Ráðningarkjör opinberra starfsmanna
Guðlaugur Þór Þórðarson og Vigdís Hauksdóttir telja að þörf sé á að breyta ráðningakjörum opinberra starfsmanna hér á landi. Rökin eru ekki alveg skýr, en líklega til auðvelda niðurskurð í opinberum rekstri og auka skilvirkni. En hver eru ráðningakjörin í dag?
Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar (sem skipuð var Sjálfstæðiflokki og Framsóknarflokki) gerði margar veigmiklar breytingar á ráðningarkjörum árið 1996 (Lög nr. 70/1996):
- Æviráðningar voru afnumdar,
- 95 ára reglan var aflögð (að starfsmaður geti farið á eftirlaun ef samanlagður lífaldur og starfsaldur nær 95 árum),
- Nýr lífeyrissjóður var stofnaður, Lífeyrissjóður A. Hann byggir á söfnunarréttindum eins og lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði og ekki var heimilt að fjölga félagsmönnum í Lífeyrissjóð B, en hann byggir á gegnumstreymi.
Nú eru ráðningarkjörin opinberra starfsmanna sem hér segir:
- Skammtímaráðningar með 1 mánaðar uppsagnarfresti,
- Ótímabundin ráðning með 2-3 mánaða uppsagnarfresti,
- Stjórnendur og embættismenn eru ráðnir til fimm ára í senn,
- Nýlega var þeirri breytingu komið á að háskólakennarar eru ráðnir til fimm ára áður en þeir fá fasta ráðningu.
Einnig var tekið upp frammistöðumat við flestar ríkisstofnanir og starfsmannasamtöl innleidd þar sem rædd er frammistaða starfsmanna og framtíðarmarkið sett. Það er stjórntæki sem gagnast vel til að greina styrkleika og veikleika starfsmannahópa með umbætur í huga.
Eftir að nýju lögin voru samþykk hafa orðið uppsagnir við margar ríkisstofnanir sem annað hvort byggja á skipulagsbreytingum og niðurskurði á rekstrarfé. Að þessu sést að það er langt í frá að ekki sé hægt að segja upp opinberum starfsmönnum. Störfum hjá ríkinu hefur fækkað um 11% frá árinu 2008. Ef starfsmaður gerist brotlegur í starfi fær hann áminningu. Eftir tvær slíkar áminningar má segja honum upp störfum. Það ákvæði hefur ekki verið mikið nýtt. Það má vera að það kerfi sé hægvirkt og mætti breyta.
Vinnulöggjöf fjallar um réttindi og skyldur á vinnumarkaði og víkur bæði að réttindum og skyldum atvinnurekenda og launafólks. Ráðningarkjör varða atvinnuöryggi launafólks, að það geti gengið að tryggri vinnu – en þurfa ekki að leita sér að vinnu frá degi til dags eins og algengt var hjá Eyrarköllum við upphaf 20. aldar. Verkalýðsfélög hafa því samið um uppsagnarfrest frá upphafi. Í elsta kjarasamningi á Íslandi sem undirritaður var 19. desember 1906 milli Hins íslenzka prentarafélags og prentsmiðjunnar Gutenbergs og Ísafoldarprentsmiðju segir í 3. gr.: ,,Uppsagnarfrestur fyrir báða málsaðila eru 3 (þrír) mánuðir.“
Vinnulöggjöf er mjög ólík milli landa. Þannig er mismunandi milli landa hversu auðvelt er að segja upp starfsfólki; ástæður sem teknar eru gildar, lengd uppsagnarfrests sem og kostnaður við að segja upp starfsfólki. Almennt má segja að vinnulöggjöfin sé nokkuð stíf í Evrópulöndum. Ísland skipar sér á bekk með Bretlandi og Bandaríkjunum sem tilheyra fámennum hópi landa með mjög frjálsa vinnulöggjöf meðal starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Á liðnum árum höfum við séð að eigendur og stjórnendur íslenskra fyrirtækja hafa sagt upp starfsfólki án þess að tilgreina ástæður, jafnvel þó svo að viðkomandi starfsmaður sé bæði reyndur, vel menntaður og hafi staðið sig vel í starfi. Þegar tillit er tekið til kostnaðar við atvinnuleysi, glataðrar þekkingar og fleiri atriða má alveg færa fyrir því rök að herða þurfi vinnulöggjöf á almennum vinnumarkaði eins og að draga þurfi úr atvinnuöryggi opinberra starfsmanna. Ríkisvaldið þarf að huga að heildarhag ólíkra aðila í samfélaginu, ekki eingöngu atvinnurekenda.
- Hugleiðingar um samningamál - 16/10/2015
- Ísland, Færeyjar og unga fólkið - 26/07/2015
- Breytingar á fjölda starfa eftir hrun - 01/07/2015