trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 04/02/2018

Möskvar minninganna (XVI): Tappinn

Þau voru þarna fjögur. Kannske fimm. Ekki öll mjög gæfuleg.

Stutta útgáfan af sögunni er þessi: Hljómsveitin Tappi tíkarrass hafði leigt skátaskála yfir helgi uppi á Hellisheiði veturinn 1981-1982.

Þetta var Þrymheimur, skáli austarlega í Skarðsmýrarfjallinu sem var allajafna kallaður Þrymur og var í umsjá skátafélagsins Landnema. Til mótvægis var Jötunheimur – Jötunn – á hæðinni fyrir vestan. Ægisbúar úr vesturbænum sáu um hann.

Eðli málsins samkvæmt voru stelpurnar alltaf sætari í Jötni, en undirstaðan að sama skapi svikulli.

Nema hvað. Tappinn hafði pantað Þrym og það dæmdist á mig að vera skálavörður. Hvers vegna man ég ekki, en kannske bauð ég mig fram. Hafði séð þau á sviði í Árseli fyrr um veturinn og hrifizt mjög af. Hrollur er frábært lag og þau fleiri.

Núnú. Þarna var ég með þau uppi á fjalli um hávetur og átti að finna til ábyrgðar sem skálavörður.

Sjálfur Tappinn. Fjögur. Eða fimm. Ég sjálfur sirka átján. Og það var nístandi djöfuls frost ofan í nýliðna hláku.

Jakob Smári bassaleikari var mættur. Björk. Og Eyjó gítarleikari. Svo einhver fjórði maður, sem mér er lífsins ómögulegt að muna hvað hét. Hann var einna ógæfulegastur á að líta og alls ekki búinn til þess að gista í skála uppi á heiði. Hvað þá að ganga þangað í þessari færð.

Hann virtist vera á leiðinni í partí í Fossvoginum. Í götuskóm Spilverksins og þunnum jakka. Enda varð honum kalt á bæði tánum og sálinni, en olíufýringin í Þrymi ornaði honum áður en yfir lauk.

Vonandi hefur honum hlýnað enn betur síðar.

Stundum finnst mér eins og þarna hafi verið önnur kona, líklega kærasta Eyjós enda var hann áferðarfallegastur okkar allra. Jakob hins vegar mesti töffarinn, en svona er nú misjafnlega úthlutað.

Ég hafði verið varaður sérstaklega við, þegar skátafélagið fól mér það óheðfbundna verkefni að gæta Tappa tíkarrass yfir helgi uppi á heiði:

Þetta pönkara- og nýbylgjuhyski er örugglega á kafi í dópi og ólifnaði og þess vegna skaltu hafa augun opin allan sólarhringinn. Við viljum ekki að það kvikni í skálanum.

Ekki veit ég um það og ekki er Þrymur brunninn ennþá. Reyndar gerðist fátt þessa helgi annað en gott og fallegt, svo ég viti af. Þó vakti ég sæmilega til að sjá til með fýringunni og gasinu í eldhúsinu. Veður var stillt og öll andlit bæði ung og fríð.

Þeir reyndust enda vera jafnskemmtilegir og þeir voru vel búnir til fótanna, Jakob og Eyjó. Mæður þeirra höfðu sent þá að heiman með ágætan skóbúnað. Það var gaman hjá okkur.

Í hausnum á mér vakti ein þó spurning allan tímann. Hvar var sellóleikarinn með fallega hárið?

Hvers vegna var hann ekki með okkur þessa frosthelgi uppi á heiði?

Ég spurði aldrei. Líklega of feiminn, en kannske fannst mér ekki rétt að hnýsast í einkalíf hljómsveita.

En samt. Hvers vegna kom Eyþór ekki í þessa ferð?

Á því var áreiðanlega einhver einföld og sakleysisleg skýring, en eldhúskrókasálfræðin bjó til aðra eftir því sem árin liðu.

Hann var öðruvísi. Passaði ekki vel inn í myndina. Kannske annar þankagangur eða lífsviðhorf. Það var eitthvað.

Mér þykir ég hef fengið staðfestingu á þessari tilgátu allmörgum sinnum.

Og æ oftar upp á síðkastið.

1,709