Skáldið mitt, ekkert röfl, út með þig!
Vilhjálmur frá Skáholti var einhver dáyndisbezti og skemmtilegasti einstaklingur, sem eg hef kynnzt. Kynni okkar stóðu í allnokkur ár. Var eg þiggjandinn og hann gefandinn.
Okkar fyrstu kynni voru þegar hann ördrukkinn slagaði inní Landsbankann, þarsem eg starfaði milli skólabekkja í víxladeildinni hjá Haraldi Johannessen, afa núv. ríkislögreglustjóra, föður Matthíasar skálds.
Skáldið slagar þarna inn í úlfgráum og skitnum frakka – á einu stígvéli og ullarsokk á hinum fæti. Hann þrammar í áttina að víxladeildinni, þarsem eg stóð og talaði við viðskiptavin. Hann sinnir því engu. Hávaðaskrölt bankans, reiknivélar og ritvélar og skrafið í fólki þagnaði í einu vetfangi, þegar skáldið upphefur skýra og kröftuga röddu sína: HALLI JÓ, skáldið mitt, ekkert röfl, eitthundrað þúsund milljón, út með þig!!!
Haraldur var sannarlega ekkert blíðalogn í bankanum, sumir voru beinlínis hræddir við hann, en hann var alltaf elskulegur við mig og reyndist mér góður fræðari í bankafræðum.
Bankinn steinþegir, allir horfa í ofvæni á skáldið við marmaraborðið. Þá sá eg, að Haraldur snarast út úr herbergi sínu, fer út fyrir afgreiðsluborðin, tekur vinsamlega undir upphandlegg skáldsins og leiðir hann föðurlega útúr bankanum. Seinna sagði Haraldur mér, að hann hefði farið með Villa útí Hafnarstræti, á Brytann og gefið honum að borða. Eg sé þetta litla atvik oft fyrir mér. Hvað það var fallegt.
Núnú, seinna kynntist eg svo skáldinu allvel. Hann var blómasali, múrari, verkamaður og skáld, „skáld hinna forsmáðu“ sagði hann. Svo opnaði hann listagallerí í kjallara bakvið Aðalstræti 9. Þar seldi hann blóm, bækur, uppstoppaða fugla, málverk og ýmsa listgripi.
Einu sinni var eg staddur þar. Skáldið hafði skrikað á siðferðissvellinu. Þarna voru auk mín Alfreð Flóki, snillingur, elskhugi línunnar, Magnús Kjaran glímukóngur og stórsali, afi Jóhanns í Hafrannsóknarstofnun og langafi Birgis Ármannssonar alþm. Kona kemur inn í galleríið, feimin og hlédræg að sjá, sér hvaða selskap er þarna og segir vandræðalega við skáldið: „Það var þetta þarna með ugluna, ugluna, mig langaði að kaupa ugluna.“
Skáldið rís ógnþrunginn á fætur, hefur upp hramm sinn og öskrar: „Ekkert röfl, ekkert röfl, skáldið mitt, ekkert ugluþras hér, – út með þig.“ Blessuð konan hvarf einsog píla af vettvangi.
Svona var Vilhjálmur opt: virtist yfirþyrmandi, en var í raun meinlausasta kvikindi, sem eg hef kynnzt, það var bara þessi ógnarhávaði, sem fylgdi honum, þegar hann var á fylleríum – og það var nú nokkuð opt.
Eg sat stundum með honum í kaffi á Hressó, en eigandinn var mágur hans. Þar voru líka Tómas skáld Guðmundsson, Karl Ísfeld, Steinn Steinarr og fleiri andleg stórmenni.
Af einhverjum ástæðum verkaðist það svo, að eg varð „gjaldkeri“ skáldsins. Þegar hann fann áfengisdemóninn grípa sig tökum, kom hann til mín og bað mig að geyma fyrir sig bankabókina á Útvegsbankann, eg yrði bara að vera alveg þversum, ef hann sjálfur reyndi að fá hana til baka. Ekki fyrr en hann væri alveg afrunninn. Gætti eg þess.
Þegar Villi var á fylleríum var hann öllum öðrum fengsælli við peningaslátt. Eitt sinn sá eg hann reika um Austurstrætið. Á undan honum gekk merkur maður, Oscar Clausen skáld, stöndugur maður, hafði líka á þessum árum selt ríkinu jörðina, sem hýsir fanga á Snæfellsnesi. Villi kemur auga á hann, – hrópar, „Oscar, þú – litli gyðingurinn minn, ekkert röfl, skáldið mitt, tíuþúsund – takk.“ Eitthvað rétti Oscar að honum. Stundum þegar eg hitti skáldið drukkið, spurði eg hann, hvort hann væri ekki múraður, þá gáði hann í vasana og rétti mér opt seðla, sem eg lagði jafnóðum inná bókina. Var því opt meira í bókinni, þegar hann loksins var afrunninn og kom að fá sjóð sinn.
Einu sinni var eg að bíða eptir strætó á Lækjartorgi. Þar var eg að spjalla við mömmu mína. Skáldið ber þar að – hrikalega staupað – hefur hramm sinn á lopt og hrópar: „Bragi, skáldið mitt, á eg þig?“ Tímabær spurning, en frú Elísabet var ekki skemmt, þótt hún léti lítt á því bera.
Ein flökkusagan um Vilhjálm er sú, að hann hafi verið launsonur Einars skálds Benediktssonar. Hann var reyndar svipaður Einari í sjón, en þarsem eg þekki ýmilegt af hans góða fólki, veit eg, að hann er nauðalíkur því og held því megi afskrifa með öllu þennan Einarsben.-kjaftagang, þótt hann – drukkinn – hefði það nú sjálfur í flimtíngum.
Og er það ekki skondið, að nú, rúmlega 100 árum eptir fæðingu Vilhjálms Guðmundssonar frá Skáholti, býr á æskuheimili hans systir mín Jóhanna og hefur búið áratugum saman.
Það er miður, en síðustu mánuðina, þegar eg kom í stóra Hjarðarhagabraggann til Vilhjálms, sá eg að hann var að vinna að eins konar sjálfsævisögu og var þverhandarþykkur bunki blaða á borðinu hjá honum. Þarna var hann kóngur í ríki sínu, allir veggir tjaldaðir flottum málverkum helztu listmálara og þarna var það sem „rotturnar tifa bakvið þilið“ eins og segir í kvæði hans þekktu.
En eg held, að ættingjar Vilhjálms hafi tekið handritið eftir að hann var látinn og geymi það bara.
Hann lézt, eptir að hann hafði setið í gleði í Bjarnaborginni hjá Siffa rabarbara, við Hverfisgötu í Reykjavík, var á heimleið, hrasaði í stiga, eins og fleiri skáld og hlaut áverka, sem leiddu hann til bana.
Góð minning.
- Hallgrímur Helgason og Eggert Stefánsson - 24/10/2014
- Ásta Sigurðardóttir og Kamp Knox - 01/10/2014
- Dauðaslys í fjölskyldu litlaskáldsins - 25/09/2014