Sigmundur Davíðs
Síðasta vika var skrautleg hjá forsætisráðherra.
Hún byrjaði með ákalli aðstoðarmannsins: Nei, Sigmundur sagðist aldrei ætla að ná 300 milljörðum af hrægömmum og nota til skuldaleiðréttingar! Horfiði bara á síðasta viðtalið hans fyrir kosningar! Það eru bara fréttamennirnir sem tala um þetta! Hann segir það aldrei beinum orðum sjálfur!
Leiðréttingin átti semsagt líka að ná til kosningabaráttunnar og kosningaloforðanna. Við áttum að horfa aftur á viðtalið eins og lögfræðingur sem hártogar sannleikann fyrir kviðdómi í amerískri bíómynd, skjólstæðingi sínum í hag. Við vorum komin ansi langt frá íslenskri pólitík.
Svo kom 1. apríl og Sigmundur treysti sér ekki til að leggja skuladaleiðréttingarnar stóru, sjálfa kosningaloforðs-efndina, fram á þeim degi. Af ótta við að henni væri tekið sem plati. Komu þá í hug gömul vísindi: Aðeins atvinnugabbarar óttast 1. apríl. Og einnig þetta: Er sá sannleikur sem óttast 1. apríl sannleikur í raun?
Daginn eftir kom svo kom stóra bomban, viðbrögð forsætisráðherra við heimsendaskýrslu SÞ: Við Íslendingar eigum að sjá tækifærin sem leynast í hlýnun jarðar. Sjálfur gat ég notað þetta í hæðni í blaðagrein fyrir tíu árum, en forsætisráðherra var ekki að hæðast. Hann meinti þetta í alvörunni, og lét þjóð sína roðna all hressilega. “Þó eins dauði sé oft annars brauð ræðirðu það ekki í jarðarförinni,” sagði Þórhildur Þorleifsdóttir á Facebook.
En ekki var allt búið enn. Þjóðin var rétt að jafna sig á því að eiga svo óforskammaðan ráðamann þegar hann beit til baka, fór aftur í Sunnudagsmorguns-haminn fræga, og húðskammaði umræðuna enn á ný, sagði fólk snúa út úr fyrir sér og skaut fast til baka á alla þá sem komið höfðu með eðlilegar aðfinnslur eins og þær að fylgifiskar hnatthlýnunar gætu líka bitnað á Íslandi, til dæmis hækkun og súrnun hafs. Það eina sem er að súrna verulega er pólitíska umræðan á Íslandi! sagði ráðherrann alveg ósúr.
En svo kom meira. Því daginn þar á eftir hélt okkar maður ræðu á fundi Samtaka atvinnulífsins þar sem hann skaut aftur fast á alla þá sem hneyksluðust á ummælum hans um tækifæri Íslands í hlýnun jarðar. Og bætti svo um betur, talaði um að hópur Íslendinga hefði fagnað Hruninu, litið á það “sem sinn stærsta sigur, sem réttlætingu á eigin skoðunum”. Er ekki dáldið ósmekklegt að saka fólk um að fagna efnahagslegum hamförum sem bitnað hafa mest á því sjálfu? Auðvitað var Hrunið hörmulegt. Það jákvæða við það var þó að með því afjúpaðist spillt kerfi. Þegar ættingi sem hefur kýlt sig út af fitu og mör og reykt og drabbað svo árum skiptir fær allt í einu hjartaáfall verða fáir til að fagna því, nema þeirri staðreynd að aðgerðin fékk hann til að hugsa mataræði sitt og lífsstíl upp á nýtt.
