Orka á Austurlandi
Talsverð umræða hefur spunnist um orkuþörf Austfirðinga eftir að Jens Garðar Helgason leiðtogi sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð og formaður bæjarráðs lýsti sig fylgjandi því að reist yrði háspennulína yfir Sprengisand til að tryggja Austfirðingum (þó aðallega fiskimjölsverksmiðjum skilst mér) rafmagn.
Því er nefnilega þannig háttað, að bræðslurnar kaupa afgangsorku á niðursettu verði en þegar eftirspurnin eykst, verður víst engin afgangsorka og bræðslurnar verða að borga fullt verð fyrir rafmagnið.
Það vilja þær ekki gera því hægt er að fá ódýrari orku en íslenskt rafmagn á fullu verði; nefnilega innflutta olíu og hana nota bræðslurnar þegar afgangsrafmagn er ekki fáanlegt.
Mér finnst að grundvallarspurningin í þessu öllu saman ætti að vera þessi: Hvers vegna er innflutt orka ódýrari en sú sem tekin er úr íslenskri náttúru?
Fljótsdalsvirkjun (Kárahnjúkar) framleiðir agalega mikið rafmagn og mest af því fer í álverið á Reyðarfirði þar sem orku er sóað eins og enginn sé morgundagurinn. Reyndar skilst mér að henni sé sóað vegna samninga við Landsvirkjun en því er þannig farið að við framleiðslu á áli, sleppur gríðarlega mikill hiti út í umhverfið og talað hefur verið um nýta mætti þennan hita og breyta honum í raforku sem síðan yrði seld notendum á svæðinu. T.d. fiskimjölverksmiðjum.
En þetta er óheimilt, því álverið má ekki selja áfram þá orku sem það kaupir af Landsvirkjun. Er mér sagt.
Væri nú ekki gáfulegra að leyfa álverum landsins að skila orku aftur inn á kerfið ef þau geta gert það, frekar en að nota hana í að hita upp loftið fyrir ofan þau? Kannski gæti Landsvirkjun komið fyrir búnaði og virkjað þessa varmaorku sem þarna fellur til og nýtt hana áfram ef álverin mega það ekki.
Ég bendi á þessa stuttu grein frá Ástralíu um nýtingu á hita frá álverum.
Gleðilegt sumar.
- Lokaorð - 29/05/2015
- Traust - 01/05/2015
- Deyfilyfið - 16/04/2015