Lýðræði í kreppu – lengi lifi lýðræðið!
Það var sérstök tilfinning að flytja erindi um lýðræði og stjórnarskrá í Aþenu, sjálfri vöggu lýðræðisins. Mér var boðið á ráðstefnu um lýðræðisumbætur, þátttökulýðræði og stjórnarskrármál og falið að fræða viðstadda um það hvernig við Íslendingar sömdum okkar eigin stjórnarskrá í opnu ferli þar sem þátttaka hins almenna borgara var tryggð á flestum stigum málsins. Ég sagði líka frá því hvernig Alþingi klúðraði svo málunum á lokasprettinum, þrátt fyrir heila þjóðaratkvæðagreiðslu og hvað það kosti okkur að hafa t.d. ekkert auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Aðstandendur ráðstefnunnar eiga sér þann draum að þeim takist að koma svipuðu verkefni af stað í sínu heimalandi. Þar eins og víða annarsstaðar er litið á Ísland sem mikið fyrirmyndarríki er kemur að lýðræðismálum, eins undarlega og það hljómar.
Mitt erindi var ekki það eina sem fjallaði um lýðræðislegt verkefni sem byggði á margþættri þátttöku almennings. Dæmin komu víða að. Það furðulega var þó að opinberu verkefnin sem greint var frá enduðu með sama hætti – þegar á hólminn var komið heyktust stjórnvöld á að framfylgja vilja fólksins. Tíminn leið án þess að nokkuð gerðist þegar kom að hinum eiginlegu framkvæmdum eða stjórnvöld frestuðu málinu um óákveðinn tíma. Þeir sem lagt höfðu vinnu í flott verkefni sem stungið var ofan í skúffu stóðu eftir ráðalausir. Þegar stjórnvöld bera við pólitískum ómöguleika geta borgararnir lítið gert annað en að rífa kjaft, klórað sér í kollinum og kosið eitthvað annað næst.
Eftir að hafa greint viðstöddum frá hinu flotta og lýðræðislega ferli sem smíðað var í kringum stjórnarskána, frábæru frumvarpi stjórnlagaráðs og mikilvægi þess að það næði fram að ganga greindi ég frá því hvernig gömlu stjórnmálaflokkarnir hefðu klúðrað málum á lokasprettinum. Og ég sagði líka að ég væri ekki sérlega vongóð um að frumvarpið yrði lögfest á næstunni. Hér væri við völd einhver versta og óvinsælasta ríkisstjórn allra tíma, þetta væri bæði hrokafullt og hættulegt fólk.
Eftir að ráðstefnunni lauk komu margir að máli við mig og þökkuðu okkur Íslendingum innblásturinn. „Já, en við klúðruðum þessu. Stjórnarskráin hefur ekki tekið gildi,“ svaraði ég og hélt jafnvel að tungumálaerfiðleikar væru að flækjast fyrir okkur. Var ég kannski ekki nægilega skýr í máli mínu?
En þá var mér bent á hið augljósa.
Hafði ég ekki sjálf sagt að hægri stjórnin væri hörmung og fólk væri búið að fá upp í kok? Myndi það ekki bara kjósa aðra flokka næst? Nú væri lag að koma málinu á dagskrá og halda baráttunni áfram, fólk hlyti að átta sig á nauðsyninni fyrr en síðar. Og við ættum plaggið og þjóðin væri búin að segja sína skoðun á því hvernig samfélag það vildi byggja? Við værum með uppskriftina í höndunum.
Og það er hárrétt!
Á sama tíma berast þau gleðitíðindi að fylgi Pírata sé rokið upp úr öllu valdi og sé nú rétt tæp 30%. Það skil ég vel þótt ég óttist að það sé hverfult. Kannanir síðustu ár hafa sýnt að stór hluti þjóðarinnar er tilbúinn til að kjósa eitthvað annað en fjórflokkinn, sjá t.d. hér og hér en þau atkvæði skila sér ekki endilega í kjörkassann. Þótt þessar miklu vinsældir Pírata séu ekki í hendi (sérstaklega ekki þar sem kjósendahópurinn er í yngri kantinum og einmitt sá hópur sem því miður skilar sér síst á kjörstað) er freistandi að velta fyrir sér hvort það lausafylgi sem hefur verið til staðar eftir hrun og sérstaklega eftir birtingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis árið 2010 – eftir að fólk áttaði sig á hvað það var sem gerðist hérna – sé að þétta sig í kringum Píratana. Og hvort það sé kannski ekki bara ágætt? Ekki viljum við að stór hluti atkvæða dreifist á of marga aðra flokka sem ekki komast inn eins og gerðist í síðustu Alþingiskosningum (sem er eitt af því sem mun breytast þegar nýja stjórnarskráin tekur gildi). Sé það svo verða Píratar að spýta í lófana og búa svo um hnútana að flokkurinn geti orðið raunveruleg og lýðræðisleg fjöldahreyfing. Okkur vantar nefnilega svoleiðis fyrirbrigði þótt hreyfingin hafi færst nær því að vera það eftir að hún tók þátt í sveitarstjórnarmálum.
