Minnihlutahópur landsbyggðarinnar
Í þessari umræðu langar mig að taka smá þátt og byrja á sögu.
Það gæti hafa verið 1987 að ég mæti Rikka á flugvellinum á Egilsstöðum; hann er á leið heim á Stöðvarfjörð, ég að skreppa í borgina, hann er að koma frá Vín.
„Veistu hvað er mest rætt í Austurríki í dag?“ segir hann og svarar sér vitaskuld sjálfur og lætur mig vita að þar sé fólk að hafa áhyggjur af því að Vín sé orðin svo og svo fjölmenn miðað við afganginn af Austurríki. Við, hann, Sólrún og ég, skemmtum okkur á kostnað borgarbúa yfir höfuð.
Það hefur iðulega heyrst að byggðaþróun sé „ekki náttúrulögmál“, en það er hún og horft til vangaveltna Austurríkismanna fyrir kannski 30 árum, er hjá okkur um hamfarir að ræða.
Nú skal ég taka það fram strax að ég kæri mig alls ekki um að þróunin snúist við, að það fari að fjölga hér, þá yrði lengra í berin, bara svo ég taki eitt atriði. Jú, kannski ég nefni annað. Eins og nú er kemur hingað, ef það kemur yfir höfuð fólk til að setjast að á ég við, þá er þetta svona venjulegt fólk sem ekki á mikið af veraldlegum eigum. Þetta er hlutur sem gæti breyst ef straumnum verður snúið við. Það er nefnilega þessi straumur sem greinilega er náttúruafl. Ef einhver hefur áhuga á að andmæla þessu verðu sú/sá að útskýra með öðrum hætti stanslausa samþjöppun inn á eldvirkt skjálftasvæði út á nesi sem er á hraðri leið að sökkva í sæ, Kvosina í Reykjavík.
———-
Þá að stjórnarskránni, sextugustu og fimmtu grein, og Svanfríði, eiginlega spurningarmerkinu hennar. „Allir“ í stjórnarskránni þýðir bara alls ekki allir. Það er að koma út bók sem sýnir svart á hvítu að þar í eru ekki utangarðsmenn og undanfarin misseri höfum við verið minnt á að hælisleitendur komast ekkert nærri því að falla undir þetta. Það sem verra er, að jafnvel þótt það sitji í ráðuneytinu ekki færri en 3 lögspekingar við að reyna að finna fólkinu eitthvað til foráttu, í vægt sagt bágri aðstöðu þess, virðist engum detta það í huga að sú gerð, notkun gagnanna verði þau til, sé ekki bara fullkomlega siðlaus heldur brot á 65. ef litið er svo á að „allir“ þýði allir.
Stjórnarskráin gildir ekki handan Hellisheiðar, utan háskóla. Já, ég veit að einhver ætlar að fara að andmæla mér á grundvelli þess að ég sé að öfundast út í „menntaelítuna“. Lesiði útlendingalögin. Lög um útlendinga frá 2002 nr. 96 – 15. maí. Lög um atvinnuréttindi útlendinga frá 2002 nr. 97 – 10. maí.
„Þegar um er að ræða umsókn um atvinnuleyfi samkvæmt ákvæði þessu vegna starfs sem krefst háskólamenntunar er Vinnumálastofnun heimilt að víkja frá skilyrði a-liðar 1. mgr. 7. gr., sbr. a-lið 1. mgr.“
„[23. gr.]1) Eftirtaldir útlendingar eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í allt að fjórar vikur á ári hér á landi:
a. Vísindamenn og fyrirlesarar að því leyti sem varðar kennslu eða hliðstæða starfsemi.
b. Listamenn“…
Það eru undantekningar á þessu með háskólaborgarana en þær hafa fyrirvara sem vissulega útiloka að upphafs frasi 65., „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum“, eigi við. Framhaldið er, „að undanskildum hljóðfæraleikurum sem ráða sig til starfa á veitingahúsum“. Þessi grein endar annars, „ráðherra getur sett reglur sem skilgreina nánar einstök störf sem falla undir undanþágu samkvæmt þessari grein“. Hanna Birna getur bara leyft hælisleitendum að vinna þangað til þingliðið hefur girt sig í brók og séð til þess að farið sé að … ætlaði að fara að skrifa stjórnarskránni, hvar í þyrfti að koma ákvæði sem segði að „allir“ eigi við alla undantekningalaust.
———-
Annað náttúrulögmál sem veldur því að við spyrjum eins og Svanfríður hvort landsbyggðirnar séu minnihlutahópur er þetta sem veldur því að fólk myndar samfélög, tengslanetið. Auðvitað er það nokkuð sem við erum að mynda alla ævi en sterkust, eða ætti ég að segja mögnuðust, verða þau á „mótunarárunum“.
