Þessi helvítis trúarbrögð
Nú hvorki vil ég né get sett mig í spor þeirra sem móðgast yfir teiknaðri mynd af manni sem var uppi fyrir löngu síðan og á að hafa verið í meiri tengslum við ímyndaðar verur á himnum en gengur og gerist. Gildir þá einu hvort hann hét Múhameð eða Jesús.
Ég get aftur á móti hæglega sett mig í spor þeirra sem hæðast að hverju sem er og ekkert er heilagt, en mig skortir kjark og hæfileika til að ganga mjög langt í þeim efnum. Ég er ekki Charlie en vonandi spretta hans líkar nú upp út um víða veröld.
Það er nefnilega einn grunntónn í þessu öllu saman; fólk býr sér til hugmyndafræði og binst samtökum um að ráða yfir öðru fólki. Gildir þá einu hvort um er að ræða trúarbrögð eða stjórnmál því allt snýst þetta um að sannfæra aðra um að tiltekin skoðun eða trú sé best.
Trúarbrögð eru þó sýnu verri með þetta því þau eru veraldlegt valdakerfi utan um hugmyndir fólks um guð sem refsar því eftir dauðann hagi það sér ekki eins og klerkarnir vilja og slóð þeirra um veraldarsöguna er blóði drifin og ljót og virðist ekkert lát þar á.
Fyrir ekki löngu síðan hlustaði ég á virtan vísindmann halda því fram að lífið eins og við þekkjum það væri tilraun sem gerð væri af þróaðri dýrum en okkur og við værum tilraunadýrin. Þetta gæti að sjálfsögðu verið upphafið að nýjum trúarbrögðum og ef þessi maður hefur rétt fyrir sér, þá er trúin versta breytan sem þessar æðri verur hentu inn í tilraunina.
Þið megið trúa hvaða vitleysu sem þið viljið fyrir mér en þið skuluð ekki ætlast til þess að ég beri virðingu fyrir því sem þið trúið.
- Lokaorð - 29/05/2015
- Traust - 01/05/2015
- Deyfilyfið - 16/04/2015