Gott gengi Pírata er að mörgu leyti skiljanlegt og bæði þingmenn þeirra og borgarfulltrúar hafa unnið fyrir því með málefnalegum málflutningi og heilbrigðri nálgun á stjórnmálin með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Þeir eru ekki tengdir hagsmunaklíkum gamla Íslands. Annað gott við þá er að þeir eru alveg lausir við daður við þjóðernissinnaðan popúlisma sem því miður er oft aðgöngumiði að stjórnmálum þegar skóinn kreppir í samfélaginu eins og við sáum fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Þvert á móti treysti ég fáum betur til að berjast gegn rasisma en einmitt Birgittu og Jóni Þór. Og það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að Helgi Hrafn er einn besti þingmaður landsins, hreinn og beinn og talar tæpitungulaust sem er alltaf best og hann á eflaust stóran þátt í fylgisaukningunni. Það tekur tvö ár að læra að vera þingmaður. Nú erum við einmitt komin á þann hluta kjörtímabilsins þegar í ljós kemur úr hverju menn eru gerðir.
Það er freistandi að bera Píratana saman við önnur ný eftirhrunsöfl eins og Syriza í Grikklandi og Podemos á Spáni og stundum finnst mér flokkurinn hér eiga meira sameiginlegt með þeim en hinni alþjóðlegu Píratahreyfingu sem virðist vera að liðast í sundur á sama tíma og þeir íslensku sækja í sig veðrið. Lítill þingflokkur á Alþingi kemst heldur ekki upp með að vera „eins máls flokkur“ eins og ýmsum fannst Píratarnir vera upphaflega. Ætli þeir að halda sigurgöngunni áfram þurfa þeir að móta trúverðuga stefnu í öllum málaflokkum.
Daginn eftir ráðstefnuna gekk ég um Akrópólíshæð og hugsaði um lýðræðið í fortíð og nútíð, innblásin af reynslusögum frá Grikklandi, Egyptalandi, Ítalíu og Bretlandi. Mér varð hugsað til lélegs lýðræðisskilnings íslenskra ráðherra sem ýmist vaða fram í umboðsleysi með óskiljanleg bréf eða setja fram fjarstæðukenndar túlkanir á raunveruleikanum.
Og allt í einu áttaði ég mig á því að þótt stjórnarskrá þjóðarinnar hafi ekki enn öðlast formlegt gildi er hún þegar raunveruleg og farin að hafa áhrif. Hún er til og varð til með sameiginlegu átaki þjóðarinnar, hvað sem Birgir Ármannsson og Vigdís Hauksdóttir segja. Við erum þegar farin að nota hana, bera okkur saman við hana. Gera sömu kröfur til ráðamanna og hún leggur þeim á herðar. Og við viljum líka sömu réttindi.
Stór hluti þjóðarinnar tók þátt í ferlinu eða fylgdist með því. Við lærðum öll heilmikið um stjórnskipan og með því að lesa plaggið, mynda okkur afstöðu um það og taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem tveir af hverjum þremur kjósendum lýstu ánægju sinni með það hækkuðum við kröfurnar.
Ég held að fyrir hrun og alla þá vinnu og sjálfskoðun sem fram hefur farið hjá þjóðinni hefði lekamálið t.d. aldrei orðið að neinu máli. Og ég held líka að utanríkisráðherra hefði alveg komist upp með að afhenda bréfið sitt í útlöndum án þess að aðrir hefðu trompast yfir því en stjórnarandstaðan og þeir sem hafa sérstakan áhuga á ESB. Þess í stað sýna kannanir að andstaðan er síst minni hjá ESB andstæðingum því fólk veit að svona má ráðherra ekki koma fram við þing og þjóð.
Og kannanir sýna að kjósendur þyrstir enn í eitthvað nýtt og tært. Því ber að fagna. Mikilvægast af öllu er þó að ná völdunum aftur úr höndum peningaaflanna og hagsmunaaðilanna og því miður virðast gömlu flokkarnir sem sumir byggja á fallegum gildum vera í þeirra höndum. Stjórnarskráin er mikilvægasta tækið til þess. Og þar er bara lokahnykkurinn eftir. Drífum í þessu!
- Baráttan um Ísland - 27/10/2017
- Hvaða máli skiptir ný stjórnarskrá? - 23/10/2017
- Forsetinn veitir undanþágur frá lögum … - 20/10/2017