trusted online casino malaysia
Jón Ólafsson 06/12/2014

Lögmaður eða dómari, frjálshyggjumaður eða íhaldsmaður?

Jón Steinar Gunnlaugsson(Tvö komment á bók Jóns Steinars Gunnlaugssonar, Í krafti sannfæringar. Saga lögmanns og dómara (Reykjavík: Almenna bókafélagið 2014))

Það má vel saka Jón Steinar Gunnlaugsson um skringileg, jafnvel á köflum einfeldningsleg viðhorf en þau eru skýr og viðbrögð hans fyrirsegjanleg, oftast nær. Einu atriði hefur hann hamrað á svo lengi sem ég man eftir og því heldur hann áfram í bók sinni. Þetta er sú sannfæring hans að í hverju dómsmáli sé ein (og aðeins ein) rétt niðurstaða. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei sérstaklega sett mig inn í þá rökræðu sem þessi sannfæring Jóns Steinars er hluti eða afleiðing af. Staðhæfingin virðist við fyrstu sýn að minnsta kosti fáránleg – en þar sem íslenskir lögfræðingar, einangraðir sem þeir eru, týna sér iðulega í kostulegum kappræðum hef ég alltaf tekið deiluna um eina rétta niðurstöðu sem eitt dæmi um slíkt.
Þegar maður les bókina getur maður þó ekki annað en hrifist af þeim mikla sannfæringarhita sem einkennir skrif Jóns Steinars um þetta efni. Rök hans eru í stuttu máli þessi:
Niðurstaða í dómsmáli er niðurstaða um sekt eða sýknu í ljósi gildandi laga og réttarheimilda. Séu staðreyndir máls kunnar eiga allir þeir sem búa yfir nauðsynlegri lögfræðilegri þekkingu að geta komist að sömu niðurstöðu um þetta.
Hann viðurkennir auðvitað að ágreiningur geti verið um túlkun á lögum og réttarheimildum og sömuleiðis má ætla að ágreiningur geti verið um staðreyndir máls. En Jón Steinar telur að slíkan ágreining sé alltaf hægt að leysa þótt það geti verið flókið í einstökum tilfellum. Þannig geta aldrei fleiri en einn haft rétt fyrir sér á endanum: Þegar búið er að komast til botns í málinu er ein niðurstaða rétt. Með því að fallast á að í dómsmáli geti verið margar jafnréttar niðurstöður hlyti maður að gera ráð fyrir að fleiri en ein rétt túlkun geti verið á sömu lögum eða að fleiri en ein rétt túlkun geti verið á staðreyndum. En það er í augum Jóns Steinars óhugsandi. Staðreyndir eru staðreyndir og lög eru lög.

Þó er merkilegt til þess að hugsa að í raun getur enginn lögmaður raunverulega verið þessarar skoðunar og það á við um Jón Steinar sjálfan ekki síður en um aðra lögmenn. Þetta kemur líka fram í þeim málum sem hann hefur tekið að sér að sækja eða verja. Þó að vissulega sé það falleg hugsun að lögmaður eigi aldrei að taka að sér mál sem hann getur ekki sótt eða varið í krafti eigin sannfæringar (svo vísað sé í titil bókarinnar) þá gerast nú kaupin þannig að viðskiptavinir lögmannanna falast eftir þjónustu þeirra og hún er veitt gegn gjaldi. Lögmaðurinn skuldbindur sig því til að gera allt sem í hans valdi stendur til að túlka lög og reglur viðskiptavini sínum í hag og hann veit að mótaðilinn vinnur eins. Það er auðvitað hugsanlegt að sem lögmaður haldi Jón Steinar aldrei öðru fram en því sem hann er sannfærður um að sé rétt, en staðreyndin er þó sú að sem lögmaður á hann að horfa á hagsmuni viðskiptavinarins fyrst og fremst. Það þýðir ekki að hann eigi að halda fram ósannindum, eða einhverju sem hann veit að er rangt, það þýðir einfaldlega að af öllum túlkunum staðreynda, atburða, mannkosta, ætlunar og svo framvegis, ber honum að velja þá sem þjónar hagsmunum viðskiptavinarins best. En með því er viðurkennt að málflutningur er oft keppni lögmanna um að sannfæra dómara um sína túlkun, ekki vegna þess að hún sé eina rétta túlkunin heldur vegna þess að hún er í senn möguleg og viðskiptavinunum í hag.

