson? hugsaði ég dapur, án þess þó að fara beinlínis að skæla.
—–
Björt umhverfisráðherra tilkynnti um reglugerðarbreytingu sem heimilar veitingahúsaeigendum að leyfa gestum að hafa með sér gæludýr. Gott og tímabært.
Þetta leiddi hugann að því að Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra rétti Pieta-samtökunum nokkra tugi milljóna í vikunni. Frábær málstaður og þarft verk.
En. Og sko. Ráðherrar í starfsstjórn, sem hefur ekki einu sinni meiri hluta á alþingi, eiga ekki að taka svona ákvarðanir í vikunni fyrir kosningar. Það lyktar of illa og of langt.
Sérílagi þar sem Björt og Þorsteinn eru fulltrúar flokka sem segjast boða ný vinnubrögð í pólitík, ekki það sem lítur út eins og örvæntingarfull vinsældakaup í krísu rétt fyrir kosningar.
Ef þau telja sig á annað borð hafa umboð til að taka slíkar ákvarðanir – sem er mjög umdeilanlegt – hefðu þau átt að bíða fram yfir helgi. Þau verða bæði enn ráðherrar þá og það hefði verið stíll yfir því. Ekki þessi illa lyktandi.
Sem minnir á annan ráðherra, Jón Gunnarsson, sem þykist vera að afhenda Vestmanneyingum yfirráð yfir rekstri Herjólfs einmitt líka í vikunni fyrir kosningar, þótt samningar séu varla byrjaðir.
Það verða að teljast metnaðarfyllstu atkvæðakaup seinni ára. Dugar Sjálfstæðisflokknum ekki sjötíu prósent fylgi í Vestmannaeyjum?
—–
Bjarni var á Bylgjunni í dag að útskýra hvernig hann ætlar að fjármagna hátt í 30 milljarða skattalækkun, en auka um leið ríkisútgjöld um að minnsta kosti hundrað milljarða. Hvar ætlar hann eiginlega að skera niður í staðinn?
Æ, það gekk ekki vel. Jú, sjáiði til, sagði hann, þetta er einhver misskilningur í honum Loga og þeim. Þessar skattalækkanir skila sér vitaskuld í aukinni neyzlu og þar með meiri virðisaukaskatti í ríkissjóð og sona. Þetta verður bara allt í fína frá Kína.
Vúdú, Bjarni, sagði ég við útvarpið. Held að hann hafi ekki heyrt í mér.
Það var tilvísun í George Bush eldri, sem notaði þetta orð um efnahagsstefnu Reagans í prófkjörsslag fyrir forsetakosningarnar 1980. Reagan ætlaði semsagt að auka tekjur ríkissjóðs með því að lækka skatta, en líka stórauka útgjöld, einkum til hernaðarmála. Bush kallaði þetta vúdú-hagfræði.
Það kostaði hann og þó ekki síður Clinton mikið harðræði að fylla í hundruða trilljóna fjárlagagötin sem vúdú-stefnan hafði í för með sér. En það tókst, rétt eins og hér heima í flórmokstrinum 2009-2013.
Lesningu dagsins og mótefnið við galdraþulu Bjarna á Indriði H. Þorláksson – stutta, en mjög skýra og skilmerkilega kennslustund í því hvers vegna og hvernig er skynsamlegast að haga skattlagningu í siðuðu og þróuðu samfélagi.
Það á nefnilega alltaf að lesa Indriða H., jafnvel þótt hann hafi ekki ennþá hitt skattstofn án þess að verða skotinn í honum.
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019