trusted online casino malaysia
Indriði Þorláksson 27/09/2014

Hver stjórnar skattrannsóknum?

Íslenskum skattyfirvöldum býðst að kaupa upplýsingar sem snerta hugsanleg lagabrot íslenskra skattborgara. Í fréttum hefur komið fram að það sé í höndum fjármálaráðherra að ákveða hvort af kaupunum verður.

Eitt mikilvægasta efnisatriði íslenskra skattalaga og reyndar skattalaga flestra réttarríkja er að framkvæmd skattalaga á að vera óháð pólitísku valdi. Ráðherra má ekki skipta sér af skattlagningu einstakra aðila eða hafa afskipti af skatteftirliti eða skattrannsóknum. Það er því sérkennilegt ef það er nú talið hlutverk fjármálaráðherra að taka ákvörðun um hvort aflað skuli upplýsinga sem skattyfirvöld þurfa á að halda til að sinna verkefnum sínum. Skiptir þá engu hvort álitamál séu uppi um hvernig gagnanna hafi verið aflað.

Ákvæði laga um verksvið skattyfirvalda og ráðherra eru skýr í þessu efni sbr. eftirfarandi greinar í lögum um tekjuskatt:

“102. gr.

Ríkisskattstjóri annast skatteftirlit samkvæmt lögum þessum og lögum um aðra skatta og gjöld sem honum er falin framkvæmd á. Skatteftirlit tekur til hvers konar könnunar á réttmæti skattskila fyrir og eftir álagningu opinberra gjalda og samtímaeftirlits með rekstraraðilum, svo og annarra aðgerða sem ætlað er að tryggja að skattaðilar standi skil á lögboðnum skýrslum og upplýsingum um skattstofn eða skattskyldu manna og lögaðila.

103. gr.

(1) Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal hafa með höndum rannsóknir samkvæmt lögum þessum og lögum um aðra skatta og gjöld sem á eru lögð af ríkisskattstjóra eða honum falin framkvæmd á.

(2) Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur að eigin frumkvæði eða eftir kæru hafið rannsókn á hverju því atriði er varðar skatta lagða á samkvæmt lögum þessum eða aðra skatta og gjöld, sbr. 1. mgr. þessarar greinar. Hann skal annast rannsóknir í málum sem til hans er vísað, sbr. 6. mgr. 96. gr.

(3) Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal við rannsókn samkvæmt þessari grein hafa aðgang að öllum framtölum og skýrslum í vörslu [ríkisskattstjóra]3) og getur hann krafist allra upplýsinga og gagna sem hann telur þörf á frá ríkisskattstjóra og aðilum sem um ræðir í 94. gr.” …..

“106. gr.

(1) Ráðherra hefur eftirlit með því að ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri ræki skyldur sínar. Hann hefur rétt til að fá til athugunar skattframtöl og gögn varðandi þau og krefja framangreinda aðila skýringa á öllu því er framkvæmd laga þessara varðar. ….”

Framangreint ber með sér að það er skattyfirvalda, ríkisskattstjóra og skattrannsóknastjóra, að ákveða með hvaða hætti skatteftirlit og skattrannsóknir fara fram. Ráðherra hefur enga aðkomu að þeim ákvörðunum skattyfirvalda en ber að hafa eftirlit með að þau ræki skyldur sínar. Í því felst varla það að hindra nauðsynlegt skatteftirliti.

Skattyfirvöld verða í þessu máli að taka ákvörðun um hvort hinna umræddu gagna verður aflað og með hvaða hætti. Fram hefur komið að þau telja þau geta haft mikla þýðingu fyrir skatteftirlit og skattframkvæmd. Að vísa þeirri ákvörðun til annarra rýrir traust á skattyfirvöldum og gefur tilefni til að draga sjálfstæði þeirra í efa.

Íslensk skattyfirvöld eru nú í sömu stöðu og skattyfirvöld  í Þýskalandi voru þegar þau keyptu upplýsingar um þýska skattborgara á árinu 2006. Það voru skattayfirvöld en ekki hin pólitísku stjórnvöld sem ákváðu kaupin. Efasemdum um lagalega heimildir skattyfirvalda til að nota þessi gögn við ákvöðrun skatta var rutt úr vegi með dómi þýska stjórnlagadómstólsins í nóvember 2010.

Það er eðlilegt að skattyfirvöld hafi áhyggjur af kostnaði við þessi kaup. Til hans þurfa þau að líta með tilliti til hugsanlegra tekna af endurákvörðun skatta. Séu þær meiri en kostnaðurinn ættu kaupin ekki að vera áhorfsmál. En þau þurfa einnig að velta fyrir sér afleiðingunum af því að kaupa gögnin ekki og gera upp við sig hvaða skilaboð þau senda skattsvikurum og heiðarlegum skattborgurum með því.

Skattyfirvöld þurfa að endurskoða forgangsröðun í þeim tilgangi að láta kaupin koma í stað annarra verkefna sem þykja síður áríðandi. Reynist ekki mögulegt að fresta neinu hljóta þau að leita til yfirvalda um auknar fjárheimildir svo að þau geti sinnt verkefnum sínum. Aðkoma fjármálaráðherra eða annarra pólitískra stjórnvalda að þessu máli á ekki að vera á neinum öðrum grundvelli en þeim að tryggja skattyfirvöldum nægilegt fé til að sinna verkefnum sem þeim er falið lögum samkvæmt.

Fordæmi eru fyrir veitingu sérstakra fjárheimilda vegna skattrannsókna þegar mikið þótti liggja við. Í þessu máli ætti það að vera létt ákvörðun þar sem það er fjárhagslegra hagkvæmara að stuðla að réttri skattlagningu en að gefa skattsvikurum aflausnarbréf.

Það er ekki verkefni pólitískra yfirvalda að ákveða hvaða skattrannsóknir eru stundaðar og hverjar ekki.

Latest posts by Indriði Þorláksson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,315