Ísland í móðu
Mikið er þetta eitthvað aumt orðið hérna hjá okkur á þessari eyju sem við einhverra huta vegna lofsyngjum á hátíðastundum þótt líklega hafi hún í gegnum aldirnar drepið fleira fólk en hún hefur komið á legg; mikið er þetta vesældarlegur búskapur hjá okkur í þessu landi sem við teljum best í heimi en er það augljóslega ekki þegar á reynir.
Við búum á eldfjallaeyju sem hefur með reglulegu millibili spúð eitri og viðbjóði út í loftið og drepið menn og skepnur í þúsundavís og valdið landflótta svo miklum að þar eigum við sennilega met miðað við höfðatölu.
Þrátt fyrir að hafa búið við þessa vá alveg frá því að forfeður okkar voru reknir hingað frá Noregi fyrir að vera óþolandi í umgengni, látum við eiginlega eins og ekkert sé og þegar gýs og móðan leggst yfir svo fólk hóstar og porrar og rykið fer oní lungu á öllu sem dregur andann, þá eigum við ekki einu sinni til mæla til að sjá hvort mengunin sé svo mikil að ef til vill þurfi að gera aðrar ráðstafanir en að tala um hana og giska á að þetta sé ekki hættulegt neinum sem ekki er veikur fyrir.
Sjálf eldfjallaþjóðin er sofandi á vaktinni en nær svo ekki upp í nefið á sér af hneykslan yfir því að ef til vill hafi nú örþreyttur skipverji sofnað á vaktinni um borð í fraktrara fyrir austan og siglt í strand en kannski var það bara móðan sem byrgði honum sýn eða lagði hann í brúargólfið í asthmakasti en hvað vitum við?
Jú, við vitum eitt. Við vitum að þessi þjóð sem býr á eyju og á allt sitt undir fiskveiðum og flutningi á sjó, er svo aum að Lanhelgisgæslan okkar sem við höfum alltaf treyst til að bjarga hverju sem er, hefur ekki lengur ráð á að halda tveimur varðskipum á sjó samtímis, heldur þarf hún að flytja hluta mannskaparins á einu varðskipi yfir á annað til að hægt sé að sigla því frá bryggju þegar eitthvað bjátar á en þá spyr maður: Hvað með Hörpu; hvað styður þá Hörpu á meðan stóra varðskipið kíkir suður fyrir Reykjanes; verður ekki listrænt ójafnvægi þarna í Reykjavíkurhöfn þegar varðskipið fer á sjó.
Guði sé lof fyrir að Harpa er ekki kölluð út líka.
- Lokaorð - 29/05/2015
- Traust - 01/05/2015
- Deyfilyfið - 16/04/2015