trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 09/09/2016

Það þarf nýtt fólk!

header_print

 

Við erum enn að vinna úr hruninu. Stjórnmálin eru mörkuð deginum sem Geir bað guð að blessa Ísland en þó ekki síst undanfaranum og eftirleiknum.

Óþolið gagnvart stjórnmálum og stjórnmálamönnum er mikið. Það er auðvitað algjörlega skiljanlegt enda ábyrgð stjórnmálamanna gríðarleg og vissulega brugðust þeir margir í aðdraganda hrunsins. Alþingi ályktaði meðal annars svo í kjölfar skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis:

Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.
Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.
Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.

Það er fullt af góðu fólki í stjórnmálum á Íslandi, bæði fólk sem hefur tekið þátt frá því fyrir hrun og fólk sem hefur hafið störf síðar. Og eins og í öðrum hópum eru óvandaðri einstaklingar inn á milli. Við búum við fulltrúalýðræði og fulltrúarnir eiga að endurspegla þjóðina. Og þar er líka misjafn sauður.

Í stjórnmálum skiptir stundum ekki máli hvernig hlutirnir raunverulega eru, heldur hvernig þeir virðast vera. Það getur bæði verið súrt og ósanngjarnt en það er erfitt að eiga við það nema með meiriháttar aðgerðum.

Nú stend ég í stórræðum og tek þátt í mínu fyrsta prófkjöri. Það hefur verið áhugaverð reynsla og ég er ekki endilega viss um að ég mæli með henni. Ég er heldur ekki viss um að prófkjör (eða flokks- eða forvöl sem eru önnur heiti á sama fyrirbrigðið) henti fólki af þeirri gerð sem við viljum helst sjá sem kjörna fulltrúa. Það er venjulegu fólki erfitt að mæra sjálft sig og útlista eigin ágæti, vikum saman. Ýmsar aðrar aðferðir til að velja fólk á lista stjórnmálaflokkanna, svo sem uppstilling, eru þó ekki endilega betri.

Mig langar, lesandi góður, til að biðja þig, ef þú ætlar að kjósa í prófkjörum helgarinnar að gefa nýju fólki séns (og þá á ég ekki endilega við mig sem er meira svona ný/gömul þótt auðvitað vilji ég atkvæði). Við þurfum nýtt fólk í stjórnmálin, ekki bara í mínum flokki, Samfylkingunni, heldur hinum flokkunum líka. Allt það unga (eða nýja) og frábæra fólk sem ég hef kynnst síðustu vikur og daga og býður sig fram er traustsins vert og ég er viss um að það mun hjálpa okkur að byggja upp traust á stjórnmálunum á nýjan leik ef það bara fær tækifæri til þess.

 

Flokkun : Efst á baugi
1,202