Þegar Framsókn fagnar….
Þingflokkur Framsóknar dansaði stríðsdans í Alþingishúsinu í gærkvöldi eftir samþykkt skuldaleiðréttinga. Þau birtu þessa mynd af sér á Facebook. Þau vildu að við sæum fögnuðinn. Maður veit ekki alveg hvernig maður á að bregðast við, maður hálf lamast, þessi mynd er eitthvað svo ótrúlega óþægileg. Þetta er fólkið sem stjórnar landinu. Það er svona líka visst í sinni sök. Og samt er málið ein óvissa út í gegn, frá fjármögnun úr ríkiskassa til nánari útfærslu og hugsanlegra verðbólguáhrifa. Svona vissir hafa menn ekki verið frá 2007, já, eða frá því að Icesave reikningarnir voru stofnaðir af tærri snilld.
Viðvörunarbjöllur hringja djúpt í sál.
Gefum okkur samt að skuldaleiðréttingarnar eigi eftir að virka vel og hjálpa fólki, og verða án hliðarverkana fyrir efnahagslífið. Vonum það allavega. Burtséð frá því finnst manni eitthvað sérlega óþægilegt við það að sjá stjórnarmeirihlutann fagna svona í sjálfu anddyri þinghússins. Hér skín reynsluleysið úr hverju andliti. Hvar ætlar fólk svo að geyma þessa mynd ef sagan fer ekki alveg eins og hún á að fara, sem oftar en ekki gerist í pólitík og efnahagsmálum? Meira að segja elsti þingmaðurinn, Sigrún Magnúsdóttir, hefur ekki vit fyrir unggæðingunum og sýnir engar efasemdir, en fagnar og dansar manna mest, fremst á myndinni. Þá er ekki annað að sjá en að sjálfur forsætisráðherrann sleppi sér í miðjum hópi, eins og unglingur á Þjóðhátíð. Þetta er fólkið sem stjórnar landinu. Maður verður bara hræddur.
Því sporin hræða. Þegar Framsókn fagnar verður maður ósjálfrátt stressaður. Munum kosningaloforðin 2003, munum Kárahnjúka, munum “söluna“ á Búnaðarbankanum, munum Elton John í Sundahöfn, munum 90% húsnæðislán, munum Íbúðalánasjóð, munum refarækt, munum laxeldi, munum Gift, munum kvótakerfið, munum írska smjörið, munum kosningaloforðin 2013.
Við skulum samt vona að þessi skelfilega mynd sé enginn hrunboði.
Hér er söguvitund þessa unga fólks einnig í sögulegu lágmarki. Allir þessir þingmenn tilheyra flokknum sem ásamt öðrum bjó til góðærið, sat í spilltustu ríkisstjórn Íslandssögunnar og bjó til margt af því sem vó hvað þyngst í fyrirhrunsbólunni og Hruninu, öllu þessu sem nú er verið að leiðrétta. Nú dansa þau við sjálf sig, sínu mikla björgunarafreki til dýrðar, fólkið sem hlóð hvað mestum eldsmat í bólubálið, og það á sjálfum helgibletti hins íslenska lýðræðis, á gólfflísunum framan við málverk Blöndals af Þjóðfundinum 1851. Þið fyrirgefið, en það er bara jafn mikill klassi yfir þessu dansatriði og fullum táningum sem brjótast inn í Bessastaðakirkju, blasta teknótónlist á altaristöflu Muggs og góla þar yfir altarisklæðum og drepa í sígarettum í skírnarfonti frá þrettándu öld.
Jón Gnarr með apagrímu í stól borgarstjóra er hugsaður pólitískur gjörningur, en dans Framsóknar í anddyri Alþingis er hugsunarlaus sjálfsupphafning. Síðan hvenær breyttist Framsóknarflokkurinn í Framsóknarpartý? Það er auðvitað ægilega gaman að vera við völd, en þau sem skortir dómgreind til að aka sér ekki og skaka í þeim á almannafæri ættu líklegast ekki að hafa þau.
Á íslensku kallast svona hegðun dramb. Og hvernig var aftur málshátturinn sem byrjar á því orði?
- Guðfaðirinn Guðni - 12/10/2014
- Bókaþjóð með búrastjórn? - 16/09/2014
- Siðareglur ríkisstjórnarinnar - 08/08/2014