Leiftursókn gegn landsbyggðunum
Iðnskólinn í Hafnarfirði var sameinaður Tækniskólanum yfir nótt. Það var hinsvegar ekki alveg svo einfalt, það var aðgerð sem búið var að undirbúa og smyrja fyrir. Samt olli hún uppnámi. Þessi sameining var á sama kortinu í ráðuneytinu og sameining fleiri framhaldsskóla í landinu er, þar sem sú stefna er uppi að litlum framhaldsskólum sé best stjórnað af stórum skólum. Gildir þá einu hvort um er að ræða vel rekinn skóla sem uppfyllir öll gæðamarkmið um framhaldsskóla. Hann skal víst vera betur kominn með því að setja yfir hann annan stærri.
Þær aðgerðir sem nú eru að bresta á hafa ekki fengið sama undirbúning og áðurnefnd sameining. Þvert á móti, samráð hefur verið vanrækt, en ramminn smíðaður einhliða, eitt mót fyrir alla.
Þetta er landauðnarstefna. Þetta er stefna sem tekur ekkert tillit til hinna ólíku landsbyggða og mikilvægis þess að framhaldsskólar fái að þróast á sínum forsendum í samspili við sitt umhverfi. Litlu framhaldsskólanir í landinu hafa með sér samstarf, Fjarmenntaskólann, sem þó er ekki stofnun eða félag með fjárhag. Í sumum skólanna er framúrskarandi þekking á því að ,,kenna yfir fjarlægðir“ og mikil reynsla. Með samstarfinu hefur þeim tekist að auka námsframboð sitt og miðla því sem þeir eru að gera best. En það hentar ekki ráðuneytinu, það skilur ekki svona samstarf sem hefur þróast á forsendum þeirra sem búa í dreifbýli. Það er líka svo miklu þægilegra að tala bara við nokkra stóra skóla.
En hvaða upphrópanir eru þetta. Er fólkið sem býr úti um landið bara á móti öllum breytingum? Nei, sannarlega ekki, og við höfum fjölþætta reynslu af því að vinna með látlausum breytingum í okkar umhverfi. Fækkun starfa í sjávarútvegi og landbúnaði ásamt niðurskurði opinberra starfa sér okkur fyrir nægum verkefnum að takast á við. En til þess að gera okkur færari um að takast á við breytingar og til að þróa samfélög okkar áfram þurfum við góða skóla og tilboð um menntun sem hentar. Framhaldsskólar í dreifbýli auka sérfræðistörf, sérfræðingar skólanna taka þátt í og styðja við atvinnulíf byggðanna. Þeir efla menntunarstig og auðvelda fyrirtækjum að ráða starfsfólk sem vill sjá framhaldskóla fyrir börnin sín í næsta nágrenni. Framhaldsskólar um landið allt eru því einhver mikilvægasta stofnun byggðanna. Og það er ekki nóg að hafa bara hús og kennara. Skólinn þarf að vera sjálfstæður, þó hann eigi í góðu samstarfi við aðra skóla. Við þekkjum nefnilega sögu útibúanna sem þorna upp á nokkrum árum. Þar er minna pláss fyrir frumkvöðlakraftinn og ekki sami hvatinn að nýta þau tækifæri sem búa í umhverfi og í mannauði svæðisins. Og það er svo miklu auðveldara ef syrtir í álinn að skera niður það sem fjær er.
Skólameistarar stóru skólanna hafa nóg með sitt þessi misserin; stytting náms til stúdentsprófs og vinna við námsskrá því tengt eru þeim næg verkefni. Þar er því og verður lítil orka til að þróa minni skólana áfram, og minni þekking líka á þeim þörfum og möguleikum sem fyrir hendi eru. Enda, þarf nokkuð að hyggja að þeim? Á því virðist takmarkaður skilningur í menntamálaráðuneytinu.
Landsbyggðirnar á Íslandi eru fjölbreyttar og ólíkar. Þeim henta því ólíkar lausnir. Þær lausnir finnast í samstarfi við heimafólkið. Það virðist oft vefjast fyrir miðstýringarvaldi ríkisins sem hefur tilhneigingu til að fletja allt út og kann best við eina lausn fyrir alla, stýrt úr ráðuneyti. Fjölbreytileikinn er hinsvegar verðmæti í sjálfu sér og að við fáum, hvar sem við búum á landinu, að njóta og nýta staðbundna sérstöðu, þekkingu og margvíslega möguleika.
En sameining framhaldsskóla, án samtals, án tillits til sérstöðu og fjölbreytileika er að bresta á, núna. Þetta er leiftursókn. Norðurlandið er komið á dagskrána og þar á að sameina Menntaskólann á Tröllaskaga, sem er verðlaunaður fyrir góða stjórnsýslu og hefur skorað hátt á öllum mælikvörðum, Framhaldsskólann á Húsavík, sem á ótal staðbundinn tækifæri, og hina öldnu stofnun Menntaskólann á Akureyri. Síðan eru það Laugar og VMA. Og svo verða Vestmannaeyjar lagðar undir Selfoss og Framhaldsskólinn á Snæfellsnesi undir Akranes. Og svo áfram . . . Já, hér vantar virkilega veruleikatenginguna. Og þetta er að gerast. Allt í þágu hinnar ömurlegu meðalmennsku. Þetta er að gerast núna og virðist eiga að taka fljótta af. Þetta er leiftursókn gegn landsbyggðunum.
- Leiftursókn gegn landsbyggðunum - 19/05/2015
- Að kjósa sig einhliða inn í ESB! - 22/01/2015
- Einokun, fyrr og nú - 01/10/2014