trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 30/06/2014

Neysluviðmiðin – Verum brjáluð!

Töluverð umræða hefur verið síðustu daga um samband neysluviðmiða og húsnæðiskaupa. Einstaklingar sem ekki hafa staðist greiðslumat hafa stigið fram og opnað bókhaldið og það sem kemur í ljós er vissulega umhugsunarvert. Það er eitthvað verulega mikið að í samfélagi þar sem háskólamenntað fólk sem vinnur mikilvæg störf í sínu fagi er með greiðslugetu frá núll og upp í 20.000 á mánuði.

En hvar er skekkjan? Að mati fasteignasala sem RÚV ræddi við er greiðslumat algeng fyrirstaða við fasteignakaup.

„Þessum viðmiðum var breytt og það er svona viss forræðishyggja í því, sem má deila um hvort sé að öllu leyti rétt, og hitt sem hefur áhrif á þetta er það að að svokölluð lánsveð voru með öllu bönnuð, sem hafa tíðkast til margra ára, þar sem kannski foreldrar eða aðstandendur voru að hjálpa fólki við að taka lán fyrir útborgun“, segir Kjartan og bætir við að einstaklingar komi verr út úr greiðslumati en pör og sambúðarfólk.

„Það er kannski þessi hópur, einstaklingar og einstæðir foreldrar sem virðast vera að koma verst út úr þessum nýju viðmiðunum í greiðslumötum“.

Hin breyttu viðmið sem fasteignasalinn vitnar til voru innleidd með lögum um neytendalán nr. 33/2013 sem tóku gildi 1. nóvember í fyrra. Nú er það svo að þau lög voru ekki sett að tilefnislausu. Síðan 2008 hefur skuldastaða margra íslenskra heimila verið bágborin, ekki síst vegna húsnæðislána. Sú staðreynd ætti ekki að hafa farið framhjá neinum sem kominn er sæmilega til vits og ára og hefur bæði augu og eyru. Staðan var einna verst hjá svokölluðum lánsveðshópi, fólki sem ekki átti neitt eða mikið eigið fé og fékk lánað veð hjá vandamönnum en var oft á tíðum að kaupa sína fyrstu fasteign á toppi fasteignabólunnar. Sá hópur hefur ekki getað nýtt sér 110% leiðina og ef fólk fer í greiðsluaðlögun eða hreinlega gjaldþrot sitja skuldir eftir á ættingjum. Það sama á við þegar um ábyrgðarmenn er að ræða.

Þegar löggjafinn hafði eytt nokkrum árum í að reyna að smíða skuldaúrræði til að bæta stöðu þessa hóps en gengið það heldur illa, úrræði féllu meðal annars með hæstaréttardómi, gerði hann það eina rökrétta í stöðunni: Tryggði að framtíðarkaupendur húsnæðis og venslafólk þeirra myndu ekki lenda í sama vanda vegna lánsveða. En auðvitað kemur það sér ekki sérstaklega vel fyrir fasteignasala.

Þá er það greiðslumatið. Eitt af því sem hefur einkennt íslenskan fasteignalánamarkað er að lántakendur hafa í raun ekki haft neinn möguleika á að sjá hver heildarkostnaðurinn við lántökuna er fyrirfram. Þeir sem tóku gengistryggt lán hjá Íslandsbanka árið 2004 hefðu aldrei getað ímyndað sér að nokkrum árum síðar myndi Alþingi setja lög á þá sem breyttu láninu í krónulán sem á reiknuðust afturvirkir vextir um og yfir 20% þrjú ár í röð en eitthvað minna hin árin. Þetta fólk hefði allt eins getað tekið yfirdráttarlán eins og húsnæðislán. Og verðtrygginingin. Það er einfaldlega ekki í mannlegum mætti að segja til um heildargreiðslubirgði 25 eða 40 ára verðtryggðs láns. Lántakandinn hefur hingað til bara þurft að krossa puttana og vona að þetta reddist. Reyndar er það svo að nú eru mál fyrir dómstólum þar sem spurt er hvort þetta galna fyrirkomulag standist neytendalöggjöf sem við höfum þegar innleitt í okkar löggjöf í gegnum EES samninginn.

Í neytendalánalögunum eru gerðar meiri kröfur til greiðslumats en áður var. Það eru líka gerðar meiri kröfur til þess að lántakandanum sé gerð betri grein fyrir þeirri skuldbindingu sem hann er að takast á hendur. Það er ekki í lagi að sýna honum greiðsluáætlun sem gerir ráð fyrir 0% verðbólgu svo dæmi sé nefnt. Það er líka sett meiri ábyrgð á lánveitandann. Honum ber að upplýsa lántakandann mun betur en áður var og kanna raunverulega greiðslugetu fólks betur.

