trusted online casino malaysia
Gestastofa 06/05/2014

Þjófar í paradís

Eftir Úlfar Þormóðsson

Skattrannsóknarstjóra hefur verið gert tilboð. Hann getur fengið lista með nöfnum mörg hundruð íslenskra félaga, einstaklinga og fyrirtækja sem stálu fé undan skatti og földu það í skattaskjólum úti í heimi. Það er óljóst hver er að selja og hvað upplýsingarnar kosta. Nokkur ríki hafa borgað fyrir þessa vitneskju um þegna sína, meðal annars Þjóðverjar.

Skattrannsóknarstjóri lítur svo á – með réttu eða röngu – að skatturinn geti ekki tekið ákvörðun um það upp á sitt einsdæmi að kaupa slík gögn; það sé pólitísk ákvörðun, er haft eftir honum Morgunblaðinu 2. maí.

Mogginn spurði fjármálaráðherra út í málið. Þar segir svo:

„„Ekkert er vitað hvað er í slíkum gögnum og það er ekki gott fordæmi að menn geti gert sér það að féþúfu að selja gögn sem jafnvel er komist yfir með ólögmætum hætti og hefur verið aflað fyrir skattfé í öðrum ríkjum,“ segir Bjarni en ljóst er að kaup á slíkum gögnum gæti í kjölfarið torveldað samskipti Íslands við þau ríki sem eiga að halda utan um slíkar upplýsingar.“

Ef reynt er að skilja þetta blasir við að ráðherrann vill ekki að upplýst sé um það hvaða Íslendingar stálu undan skatti. Sem er undarlegt því að þarna er um verulegar fjárhæðir að ræða sem munar um í tómann ríkiskassa sem ráðherrann á að annast um. Mogginn vill heldur ekki að það komist upp um skattsvikarana eins og lesa má af lokaorðum fréttarinnar. Það er ekki síður undarlegt því að varla dettur nokkrum heiðarlegum manni í hug að þarna sé að finna nöfn útgerðarmanna eða annarra eigenda blaðsins og ef peningarnir nást hingað heim væri hægt að lækka skattinn á útgerðinni.

Þjófarnir eiga að fá frið. Ríkisstjórnin hefur skorið niður eftirlitsfé og auk þess ákveðið að fresta (hætta við) rannsókn á einkavæðingu bankanna. Það á að fara vel um þjófa í paradís.

Flokkun : Pistlar
1,891