Já en
Þessi tvö orð allt sem segja þarf. Já, og ævinlega. Þau eru svo aldrei eins mikið notuð sem í aðdraganda kosninga, sér í lagi þingkosninga.
Þetta er svona þarfaþing, eins og dósahnífur. Reyndar hafa slíkir misst nokkuð af hlutverki sínu með breyttum dósum. Já en er líklega bara eins og dósaopnunin sjálf. Jafnvel aðgerðin er eins og segja „já en“. Innihaldið skiptir engu, „já en“ sviptir umbúðunum opnum. Þetta fer líka eins, um leið og búið er að opna missa allir lyst á innihaldinu sem er þar með farið í endurvinnslu.
Þú segir „já en“ og það þarf að byrja upp á nýtt, eða kjósa það sama aftur. Ekki að það skipti máli fyrir framvinduna. Lang flestir standa í þeirri meiningu að það sé verið að kjósa „stjórnmálamenn og konur“. Bull. Þú ert á leiðinni að velja úr hópi fólks með akademíska menntun, háskólapróf. Ekki bara eitthvert slíkt próf heldur líklegast úr einhverjum ekki mjög svo „vísindalegum“ fræðum og alls ekki hagnýtum.
Það eru mestar líkur á að verið sé að velja úr hópi sem hefur ekki fundið sig í faginu, ekki tekist að verða sér út um „almennilega“ vinnu. Ekki það að þú ætlist til að eitthvað af þessu fólki fari að gera eitthvað og síst af viti. Já, og nú segir þú „já en“. Hlutunum er ekki stjórnað af stjórnmálamönnum, þeir einfaldlega hafa enga stjórn á hlutunum, engum hlutum yfirleitt. Hlutirnir bara gerast, fá að gerast í friði oftast og ef farið er að pota í þá kemur það pot frá því fólki sem við úti á landi köllum „SAS“, sérfræðingum að sunnan. Í stuttu máli þarf uppáskrift háskólamenntaðra til allra hluta, fyrir öllum hlutum og ekkert er „ókeypis“. Gallinn er bara sá að stór, ef ekki stærstur hlutinn, stendur síður en svo undir væntingum, hvað þá nafni.
Ég ætla ekkert að segja um alkohól, ekkert um tóbak eða önnur fíkniefni, ekki einu sinni sykur. Ég er heldur ekki á leiðinni að rifja upp herferðina gegn fitunni. Það er auðvitað ekki bara fjárskortur sem þjakar heilbrigðiskerfið, þetta þar sem þú þarft að hafa hesta heilsu svo þú þolir leitina að „rétta“ lækninum fyrir þinn „sjúkleika“, vel að merkja ef hann er þá yfir höfuð til.
Nú, við höfum lélega stjórnarskrá og þrátt fyrir að ekki skorti túlkendur erum við engu nær, getum svo sem hugsað að hún sé illa þýdd úr dönsku og látið nægja þetta klassíska „já en“.
Nei, það er ekki svo langt liðið frá þeirri fjárplógsstarfsemi sem Íslendingar leyfa sér að kalla hrun og kenna um illa reknum amerískum „fjármála“ fyrirtækjum, að mér detti í hug að fara að segja sögur af… það gæti endað með að ég þyrfti á verjanda að halda úr þessum hópi sem er enn ekki búinn að gera það upp við sig hvað það þýði að „láta einhvern gera eitthvað“. Alla vega ekki í stjórnarskránni.
Já en, ég ætla að nota mér þetta tækifæri til að auglýsa eftir áður tekinni ákvörðun sem er svo hrikalega vitlaus að við súpum seyðið af henni í formi ofbeldis á ungu fólki. Hver tók ákvörðun um að „fullorðnu“ fólki skyldi leyfast að „skemmta“ sér án barna?
Ég er ekki á leiðinni að ætlast til þess að við hættum að afgreiða hlutina með „Já en“, svo bjartsýnn er ég ekki en ég er nógu vitlaus til að heimta það stundum af „ráðamönnum“ að þeir geri t.d. grein fyrir því af hverju það þurfi lögregluvakt yfir fólki sem dansar og af hverju í ósköpunum ekki sé hægt að láta hluti eins og áfengið sjálft greiða fyrir gæslu á neytendum og hlífa öðru fólki við þeim kostnaði.
Ég uppsker „já en“.
Við höfum flugvöll í Vatnsmýrinni í einni dós. Landsspítala í Vatnsmýrinni í annarri. Í þriðju dósinni ráðhús í Vatnsmýrinni og Hörpu við affallið úr þessari sömu mýri. Hvert þessara fyrirbæra, hver þessara dósa afgreidd með „já en“. Greitt fyrir veislukostinn, dósamatinn með þeim fjármunum sem „völdum“ einstaklingum tókst, eða tekst ekki að koma á reikninga í öðru bankakerfi en því sem, merkilegt nokk, á allt einskonar rætur í þessari béaðri mýri. Raunar ein dós á hverja hundraðþúsund íbúa.
Nei, ég ætla ekki að hafa áhyggjur af því að það unga fólk sem álpast til að taka að sér að fara á þing verði ekki nógu klárt til að halda sér á floti. Þegar hins vegar gúrúar stjórnsýslunnar fara að segja þeim fyrir verkum mætti ég óska mér þess að þau stæðu í lappirnar og segðu „já en“; „og getur þú útskýrt fyrir mér“…
Já, hvar viljið þið bera niður: Gjaldskrár, næstum að segja hvaða gjaldskrá sem er frá orkufyrirtækjum til símafyrirtækja. Nú kann að vera að einhver geti einhverstaðar stafað sig fram úr einni af þeim og þá þarf unglingurinn ekki að biðja um merkilegri hlut en að viðkomandi útskýri verðmyndun landbúnaðarvara. Nei, nei, ekki í ESB, bara á Íslandi. Hann uppsker örugglega „Já en“.
Krummi í Rjóðri
- Bakteríur sem þrífast á lyfjunum - 18/03/2019
- Bráðum á hann hvergi heima - 08/08/2018
- Hin helga vík - 24/04/2017