Þegar ég tók í fyrsta sinn húsnæðislán seint á síðustu öld var díllinn þannig að maður fór í banka og fékk lánaða milljón í nokkra daga með yfirdráttarláni. Svo lagði maður milljónina inn á reikning í öðrum banka. Þangað fór maður svo til að fá greiðslumat og sagðist einmitt eiga þessa milljón. Bankinn veitti manni svo prýðilegt greiðslumat, byggt á fölskum forsendum enda var milljóninni skilað stuttu síðar. Og auðvitað vissi bankinn alveg hvernig í þessu lá og gat séð að milljónin var bara búin á vera á reikningnum í nokkra daga. Svo var farið með þetta fína greiðslumat til íbúðalánasjóðs sem lánaði út á blekkinguna.

Nú hefur löggjafinn tekið fyrir svona æfingar og ég held að það sé gott en ég efa það ekki að þetta fyrirkomulag hefur hentað fasteignasölum afar vel.

En við hvað skal miða við lánshæfis- og greiðslumat? Samkvæmt lögunum ber ráðherra að gefa út reglugerð um það.

Lánshæfismatið er byggt á viðskiptasögu umsækjanda í bankanum. Samkvæmt þeim sem komu fyrir þingnefnd á meðan málið var í vinnslu er þar ekki um mikla breytingu að ræða.

Greiðslumatið sjálft er nú mun ítarlegra en áður var og um það segir í 8. gr. reglugerðarinnar:

8. gr.
Neysluviðmið og rekstrarkostnaður.

Við útreikning á kostnaði við framfærslu lántaka skal að lágmarki miða við grunnviðmið í íslenskum neysluviðmiðum eins og þau eru birt á vefsíðu velferðarráðuneytisins á hverjum tíma auk áætlana um rekstrarkostnað bifreiða og húsnæðis, eins og við á.

Áætlaður rekstrarkostnaður fasteigna á ársgrundvelli skal að lágmarki nema 2% af virði fasteignar. Virði fasteignar skal miða við fasteignamat, brunabótamat, verðmat löggilts fasteignasala eða kaupverð fasteignar, eftir því sem við á.

Reki lántaki bifreið þá skal miða við að áætlaður rekstrarkostnaður hennar á ársgrundvelli sé að lágmarki 720.000 kr. Þó er heimilt er að draga frá þessu viðmiði kostnað vegna samgangna sem felst í neysluviðmiði skv. 1. mgr.

Ef lántaki telur að útgefin neysluviðmið, viðmið um rekstrarkostnað fasteignar og/eða bifreiðar gefi ekki rétta mynd af útgjöldum hans þá er lánveitanda heimilt að miða útgjöld við rauntölur. Óheimilt er að miða rauntölur um neyslu lántaka við lægri fjárhæð en sem nemur 75% af neysluviðmiði skv. 1. mgr. á hverjum tíma. Óheimilt er að miða við lægri rauntölur um rekstrarkostnað fasteignar en sem nemur 1% af virði fasteignar skv. 2. mgr. Óheimilt er að miða við lægri rauntölur um rekstrarkostnað bifreiða en 20.000 kr. á mánuði. Lántaki þarf að rökstyðja af hverju miða á við lægri viðmið en getið er í 1.-3. mgr. Upplýsingar um frávik frá viðmiðum skal varðveita ásamt öðrum upplýsingum um lántaka.

Ef lántaki er búsettur erlendis er heimilt að byggja útreikning á framfærslukostnaði lántaka á framlögðum reikningum eða opinberum framfærsluútreikningum sem notaðir eru af þarlendum lánveitendum til að reikna út framfærslu lántaka.

