Sjálfssefjunin
Það hefur verið sorglegt að fylgjast með vinum okkar í Vinstri grænum síðustu vikurnar.
Þau ákváðu að fara í ríkisstjórn og styðja þar til setu dómsmálaráðherra sem hæstiréttur hefur dæmt fyrir lögbrot og fyrir hvers lögbrot ríkissjóður hefur verið dæmdur til skaðabóta.
Þessi dómsmálaráðherra braut ekki lög við að kaupa húsgögn á skrifstofuna sína. Nei, hún var að skipa dómara við nýtt dómsstig í landinu. Það var rétt svoleiðis smotterí.
Og samkvæmt nýjustu fréttum virðist hún hafa gert þetta mjög meðvituð og beinlínis upplýst um að hún væri að brjóta lög. Hún ákvað með galopin augun að að hundsa ráðgjöf sérfræðinga, sem vöruðu hana við. Hún ætlaði að brjóta lögin og gerði það.
Einhvers staðar þarna innan um og saman við ákvað hún að hringja í þáverandi forsætisráðherra. Hún vildi vara hann við því hugsanlega yrði hún neydd til þess að segja frá því að pabbi hans hefði skrifað meðmælabréf fyrir barnaníðing.
Út af því og ýmsu öðru er hann ekki lengur forsætisráðherra.
Hann er núna fjármálaráðherra, eftir feril sem í eðlilegum löndum hefði orðið til þess að hann hefði verið sendur heim og látinn vinna fyrir sér í öðru en opinberum trúnaðarstörfum. Þið getið lesið svolítið yfirlit um hann í nýútkominni bók. Hún heitir Hinir ósnertanlegu.
En þau eru semsagt bæði ennþá ráðherrar vegna og með yfirlýstum stuðningi Vinstri grænna. Og þar kemur að sorginni.
Vinir okkar í Vinstri grænum hafa ákveðið í einni dýrðlegri fjöldasjálfssefjun að láta eins og ekkert af þessu hafi gerzt. Og jafnvel þótt eitthvað af því hefði kannske hugsanlega gerzt, þá skipti það engu máli. Þetta væri allt í lagi og allt væri eiginlega bara í stakasta lagi.
Þetta eru grátlega kunnugleg viðbrögð. Þau þekkjast í sértrúarsöfnuðum. Nýjasta íslenzka dæmið er þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var staðinn að lygum, blekkingum, hálfsannleik og útúrsnúningum og var þess vegna látinn hætta að vera forsætisráðherra.
Fjöldi fólks ákvað með opin augun og þvert á allar staðreyndir að brotamaðurinn væri í raun fórnarlamb. Og jafnvel þótt hann hefði logið og blekkt, þá hefði hann ekki gert það í raun og veru. Þetta fólk bjó sér til hliðarveruleika þar sem staðreyndir voru og eru valkvæðar, engar viðteknar sannindareglur gilda og falsið verður að raunveru.
Með sama hætti tala nú þingmenn Vinstri grænna um dómsmálaráðherrann sinn. Jú, kannske braut hún lög, en það skiptir bara engu máli. Af því að… héddna… .héddna… Jú, af því að Katrín Jakobsdóttir hefur ekki farið fram á afsögn hennar. Það er eina og allra einasta röksemd þeirra fyrir því að lögbrjóturinn Sigríður Andersen er ennþá ráðherra.
Þau vita betur – rétt eins og þeir sem vissu að Sigmundur Davíð var að ljúga – en þau hafa búið sér til hliðarveruleika. Að það sé allt í lagi að dómsmálaráðherra brjóti lög við skipan dómara af því að Katrín Jakobsdóttir segir að það skipti engu máli.
Þessi sjálfssefjun hefur aðrar afleiðingar. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mun sitja út kjörtímabilið. Bjarni Benediktsson verður fjármálaráðherra í fjögur ár og Sigríður Andersen verður dómsmálaráðherra í fjögur ár. Enginn þingmaður Vinstri grænna mun viðurkenna að hafa haft rangt fyrir sér, jafnvel þótt hann viti betur, og enginn þeirra mun verða til þess að fella ríkisstjórnina sem þau hafa lagt svo mikið á sig að ljúga að sjálfum sér fyrir.
Það er sorglegt, því að íslenzk stjórmál þyrftu ekki að vera svona.
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019