Innrásin í Reykjavík
Nú ætla ég að gerast svo djarfur að spá Framsóknarflokknum góðu gengi í Reykjavík verði Guðni Ágústsson í oddvitasætinu á lista flokksins. Fyrir því eru nokkrar ástæður og vil ég nefna þessar helstar:
Fyrir um einu ári síðan, kusu Reykvíkingar fjóra skrýtna framsóknarmenn á þing; Vigdísi Hauksdóttur, Frosta Sigurjónsson, Karl Garðarsson og Sigrúnu Magnúsdóttur. Þetta er á pari við landsbyggðarkjördæmi á slæmum degi.
Guðni er feykivinsæll í Reykjavík, þ.e.a.s. á meðal þeirra sem láta sér nútímann og viðhorf hans í léttu rúmi liggja. Hann er eftirsóttur skemmtikraftur í borginni og treður þar upp á mannamótum við mikinn fögnuð.
Guðni er KR-ingur.
Guðni talar um hluti í efsta stigi, meira að segja langefsta stigi, og þeir eru gjarnan bestir í heimi. Nú hefur hann sagt Reykjavíkurflugvöll vera bestan á landinu og bráðum verður hann orðinn bestur í heimi og kominn þar í flokk með íslenskum landbúnaðarafurðum. Það kitlar egó Reykvíkinga ógurlega þegar einhver hrósar borginni og Guðni þarf ekki annað en að færa nokkra hluti upp í heimsklassa í einhverri ræðunni og þeir munu elska hann.
Það mun fleyta honum ansi langt að lofa einhverju skemmtilegu. Til dæmis gæti hann sagst ætla að lækka skuldir heimilan…úbbs, það var búið að nota það; hann gæti þá lofað því að endurgreiða fólki útsvarið sitt eða orkureikninga frá Hruni. Það myndi svínvirka og ég vísa til fyrsta liðar þessarar upptalningar því til sönnunar.
Góðar stundir.
- Lokaorð - 29/05/2015
- Traust - 01/05/2015
- Deyfilyfið - 16/04/2015