trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 22/07/2016

Svona rústar maður heilbrigðiskerfi – Uppskrift

Það er ekkert svo flókið mál að rústa heilu heilbrigðiskerfi og meira að segja til margreynd uppskrift sem virkar með fljótvirkum hætti. Sömu uppskrift má svo yfirfæra á aðra velferðarþjónustu t.d. menntakerfið. Svona er þetta gert:

Í upphafi er til staðar ágætlega fúnkerandi heilbrigðiskerfi, kostað úr sameiginlegum sjóðum almennings, fyrir almenning. Allir sitja við sama borð og sjúklingum er ýmist sinnt í þeirri röð sem þeir koma eða eftir alvarleika þess sem hrjáir þá, eftir atvikum. Bestu kerfin leggja líka áherslu á forvarnir og lýðheilsu svo færri veikist. Stjórnendur vita nefnilega að það borgar sig, líka í peningum.

Fyrsta stigið í eyðileggingunni fellst í að skera niður fé til kerfisins. Ekki verður hægt að endurnýja nauðsynlegan búnað, ráða nógu marga í störfin, endurmennta fólk eða sinna viðhalda fasteigna. Myglusveppur hjálpar. Þessari aðgerð er svo áframhaldið, bæði nokkuð stöðugt en líka með áhlaupi. Nauðsynlegt er að fjárframlög til heilbrigðismála haldi alls ekki í verðlagsþróun en einnig er gott að taka upp sérstakt orðfæri er aðgerðunum er lýst. Forðast skal að tala um niðurskurð en ræða þess í stað um hagræðingar og nauðsyn þess að forsvarsmenn stofnanna haldi sig innan fjárheimilda.

Næst er spjótunum beint að heilbrigðisstarfsfólkinu. Nauðsynlegt er að tryggja að launaþróun standi í stað og fylgi ekki nágrannaríkjum okkar. Þá er einnig skynsamlegt að reyna að haga kjarasamningum með þeim hætti að réttindi fólks aukist ekki. Góður leikur er t.d. að fá hjúkrunarfræðinga til að semja af sér kaffitíma og matarhlé. Ef starfsfólk beitir verkfallsvopninu skal setja lög á verkföllin. Markmiðið er að sem flestir finni sér annað að gera eða flýji land.

Samhliða hinu almenna heilbrigðiskerfi skal koma upp einkareknu kerfi. Skynsamlegt er að byrja smátt og með sérhæfð verkefni sem gefa vel í aðra höndina. Ákveðnir læknar fá því tækifæri til að reka sjálfstæðar stofur sem gefa ágætlega í aðra höndina en halda jafnframt áfram að vinna á opinberum heilbrigðisstofnunum. Þannig fá þeir samanburð og finna á eigin skinni hvað hið þægilega, einkarekna heilbrigðiskerfi getur gert fyrir þá og þeirra fjárhag. Fyrst um sinn er þessi einkarekstur þó fjármagnaður úr vasa skattgreiðenda í gegnum sjúkratryggingar ríkisins.

Næsta skref í einkavæðingarferlinu er að bjóða betri þjónustu þar. Skapa þarf biðlista eftir þjónustunni í almenna kerfinu. Það er gert með hinni heilögu þrenningu; manneklu, fjárskorti og aðstöðuleysi. Þegar fólk þarf orðið að bíða í eitt eða tvö ár eftir nýrri mjöðm eða augasteinum er tilvalið að koma á einkarekinni hliðarleið. Fólk með sæmilegt fjárráð greiðir nokkur hundruð þúsund með glöðu geði fyrir betri lífsgæði. Á undraskömmum tíma venst fólk tilhugsuninni um að sumir séu jafnari en aðrir og þeir sem eigi peninga geti keypt sig fram fyrir röðina með því að leita annað.

Hægt er að einkavæða strax alla þjónustu við gamalt fólk. Það hefur sýnt sig í öðrum löndum, jafnvel þeim sem teljast almennt siðmenntaðar, að hægt er að spara nánast út í hið óendanlega þegar kemur að þjónustu við aldraða. Það þykir t.d. ekkert óeðlilegt þótt lærbrotum sé ekki sinnt strax, fæði skorið við nögl og allir fái svefnlyf um fimmleitið svo hægt sé að fækka starfsfólki á kvöld- og næturvöktum.

Vilji svo heppilega til að það þrengist um þjóðarbúið er þjóðráð að herða á ferlinu. Klók stjórnvöld gætu meira að segja notað tækifærið og einkavætt allt draslið til vina sinna á einu bretti. Selt það fyrir slikk til að stoppa í fjárlagagatið en gera langa samninga um að sjúklingarnir haldi áfram að nýta þjónustuna á kostnað ríkisins að viðbættir eðlilegri og sanngjarnri ávöxtunarkröfu. Því miður var þetta þjóðráð ekki nýtt hér á landi sem skyldi.

Heppilegt er að leggja heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni að mestu af. Hægt er að leysa málin með fjarlækningum, farandlæknum, jafnvel skottulækningum, afleysingum og skertum opnunatíma. Loka skal strax öllum skurðstofum utan Reykjavíkur, sérstaklega þeim sem eru í tengslum við fæðingardeildir. Mikilvægt er að fæstir geti rakið uppruna sinn til hinna dreifðu byggða landsins enda fellst mikið hagræði í að hafa alla íbúana á sama stað.

