Í alvörunni, Bjarkey?
En þó þetta.
Athygli mín var vakin á ummælum Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur í viðtalsþætti hjá Lindu Blöndal á Hringbraut fyrir skömmu. (Varúð: Brynjar Níelsson er í þættinum líka.)
Umræðuefnið var kostnaðargreiðslur til þingmanna. Bjarkey upplýsti að hún fengi um 180 þúsund krónur aukalega á mánuði frá þinginu vegna þess að hún þarf að halda tvö heimili. Olræt og alltílæ.
En hún sagði fleira. Eða réttara sagt kveinkaði hún sér undan því að þessi fjárhæð „dygði ekki einu sinni“ til að standa undir afborgunum af íbúð sem hún ákvað að kaupa á höfuðborgarsvæðinu árið 2013.
Sko. Það er í langflestum tilvikum sjálfsagt að alþingi endurgreiði útlagðan kostnað sem sannanlega fellur til vegna starfa þingmanna. Svo sem nauðsynlegar ferðir. Og húsnæðiskostnað fyrir þá sem ljúga ekki til um lögheimili (hæ, Sigmundur Davíð)
En ekki akstur á þorrablót. Ekki akstur í afmæli vina sinna. Ekki akstur vegna prófkjörs. Ásmundur Friðriksson og þeir sem verja hann í þeim efnum eru haldnir einhvers konar siðblindu – eða bara græðgi. Eða hvoru tveggju.
Það er hins vegar og ekki heldur undir neinum kringumstæðum eðlilegt að þingmenn ætlist til þess að alþingi kaupi fyrir þá íbúðarhúsnæði.
Ef alþingismaður vill kaupa sér íbúð neyðist hann því miður til að borga hana sjálfur eins og aðrir landsmenn. Það er auðvitað djöfull fúlt og ósanngjarnt, en þannig er lífið stundum.
Núnú.
Er Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir siðlaus eins og Ásmundur Friðriksson? Það held ég áreiðanlega ekki og hef alls enga ástæðu til að ætla það. Þvert á móti.
En að henni komi til hugar að skattgreiðendur eigi að borga fyrir hana íbúð bendir til þess að hún sé verulega firrt.
Það vill raunar fylgja þessu djobbi.
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019