Þessi þekkingarfræðilega mótsögn varðar fyrst og fremst muninn á starfi dómarans annars vegar, lögmannsins hins vegar. Sá sem aldrei hefði verið annað en dómari gæti ef til vill haldið þessu fram án mótsagnar. Jón Steinar leggur mikla áherslu á að dómarar verði að gæta þess að láta ekki tímabundin viðhorf í samfélaginu hafa áhrif á sig, en halda sig við varanlegri viðmið – það er, starðeyndir og lög. En þessi afstaða er fáránleg: Í öllu réttarfari á sér stað þróun sem varðar einmitt túlkun á bæði gildandi reglum og venjum og staðreyndum. Auðveldast er að sjá þetta með því að kynna sér söguleg dæmi, til dæmis frá 17. eða 18. öld um starfsvenjur og niðurstöður dómstóla, sem iðulega litu framhjá eða rangtúlkuðu staðreyndir vegna þekkingarleysis á til dæmis sálfræðilegum eða félagslegum þáttum. Raunar hefur Jón Steinar látið í ljós íhaldsviðhorf gagnvart sérfræðilegum vitnisburði sálfræðinga sem gerir að verkum að hann á afar erfitt með að skilja (að því er virðist) hvernig til dæmis það getur breyst hvað skilgreint er sem nauðgun þegar skilningur dómara eykst á tilteknum sálrænum einkennum gerenda og fórnarlamba. Ef til vill má fallast á það með Jóni Steinari að það það er eitthvað kæruleysislegt við að halda því fram að að í sama máli geti verið margar jafnréttar niðurstöður. En sá vandi varðar á endanum kannski bara orðalag: Betra væri að segja að sú hugmynd að dómsniðurstaða sé annað hvort mistök eða eina mögulega niðurstaðan í málinu sé einfeldningsleg. Réttara er að í dómsmáli hlýtur markmiðið að vera að finna bestu, réttustu, sanngjörnustu, réttlátustu eða eðlilegustu niðurstöðuna, en hástig þessara orða felur í sér að niðurstaða getur verið sanngjörn án þess að vera sanngjörnust, rétt án þess að vera réttust og svo framvegis. Auðvitað skilja líka allir lögfræðingar að niðurstaða getur verið rétt án þess að vera réttlát: Lög geta legið þannig við máli að snjöllum lögmanni (á borð við Jón Steinar) takist að fá fram dóm fyrir sinn viðskiptavin sem allir sá að er ekki réttlátur, þó hann kunni að vera réttur. Lögmaður sem nær þessum árangri getur glaðst fyrir sína hönd og viðskiptavinarins án þess að vera sá einfeldningur að halda að öðrum snjöllum lögmanni hefði ekki getað tekist að ná fram annarri niðurstöðu.

Hugmynd Jóns Steinars um eina og aðeins eina rétta niðurstöðu dómsmála hefur getið af sér annað viðhorf sem er kannski ögn óvenjulegra. Þetta er sú skoðun hans, sem hann hefur látið í ljós opinberlega og hamrar rækilega á í bókinni að túlka beri þann grundvallarrétt manna að vera álitnir saklausir þar til sekt er sönnuð vítt. Með öðrum orðum, ekki aðeins beri ríkisvaldinu að gæta þess að réttarkerfið meðhöndli alla jafnt, það er, líti svo á að allir séu saklausir sem ekki hafa verið dæmdir sekir fyrir eitthvert brot, heldur beri samfélaginu að líta svo á að maður sem brot hefur ekki verið sannað á, það er sá sem ekki hefur verið dæmdur, sé saklaus.

Þótt ekki birtist sama mótsögn í þessari afstöðu og í þeirri sem rædd var hér að ofan, til réttra niðurstaðna dómsmála, þá er í rauninni þversagnarkennt að sjá eindreginn frjálshyggjumann halda fram þessu viðhorfi. Kannski það komi til vegna innri togstreitu íhaldsmannsins og frjálshyggjumannsins í Jóni Steinari, því lagahyggjan sem birtist í þeirri hugmynd að almenningsálitið verði að lúta niðurstöðum dómstóla á sama hátt og réttarkerfið felur í sér djúpt vantraust á skoðunum almennings og þeirri hættu að áróðursmenn og lýðskrumarar afvegaleiði almenning. Efasemdir af því tagi eru óvenjulegar fyrir frjálshyggjumann, en algengar meðal íhaldsmanna til vinstri og hægri.

Í ritinu Frelsið eftir John Stuart Mill er til dæmis gerður skýr greinarmunur á almenningsáliti og afskiptum hins opinbera. Mill telur að mörg mál séu þess eðlis að erfitt geti reynst að réttlæta sektardóm eða skerðingu á frelsi einstaklinga, en í slíkum tilfellum hafi almenningsálitið einmitt oft mikilvægt hlutverk. Þess vegna má til dæmis slá því föstu að í þeim tveim málum sem Jón Steinar kom að sem lögmaður og fjallaði um í fjölmiðlum hefði Mill, þetta goð allra frjálshyggjumanna, verið á alveg öndverðri skoðun við hann. Þetta eru í fyrsta lagi prófessorsmálið svokallaða, þar sem maður var sýknaður af ákæru um kynferðislega misnotkun á dóttur sinni og biskupsmálið, þegar ásakanir um kynferðislega áreitni á hendur biskupi landsins komust í hámæli. Í báðum tilfellum fordæmir Jón Steinar hörkuleg ummæli um þessa einstaklinga í fjölmiðlum á grundvelli reglunnnar gagnvart lögum (saklaus uns sekt er sönnuð) en gefur lítið fyrir siðferðilegar ástæður slíkra ummæla. Þótt vissulega megi stundum fara fram á að fólk stilli munnsöfnuði í hóf, er það vantraust á almenningsálitinu sem fram kemur í skrifum Jóns Steinars um þessi mál, sem fyrr segir, merkilegt fyrir frjálshyggjumann.

Það mætti rökræða fleira í þessari bók, ég læt þetta duga hér. En það má alveg mæla með lesningunni. Þótt höfundurinn sé raupsamur, eins og karlar á sjötugsaldri hafa tilhneigingu til að vera, fylli bókina með alltof löngum tilvitnunum í sjálfa sig og aðra og sé óþarflega gjarn á að lýsa málstað andstæðinga sinna með háði, þá hefur Jón Steinar komið að nægilega mögum mikilvægum málum í gegnum tíðina – til góðs eða ills – til þess að flest er áhugavert sem hér fjallað er um.

Flokkun : Pistlar
1,259