Þrif á heilbrigðisstofnunum skal bjóða út til vina og kunningja. Þeir geta svo ráðið útlendinga í störfin sem þekkja ekki til vinnulöggjafarinnar hér á landi eða vita hvert þeir eiga að leita sé á þeim brotið. Þetta, eitt og sér, getur gefið vel af sér.

Heppilegt er, þegar sjúkraþjónustu á landsbyggðinni hefur að mestu verið aflagt, að koma upp sterkri kröfu og umræðu um „þjóðarsjúkrahús“. Best er ef hægt er að deila um staðsetningu þess í nokkra áratugi sem tryggir að nauðsynlegu viðhaldi annarra heilbrigðisstofnanna er ekki sinnt á meðan. Þegar best lætur er hægt að láta sem svo að öflugt sjúkraflug komi alfarið í staðinn fyrir sæmilega bráðaþjónustu í hinum dreifðu byggðum landsins. Slík blanda tryggir einnig, þegar best lætur, að ekki sé hreyft við flugvallarbákni sem fáir nota en hentar stjórnmálamönnum á landsbyggðinni sérstaklega vel.

Eftir nokkra áratugi er rétt að kynna til sögunnar erlenda fjárfestingu. Byggja skal risavaxið, fullkomið einkarekið sjúkrahús í jaðri höfuðborgarsvæðisins. Fullyrða skal, fullum fetum, að það muni ekki hafa nein áhrif á heilbrigðiskerfið enda sé þetta nýja sjúkrahús einungis ætlað ríkum útlendingum. Nota skal falleg hugtök sem enginn skilur í raun og veru svo sem „heilsutengd ferðaþjónusta“ og „innspýting í atvinnulífið“. Slá skal úr og í hvort þjónustan standi landsmönnum til boða fyrir rétt verð eða tryggingar.

Mikilvægt er að fá fræga lækna til að tala fyrir verkefninu. Helst heimsfræga. Þá skal tryggja með flókinni aflandsfléttu að ekki upplýsist hverjir séu í raun bak við fyrirtækið.

Tryggja skal hinu nýja sjúkrahúsi ýmsar skattalegar ívilnanir vegna þess að það þykjast vera að skapa svo mörg hátekjustörf hér á landi.

Ef verkefnið nær alla leið er nauðsynlegt að greiða starfsfólkinu þar betri laun en í hinu almenna kerfi. Ég veit að einmitt þetta atriði er umdeilt og blóðugt en það margborgar sig og hraðar öllu ferlinu til muna. Líta verður á þennan aukna launakostnað sem fórnarkostnað fyrir framkvæmdina í heild. Til að lágmarka skaðann er rétt að reyna að beina þessum auknu launagreiðslum til vilhallra og helst samflokksmanna. Varast skal að kommúnistar, píratar eða aðrir vinstri sinnaðir öfgamenn njóti góðs af framkvæmdum. Þegar þeir gagnrýna fyrirkomulagið má alltaf segja að þeir séu öfundsjúkir, sé þessi leið farin.

Betri laun á nýja sjúkrahúsinu og annars staðar í hinu einkarekna kerfi, til viðbóttar við spekilekann úr landi veldur því að enn þrengist að almenna kerfinu.

Þegar sjúkir geta ekki lengur treyst því að fá góða þjónustu í almenna kerfinu verður krafan um að þeir fái þjónustu í einkarekna kerfinu sífellt háværari.

Á þessu stigi er mikilvægt, sem endranær, að spila möntrur einkavæðingarinnar reglulega. Þær eru a) Hið opinbera á ekki að standa í samkeppnisrekstri enda sé þarna kominn einkaaðili sem geti leyst hlutverk sitt betur að hólmi. b) Ríkið eigi helst ekki að standa í neinum rekstri. c) Ríkið kann ekki að standa í atvinnurekstri. d) Ríkisstarfsmenn eru latir og á spena skattgreiðenda. e) Sóun fylgir ríkisrekstri alltaf. f) Einkaaðilar fara miklu betur með fé. g) Þjónusta er alltaf betri hjá einkaaðilanum. Það er náttúrulögmál. h) Græðgi er góð.

Tryggingarfélög fara að selja sérstakar sjúkra- og slysatryggingar sem fólk kaupir til að tryggja sér þjónustu einkaaðilanna. Gera þarf samninga um að ríkið greiði þó hluta af kostnaði við einkarekna þjónustu áfram til að tryggja ásættanlega arðsemi.

Loks fer það svo að almenna kerfið sinnir eingöngu dýrum tilfellum með vonlausri ávöxtunarkröfu. Mikilvægt er að halda kerfinu áfram fjársveltu, halda við deilum um staðsetningu sjúkrahúsa og flugvalla, einkum með hinni skertu þjónustu á landsbyggðinni og tryggja mikið álag á alla starfsmenn. Eingöngu öfgasinnaðir vinstrimenn eiga að vinna í almenna kerfinu svo allir sjái hvað það er glatað og asnalegt.

Og svo má skála.

 

bad-health-care

 

 

 

 

Flokkun : Efst á baugi
1,432