Miðað við þær fréttir sem borist hafa af neikvæðu greiðslumati einstakling virðist sem reglugerðin sé sveigjanlegri en framkvæmdin. Á samfélagsmiðlum og athugasemdakerfum fjölmiðla má sjá að margir hafa til að mynda hneykslast á háum samgöngukostnaði og einhverjir spurt hvort gert sé ráð fyrir að allir séu með bílalán. Það er einmitt ekki gert ráð fyrir því en ekki heldur því að núverandi bifreið lántakandans sem hann eigi hugsanlega skuldlaust núna endist allan lántímann eða í 25 – 40 ár. Bíla þarf því miður að endurnýja reglulega. Ég get ekki betur séð en að reglugerðin bjóði upp á sveigjanleika er kemur að samgöngumálum eins og sjá má í 3. og 4. málsgrein. Ef fólk á ekki bíl en ferðast um á hjóli, gangandi eða í strætó virðist eiga að taka tillit til þess og hægt að benda á ýmislegt fleira úr raunverulegu lífi fólks. Það væri fróðlegt að sjá fjölmiðla grafast fyrir um hvort þessi sveigjanleiki sé fyrir hendi eður ei.

Miða skal við grunnviðmið í íslenskum neysluviðmiðum Velferðarráðuneytisins.  Neysluviðmiðin eru tvennskonar. Dæmigert viðmið á að endurspegla og gefa sem heildstæðasta mynd af dæmigerðum útgjöldum íslenskra heimila. Þá er miðað við miðgildi útgjalda, þannig að helmingur heimilanna er með lægri útgjöld og hinn helmingur heimilanna með hærri útgjöld. Hér er því hvorki um lágmarks- né lúxusviðmið að ræða. Grunnviðmiðið gefur vísbendingar um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér og það er það sem miða á við við greiðslumat.

Á það hefur verið bent að fólk er ekki allt eins og sumum tekst að komast af með mun minna fé en öðrum. Útreikningur á neysluviðmiðum er heldur ekki óbrigðull og breytingar á neyslu skila sér hægt inn í útreikninginn. Hvað mína fjölskyldu varðar þá virðumst við nokkuð dæmigerð er kemur að flestum flokkum nema mat. Mér sýnist við eyða töluvert lægri fjárhæð í matvæli en viðmiðin segja til um. En kannski hef ég heldur ekki fullkomna yfirsýn yfir skyndibitakaup unglingsins.

Það er kaldhæðnislegt þegar fólk sem borgar 150.000 krónur á mánuði í leigu stenst ekki greiðslumat þar sem áætluð útborgun er mun lægri. Og auðvitað er það þannig að við forgangsröðum flest þegar kemur að útgjöldum. Það gengur fyrir hjá okkur flestum að borða og eiga heimili, hvort sem það er leigt eða keypt. Þá þurfum við flest nauðsynlega að komast á milli staða til að geta sinnt vinnu og það kostar líka. Þegar þetta allt hefur verið greitt getum við skoðað hvort við höfum efni á að fara til tannlæknis, í ræktina, bíó eða kaupa okkur föt. Sumu verður þó ekki frestað endalaust og það getur verið mun dýrara að fresta t.d. tannlæknaferð þegar upp er staðið en að fara reglulega.

Á netinu hafa ansi margir verið reiðir vegna hertra reglna og neysluviðmiðanna. Það sem blasir þegar við horfum á heildarmyndina er að Ísland er láglaunaland þar sem fólk fær engan veginn sanngjarna eða eðlilega umbun fyrir störf sín, menntun eða hæfni. Auk þess er  dýrt að lifa hér á landi og ýmsar neyslu- og nauðsynjavörur mun dýrari en í löndunum í kringum okkur. Það blasir líka við að fjárfestingarumhverfið er skakkt og það er ekki tilviljun. Það er verið að blása í nýja bólu og einstaklingum gert að keppa um þær fáu íbúðir sem rata á markað við fagfjárfesta sem gíra eignaverðið upp.

Verum endilega brjáluð yfir þessu öllu saman. Verum brjáluð yfir því að menntun okkar sé ekki metin að verðleikum. Verum bandvitlaus yfir því að hafa ekki alvöru gjaldmiðil. Verum snar yfir fákeppninni og háu matvælaverði. Verum sótsvört af reiði yfir því að stjórnvöld horfa aðgerðarlaus á stóra og sterka fagfjárfesta kaupa upp fasteignir á ákveðnum svæðum. Verum fokking brjáluð yfir því að þurfa að lifa eins og hamstrar á hjóli og að launin okkar dugi ekki fyrir helstu nauðsynjum. Verum brjáluð út í fasteignasala sem vilja lánsveðin aftur. Og verum endilega soldið brjáluð út í fjármálafyrirtækin líka því þau spila með í þessu.

En það er tilgangslaust að vera brjálaður út í neysluviðmiðin. Það er bara eins og að skjóta sendiboðann.

 

hamstur

 

 

Flokkun : Pistlar
1,484