Jólabókaflóðið
Útgáfuhefð bóka er á margan hátt sérkennileg hér á landi þegar við berum okkur saman við nágrannalöndin. Hvað veldur því að stór hluti bóka kemur út fyrir jólin en ekki allt árið um kring eins og tíðkast víða erlendis? Það á sér sögulegar skýringar eins og Ársæll Árnason bókbindari rifjaði upp í jólahefti Tímarits iðnaðarmanna árið 1941. Gefum honum orðið:
Eftir að ég kom til Reykjavíkur (1905) og fór að vinna að iðn minni, bókbandi, kynntist ég betur, eða öllu heldur á annan hátt, bókum í sambandi við jólin. Bækur komu þá aðallega eða nær eingöngu út á haustin, af eðlilegum ástæðum eins og þá hagaði til. Strandferðirnar hættu, þegar kom fram á haustið og urðu engar ferðir á smærri hafnir eftir það allan veturinn. Bækurnar áttu helzt að vera komnar út um allt land fyrir haustkaupatíðina, þá birgðu sveitirnar sig upp til vetrarins, fram að þeim tíma máttu menn ekki sinna neinum lestri vegna annríkis, en eftir haustkaupatíðina tók við hinn rólegi vetrartími, kvöldvökurnar, þegar mönnum gafst gott næði til lesturs, menn beinlínis þörfnuðust bóka. Á vinnustofunum hélzt annríkið til jóla. Það var hvorttveggja, að í annríkinu fyrir síðustu strandferðirnar var það, sem ætlað var Reykjavíkurmarkaðnum, oft látið bíða og tekið til við það á eftir, og svo var ,,jólabandið“, einkaband til jólagjafa, unnið fyrir jólin og þá oft mjög mikið annríki síðustu dagana. Einkaband var þá unnið tiltölulega miklu meira en nú, því að miklu meira var af óbundnum bókum á markaðinum, menn höfðu helzt peningaráð á þessum tíma, eftir sumarvinnuna, og leiddi þetta því all hvað af öðru.
Og þá vitið þið það.
- Hugleiðingar um samningamál - 16/10/2015
- Ísland, Færeyjar og unga fólkið - 26/07/2015
- Breytingar á fjölda starfa eftir hrun - 01/07/2015