trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 21/09/2018

Til hamingju, Ísland

Stjórnvöld hafa komið því þannig fyrir, að fæstir lífeyrisþegar og láglaunafólk hefur nægar tekjur til framfærslu.

Helzt þó þeir sem eiga nokkurn veginn skuldlaust húsnæði. Engan veginn þeir sem þurfa að leigja. Hvað þá hinir veiku, sem þurfa að kaupa rándýr lyf.

Vel gert, ríkasta land í heimi. Ekki að undra að æ fleiri lífeyrisþegar flýi land.

Þar sem ég hef vetursetu syðst í Evrópusambandinu er hæglega unnt að fá rúmgóða þriggja herbergja íbúð, fullbúna húsgögnum og tækjum, fyrir 600 evrur á mánuði, um 80 þúsund íslenzkar nýkrónur. Rafmagn og vatn kostar að jafnaði fimmþúsundkall á mánuði.

Fyrir þessa fjárhæð fengist herbergi með aðgangi að salerni á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er húsnæðiskostnaðurinn. En hvað kostar svo að lifa?

Ég hef undanfarna daga gripið með mér kvittanir úr búðarferðum, sem er nýlunda. Að fenginni reynslu veit ég að það þarf að leggja sig verulega fram til að eyða meiru en 20 evrum á dag – um 2.600 krónum – í mat, tóbak og áfengi, og það án þess að nokkur sérstök sparsemi sé viðhöfð. Meiraðsegja þótt snæddur sé kvöldverður á veitingastað.

Með öðrum orðum má leigja og lifa fyrir svosum 160 þúsund krónur á mánuði. Það er talsvert minna en kostar bara að leigja á Íslandi.

En hér eru semsagt dæmi úr nýlegum Bónusferðum. Þau miðast vitaskuld við neyzluvenjur mínar, en gefa vonandi allgóða vísbendingu (miðað er við gengi evru 130 krónur og fjárhæðir færðar að næsta tug).

Heill ferskur kjúklingur…………………..360 krónur
8 lítrar af vatni……………………………….120 krónur
Lítil dós af kók…………………………………90 krónur
Lítil bjórdós…………………………………….30 krónur
Rauðvínsflaska, Albali Crianza………..360 krónur
Lítri af sódavatni……………………………..90 krónur
Lítri af vanilluís……………………………..190 krónur
Kíló af gulrótum…………………………….140 krónur
Stór paprika……………………………………40 krónur
Risatómatur……………………………………20 krónur
Nautagúllas, hálft kíló……………………490 krónur
Tólf stór egg………………………………….260 krónur
Sígarettupakki, Benson & Hedges……270 krónur

Svona mætti áfram telja, en ég ergi ykkur ekki frekar með því.

Ennþá síður vil ég eiga yfir höfði mér reiði lesenda með því að nefna veðurfarið.

En já, sumsé. Til hamingju, Ísland. Vel gert hjá okkur.

1,443