Ræða á Austurvelli
Flutti ræðu á mótmælafundi á Austurvelli í dag. Hér er hún.
Ég veit ekki hvort er verra, harkan og hraðinn í upphafi málsins, eða hægagangur síðustu vikna. Þessi ríkisstjórn virðist ekki geta gert neitt almennilega. Hún getur ekki einu sinni svikið almennilega. Í staðinn fyrir að stjórnin standi við svik sín og taki þau alla leið höfum við fengið loðmullulegt tal og enn óljósari loforð, sem enn auðveldara er að svíkja síðar meir.
Það er eiginlega bara eitt verra en vera svikinn. Og það er að vera svikinn um svikin.
En samkvæmt síðustu fréttum á þó að keyra málið í gegn, þrátt fyrir mótmæli, þrátt fyrir 53 þúsund undirskriftir, þrátt fyrir kosningaloforðin fyrir síðustu kosningar. Maður verður að geta skipt um skoðun ef forsendur breytast, sagði Illugi menntamálaráðherra. Má það þá ekki gilda fyrir þjóðina líka? Má þjóðin ekki líka skipta um skoðun eins og ráðherrarnir? Hún hefur þegar gert það. Forsendur breyttust og ríkisstjórnin hefur ekki lengur meirihluta landsmanna á bakvið sig. Með óbilgirni hafa þau reytt af sér fylgið og fjaðrirnar og nú vill fólk fá að kjósa. Ef ekki til alþingis þá allavega um þetta mál. En nei. Pólitískur ómöguleiki heitir það þá.
En var ekki sama staða uppi á liðnu kjörtímabili? Undirskriftir knúðu fram þjóðaratkvæði og fólkið kaus gegn stefnu ríkisstjórnar. Hvar var ómöguleikinn þá? Og hvað gerði sú stjórn? Hún fór að vilja fólksins og breytti um stefnu. Hverjir voru þá fremstir í flokki að knýja fram þjóðaratkvæði? Þeir sömu og segja nú að 53 þúsund undirskriftir breyti engu.
Maður getur ekki verið lýðræðissinni stundum og stundum ekki. Maður getur ekki bara verið lýðræðissinni á fjögurra ára fresti. Að vera lýðræðissinni er fullt starf. Maður verður að vera það alla daga ársins, öll ár, líka hlaupár, og á bakvakt, á kvöldin og um helgar. Að vera lýðræðissinni er dáldið eins og að vera í björgunarsveit. Björgunarsveitarmenn gera ekki upp á milli slysa. „Nei, mér líst nú ekki á að bjarga þessum. Ég er nú ekki sammála honum í pólitík. Eigum við ekki bara að leyfa honum að vera þarna ofan í sprungunni?“
Lýðræði snýst um val. En að vera lýðræðissinni býður ekki upp á neitt val. Maður getur ekki valið hvaða kosningum maður hlýðir.
Að vera lýðræðissinni er eins og að vera í björgunarsveit. Og hér stöndum við í enn einu útkallinu. Því slysin gerast enn. Eitt gerðist síðasta vor og annað í vetur. Og slys er alltaf slys, jafnvel þótt það sé sett í nefnd á vegum Birgis Ármanssonar. Hér þarf heila Landsbjörg til.
Það átti enginn von á því að þessi stjórn myndi halda ESB-viðræðum áfram. En það átti heldur enginn von á því að hún myndi slíta þeim. Það átti enginn von á því að hún myndi reyna að skemma. Eyðileggja það starf sem unnið var og spilla fyrir möguleikum næstu kynslóðar. Það kom á óvart, en átti samt ekki að koma okkur á óvart.
Utanríkisráðherra var búinn að segja okkur að hann sæti stundum leynifundi í LÍÚ. Forsætisráðherra var búinn að flytja lögheimili sitt í norð- austurkjördæmi, höfuðvígi LÍÚ. Fjármálaráðherra var búinn að segja okkur að hann snæddi stundum á Holtinu í boði LÍÚ, með sjálfum ritstjóra LÍÚ-andans, eða „Ljúgandans“. Sjávarútvegsráðherra gerði það að sínu fyrsta verki að lækka veiðigjöldin á LÍÚ. Og menntamálaráðherra, innanríkisráðherra og iðnaðarráðherra vissu að þau urðu að svíkja kosningaloforðin svo þau gætu sagt: „Jú. Ég held ég hafi nú alveg stuðning Davíðs Oddssonar.“ Því án hans fengju þau ekki lengur greinarnar sínar birtar í Ljúgandanum.
Hér situr ríkisstjórn LÍÚ og LÍÚ vill ekki í Evrópusambandið, því innan þess verður flóknara fyrir LÍÚ að reka sína eigin ríkisstjórn og stjórna landinu og miðunum. Það hlálegasta við það allt er þó sú staðreynd að stærstu fyrirtækin innan LÍÚ gera þegar upp í evrum, og Samherji stundar umdeildar veiðar við Afríku í boði ESB. Því getum við með góðu sagt að LÍÚ sé þegar gengið í ESB og vilji vera þar áfram, svo lengi sem þjóðin stendur utan ESB. Þeir vilja þiggja kostina en hafna göllunum.
Ég verð eiginlega að endurtaka þetta: Fyrirtækin sem gera upp í evrum, sem njóta góðs af evrunni og ESB, berjast hatrammlega gegn inngöngu Íslands í ESB. Hér gildir gamla góða prinsipplausa hagsmunafrekjan: Ég vil ekkert með þig hafa, en láttu mig samt hafa þarna styrkinn sem þú varst að tala um!
Stundum líður manni eins og maður sé persóna í sögulegri skáldsögu sem er skrifuð til að varpa ljósi á fáránleika fortíðar: Hvernig þjóðin var föst í vistarbandi og einokunarverslun, kúguð af erlendum smákóngum. Stundum líður manni eins og maður sé fastur í fáránlegri fortíð hér og nú, lítilþægur þegn í kvótalénsveldi þar sem kóngarnir eiga ekki bara auðlindina og arðinn af henni, heldur megi þeir einnig hámarka gróðann í gjaldmiðli sem bannaður skal almenningi um ár og aldur. Það má ekki einu sinni kanna málið.
Og Guðlaugur Þór segir: „Við verðum að fara að ræða málið efnislega.“ Er það ekki dáldið seint þegar verið er að slíta því?
Og Gunnar Bragi segir… Já, hvað sagði hann eiginlega? Ég bara skildi það ekki. Ég bara beið eftir því að þulurinn segði: „Við biðjumst velvirðingar á því að texta vantaði við þessa frétt.“
En saman kyrja þau öllum stundum sí og æ: „Við teljum hagsmunum Íslands best borgið utan Evrópusambandsins.“ Þetta er viðlagið þeirra, lokapunkturinn í hverju viðtali. „Við teljum hagsmunum Íslands best borgið utan Evrópusambandsins.“
Þá neyðumst við til að segja á móti: „Við teljum hagsmunum Íslands best borgið utan kjörtímabilsins.“
Það getur vel verið að hið fyrra sé rétt og hið síðara rangt, en það getur líka vel verið að hið fyrra sé rangt og hið síðara rétt. Eina leiðin til að fá úr því skorið er sú að halda viðræðunum áfram og meta stöðuna að þeim loknum. Þess vegna viljum við fá að kjósa!
- Guðfaðirinn Guðni - 12/10/2014
- Bókaþjóð með búrastjórn? - 16/09/2014
- Siðareglur ríkisstjórnarinnar - 08/08/2014