Atburðir skrautlegrar viku teikna upp mynd af manni sem ekki er sáttur. Afhverju er hinn ungi forsætisráðherra svona ósáttur? Hann sem hefur hlotið undraskjótan frama í pólitík, unnið stærsta kosningasigur síðari tíma, lyft flokki sínum upp úr eigin for, nánast upp á sitt eigið einsdæmi og stýrir nú ríkisstjórn sem hefur svo rúman meirihluta að hún gæti leyft sér heila fimm, sex Jóna Bjarnasyni innan eigin raða. Hvað er þá að? Afhverju er maðurinn með allt á hornum sér? Afhverju alltaf svona reiður í pontunni, pundandi í allar áttir, hvar sem hann sér einhvern ósammála sér.
Satt að segja minnir þessi tónn Sigmundar Davíðs helst á forvera hans í starfi, Davíð Oddsson. En þegar Davíð var orðinn svona bitur og síreiður hafði hann setið í heilan áratug og þoldi ekki lengur hinar minnstu mótbárur, gat ekki einu sinni komið í viðtöl, því þá þurfti hann að þegja á meðan spurning var borin upp. En eftir aðeins hálft ár í embætti var Sigmundur Davíð kominn í þennan sama pirringsham, kominn með ráðamannarugluna, eins og hið fræga viðtal Gísla Marteins vitnaði um.
Kannski er hér um bein áhrif frá þeim gamla að ræða. Fjölmiðlar hafa flutt okkur fregnir af fundum Sigmundar og Davíðs heima og heiman sem enn eru óbornar til baka. Allir þeir fundir og kvöldverðir á hátíðlegum stöðum vitna reyndar um talsvert skeytingarleysi forsætisráðherra gagnvart Hruninu. Í stað þess að horfast í augu við það og læra af því lítur Sigmundur á það sem pirrandi sigurhátíð andstæðinganna og býður sjálfum Hrunmeistaranum í mat á Þingvöllum, lætur elda þar ofan í “dýrasta mann lýðveldisins” svo vitnað sé í tölvupósta atvinnulífsins. En þar mun átt við 300 milljarðana sem gjaldþrot Seðlabankans undir stjórn Davíðs Oddssonar kostaði þjóðarbúið.
(Smá hliðarspor hér: Til að setja hlutina í samhengi þá kostuðu þeir félagar Ronaldo og Gareth Bale aðeins 15 milljarða hvor er þeir voru keyptir til Real Madrid og eru þó taldir dýrustu menn heims. Sjálft Real Madrid liðið, allt, er ekki metið nema á um 50 milljarða. (!) Í stað þess að hafa Davíð í Seðlabankanum hefðum við því getað leyft okkur að kaupa Madrídarliðið og Estadio Bernabeu líka og látið flytja í Laugardalinn. En við hefðum víst aldrei haft áhorfendur til að fylla 90.000 manna völl aðra hvora helgi, þannig að… Sú tala segir okkur samt hvað Hrunið okkar blessað var stórt.)
Við verðum því bara að taka undir með prestinum á Akureyri, henni Hildi Eir Bolladóttur, sem í gær benti forsætisráðherra á að hætta að reyna að vera Hriflu-Jónas eða Davíð Oddsson og vera meira 2014. Það er nefnilega svo leiðinlegt fyrir eina þjóð að hafa yfir sér forsætisráðherra sem alltaf er að rífast við hana. Hún meikar eiginlega ekki aðra viku eins og sú síðasta var.
Kæri Sigmundur Davíð. Hættu nú að vera svona pirraður og bitur. Afhverju ættirðu líka að vera það? Þú sem ert forsætisráðherra. Þú ert maðurinn. Þú hefur völdin. Hættu að baula og njóttu þeirra! Það varir kannski ekki svo lengi. Láttu nú aðstoðarmanninn þinn tónfróða finna fyrir þig “I Got the Power” í iPadinum sínum og setja það í eyrun á þér fyrir næsta viðtal, og skrúfa svo í botn. Þú ert með völdin, vertu smá glaður.
Ekki vera Sigmundur Davíðs. Drop the s, man.
- Guðfaðirinn Guðni - 12/10/2014
- Bókaþjóð með búrastjórn? - 16/09/2014
- Siðareglur ríkisstjórnarinnar - 08/08/2014