trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 02/04/2014

Jörðin eina og SDG

Mig setti hljóða eftir að hafa horft á forsætisráðherra vorn, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, lýsa tækifærunum sem biðu eftir Íslendingum og fælust í þeim hamförum sem spáð er að áframhaldandi hnattræn hlýnun muni leiða af sér fyrir jörðina og mannkynið. Þó mætti segja að ég væri í æfingu þar sem ég hef heyrt hann tala með svipuðum hætti áður.

En hvað getur maður sagt? Á maður að reyna að vinda ofan af bullinu? Nei, Sigmundur Davíð, Íslendingar eru ekki fyrirmynd annarra þjóða þegar kemur að umhverfismálum. Kolefnisfótspor Íslendinga er með því hæsta sem fyrirfinnst í heiminum. Ef allir jarðarbúar höguðu sér eins og við þyrftum við fimm eða sex jarðir.

Eða eigum við að líta á þetta sem aprílgabb? Baggalútur bjó til úr þessu ágætis pistil:

Ónefndur forsætisráðherra í áhrifalitlu dvergríki í norðurhöfum setti óvart svokallað „læk“ við loftslagsbreytingar af mannavöldum í kvöld.

Ekki er ljóst hvort forsætisráðherranum var alvara með lækinu, enda hefur hann áður sýnt óútreiknanlega og óábyrga hegðun á netinu.

En þetta er ekkert fyndið. Skýrsla Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna er grafalvarlega ábending til okkar allra en ekki síst til stjórnvalda. Sigmundur Davíð er einmitt í forsvari fyrir þau nú um stundir og því gengur ekki að maðurinn tali svona.

Sárast finnst mér samt að skynja á málflutningi hans algjöran skort á samlíðan með öðrum manneskjum. Ég held nefnilega að það sé ekki hægt að læra að sýna samkennd og ef forsætisráðherra hefur ekki komið sér upp þeim eiginleika nú þegar er ólíklegt að það breytist.

Ef sú sýn sem skýrslan bregður upp rætist mun það hafa áhrif á okkur öll. Sennilega koma breytingarnar verst niður á íbúum þróunarlandanna. Þar er líklegt að skilyrði til matvælaframleiðslu versni og náttúruhamfarir verði tíðari. Og það felur ekki í sér tækifæri fyrir íslenska bændur, það er einfaldlega hræðilegt og við verðum að reyna að bregðast við því með öllum ráðum.

Við erum nefnilega ekki að spila risk, matador eða civilization. Við erum að tala um jörðina, þessa einu sem við eigum og meðborgara okkar í öðrum löndum. Fólk eins og okkur.

Flokkun : Pistlar
1,525