Það er sem sagt nokk sama hve oft menn skrifa stjórnmálamenn þetta eða hitt; við erum að tala um háskólaborgarana. Nú orðið auðvitað bæði þá sem kvarta og hina sem kvartað er yfir. Og þó.
Kaldhæðnin er sú, að á sama tíma og við flækjum stöðugt hluti sem snúa að grunn atvinnuvegum okkar frá landnámi, stendur utanríkisráðuneytið í því að vinda ofan af flækjustigi þjónustugeirans og það í samstarfi á heimsvísu. Það hefði mátt segja mér að Íslendingar tækju þátt í TISA-viðræðunum til að passa upp á að ekkert yrði einfaldað ef þetta hefðu ekki verið viðræður um að „gera íslensk fyrirtæki sem stunda þjónustuviðskipti betur samkeppnishæf á heimsvísu og draga úr viðskiptahindrunum“ (úr Kjarnanum). Meira úr Kjarnanum: „að vinda ofan af því regluverki sem sett hefur verið á fjármálaþjónustu eftir hrun og setja upp einhvers konar yfir þjóðlegan gerðardóm til að taka ákvarðanir um deilumál sem munu spretta upp á milli fjármálafyrirtækja og þjóðríkja í framtíðinni“.
Fyrir hrun voru þrefalt fleiri símar hjá Fiskistofu en Fjármálaeftirlitinu.
Fáránleikinn séð frá hag þjóðfélagsins, almennings, verður ljós þegar því er velt upp að einmitt þessa dagana er verið að dæma og sýkna menn fyrir að fara með fé, einmitt þessa sama almennings og aldrei er honum blandað í dæmið. Nei, það er viðmiðið að fyrirtækin, bankarnir sem mennirnir unnu hjá, töpuðu ekki á tiltektum þeirra; þjóðfélagið er aldrei nefnt.
Það er gjörsamlega galið að reka stóra stofnun, jafnvel á Akureyri, til þess eins að skipta sér af ef einhverjir renna færi í sjó og höndla með aflann, það getur aldrei skaðað fyrirtæki þeirra. Sá skaði sem einhverjir ímynda sér að mögulegar veiðar valdi þjóðfélaginu, sem ekki stendur vel að merkja til að standa vörð um hvort eða er, hversu æðisgengið sem brjálæðið yrði, á sér nú einu sinni þau mörk að aflann þyrfti að éta.
Þeir sem héldu, og halda enn raunar, að það eigi að vera tilgangur veiða við landið að drepa allt sem hreyfist og afgangsstærð að koma aflanum í verð eru þeir sem réðu og ráða enn og stóðu fyrir mestu kynjamismunun Íslandssögunnar; sama hvað femínistar segja. Það að taka allan mögulegan afla kringum landið og úthluta strákunum sem veiddu, og um ófyrirsjáanlega framtíð, en stelpunum sem breyttu honum í mat ekki einu einasta grammi ætti að duga til að fara með málið fyrir „mannréttinda“dómstóla.
———-
Landsbyggðirnar eru ekki minnihlutahópur en lúta samfélagsgerð þar sem lægsti samnefnari gæti kristallast í asískri einstæðri móður í byggð sem svipt hefði verið lífsbjörginni. Henni hefði ekki einu sinni verið sýnd sú virðing af „stjórnvöldum“, að láta hana vita af því að hún yrði að „gera eitthvað annað“.
Betur „meinandi“ háskólaborgarar hafa látið vita af þeirri skoðun sinni að hitt og þetta eigi eða eigi ekki við í byggðamálum í landinu. Þegar kemur að hagsmununum og undið er ofan af orðræðunni er innihaldið kannski eitthvað á þessa leið:
Byggðastefna felst í því að annað fólk búi „úti á landi“.
Það þarf náttúrlega að rannsaka þetta allt betur.
Auðlindirnar (sjórinn, jarðhitinn og vatnsföllin) eru sameign þjóðarinnar og það á að heimta gjald fyrir þær.
Það er ófært að það skuli endalaust verið að skrá gengið með hagsmuni sjávarútvegsins fyrir augum.
Með öðrum orðum getið þið ekki gert eitthvað annað en…
Veiða fisk, veiða rjúpu, tína egg, skjóta gæs, rækta landið, þjónusta ferðafólk, vinna í álverum, rækta hreindýr…, bara eitthvað annað.
Viðbrögð okkar landsbyggðarbúa, dregin saman á svipaðan hátt verða mér efni í annan, seinni þátt.
Krummi í Rjóðri
- Bakteríur sem þrífast á lyfjunum - 18/03/2019
- Bráðum á hann hvergi heima - 08/08/2018
- Hin helga vík - 24/04/2017