Þversagnir helgarinnar
Tvær fréttir helgarinnar gætu litið út sem þversagnir, en eru það alls ekki.
Sú fyrri er af ríkisstjórninni og þó einkum sjávarútvegsráðherra. Ráðherrann hefur margítrekað á undanförnum vikum, að ríkisstjórnin myndi ekki og ætti ekki að skipta sér af launadeilu útgerðar og sjómanna.
Það væri á ábyrgð viðkomandi að leysa sín mál sjálfir. Ríkið ætti ekki aðild að kjarasamningum fólks út um land.
Margir urðu til að hrósa sjávarútvegsráðherranum fyrir þessa afstöðu og töldu til marks um nýja og áður óuppgötvaða staðfestu.
Hugsanlega þangað til ráðherrann upplýsti um helgina að hún hefði verið „tilbúin með lagasetningu“ til að binda endi á vinnudeiluna.
Þá varð myndin af stefnufestunni þessi: Við ætlum ekki að skipta okkur af kjaradeilum sjómanna og útgerðar. Nema.
Og ef.
Ef sumsé okkur líkar ekki framvindan og niðurstaðan. Þá setjum við lög á allt gillimojið.
Það er samt og einvörðungu á ábyrgð deilenda að semja – og við ítrekum að ríkið mun ekki eiga neinn hlut að því. Nema. Og ef.
En þá tökum við fram fyrir hendurnar á öllum og setjum lög.
Þetta, góðir lesendur, er ekki þversögn. Þetta er alveg nýuppgötvuð prinsippfesta á hinu nýja tungumáli tímans.
———-
Hin fréttin er af allt öðrum toga og meiraðsegja öðru þjóðerni: Skotar vilja efna til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þeir eigi að segja sig úr Stóra-Bretlandi.
Samhengið er þetta: Stóra-Bretland hefur ákveðið að segja sig út Evrópusambandinu. Skotar vilja það ekki.
Helzta hlutverk og markmið Evrópusambandsins er, eins og allir vita sem hafa hlustað á Jón Bjarnason og Styrmi Gunnarsson, að svipta aðildarríki þess sjálfstæði og fullveldi. Það eru þekkt sannindi.
Þess vegna vill Skotland nú ganga úr Stóra-Bretlandi, svo að það verði aftur sjálfstætt og fullvalda. Svo að það geti einmitt verið áfram í Evrópusambandinu og fórnað þannig þessu nýfengna fullveldi sínu og sjálfstæði alveg umorðalaust og strax án þess að svelgjast á, eðli málsins samkvæmt.
Er þetta þversögn? Að heimta sjálfstæði sitt til þess eins að skola því beint niður í kokið á Evrópusambandinu aftur?
Það finnst ekki þeim sem telja, að fullveldi og sjálfstæði þjóða – sérílagi lítilla þjóða – verði aldrei tryggt nema í alþjóðlegu samstarfi, af því að viðfangsefni þeirra eiga allt sitt undir alþjóðlegum viðskiptum og samvinnu. Svo við tölum nú ekki um stríð og frið.
Styrmir og Jón eru annarrar skoðunar. Ekki er langt síðan Styrmir lýsti því yfir, að stríðsátök í Evrópu kæmu Íslandi minnst við. Internetsins vegna vitna ég ekkert í Jón Bjarnason.
Í huga Jóns og Styrmis er afstaða Skota galin. Til hvers að fá sjálfstæði, ef ekki til þess að loka sig af og ráða öllu sínu sjálfir? Styrmir skrifaði heila bók, Umsátrið, um hversu hættulegir útlendingar væru lítilli fullvalda þjóð.
Svipaða sögu myndu þeir líklega segja af Írum og Norður-Írum, þar sem taka þarf upp landamæra- og vegabréfaeftirlit þegar Stóra-Bretland segir sig úr lögum við restina af Evrópu. Þá eru Suður-Írar eftir í samfélagi siðaðra þjóða, en hvorir tveggju þurfa að sækja um vegabréfsáritun til ættingja sinna hinum megin við götuna.
Þetta, kæru vinir, er heldur ekki kallað þversögn – hvað þá heimska, – heldur prinsippfesta á hinu nýja tungumáli okkar. Hið nýja sjálfstæði ríkja til þess að loka sig af.
Helztu talsmenn þess eru Donald Trump og Boris Johnson. Ég nefni ekki Pútín eða fasistana í Ungverjalandi, Póllandi og víðar.
———-
Sjávarútvegsráðherra á ekkert skylt við Trump og Johnson. Alls ekki neitt og víðs fjarri því, og vonandi þarf ekki að ítreka það. Nema að þessu leyti:
Þegar hún segir í öðru orðinu að ríkisstjórnin ætli ekki að skipta sér af launadeilu, en nánast hreykir sér af því í hinu, að ríkisvaldið sé þess sko albúið að grípa inn í þá sömu deilu – ef því verður niðurstaðan ekki þóknanleg.
Þetta er einmitt sú tegund af stjórnmálum sem elur af sér hina verri.
Stjórnmálamenn sem segja eitt þótt við vitum öll að þeir meini annað. Við vitum að sjávarútvegsráðherrann er að skrökva – hún hótaði deilendum lagasetningu, en samt kemst hún upp með að segjast eiginlega ekki hafa gert neitt. Og tekst einhvern veginn að monta sig af því í leiðinni.
Það er vond pólitík sem einmitt okkar tímar þurfa ekki á að halda. Nóg er nú samt.
Þegar svona stendur á hjá okkur sjálfum skulum við gæta okkar á því að saka aðra stjórnmálamenn um að bera fram alternatívar staðreyndir. Hjásannleik, sannlíki eða hvað við viljum kalla það.
Sem heitir reyndar á íslenzku bara að ljúga.
Það er nefnilega þessi pólitík sem greiðir veginn fyrir hina. Úr því að sæmilega fólkið lýgur svona blákalt og roðnar ekki einu sinni á meðan – hví skyldum við ekki trúa þeim sem eru tilbúnir að ljúga hverju sem er og bæta um leið svolítið í?
Vel meinandi fólkið ætti mjög alvarlega að hafa það í huga.
Þar liggur samhengið á milli hinna meintu þversagna helgarinnar.
Og prinsippfestunnar.
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019