Hvað með hundinn?
Það er mikið sem þessi kosningabarátta er að verða leiðinleg.
Einhvern veginn finnst mér umræðan vera farin að skrapa botninn þegar frambjóðendur eru í alvöru farnir að tala um að afnema stjórnarskrárbundin réttindi minnihlutahópa, jafnvel í nafni lýðræðis.
Fólk sem ég tek mark á og hefur verið að fást við stjórnmál lengur en ég segir mér að sveitarstjórnarmálin séu miklu skemmtilegri en landsmálin. Þar er nándin við fólkið meiri, auðveldara að hafa áhrif og hægt að gera breytingar mun hraðar en með lögum sem svo kannski taka ekki einu sinni gildi eða enginn fer eftir!
Nú ættum við öll að vera að ræða hvernig við viljum hafa samfélagið okkar næstu árin. Hvernig viljum við hafa skóla barnanna okkar, leikskólana, hvað þarf að bæta, hvað er fínt og hvað er afleitt? Viljum við virkilega greiða aðeins minna útsvar ef það þýðir að unga parið með börnin þrjú í næstu íbúð þarf að greiða meira en það getur fyrir leikskólaplássið, dagvistina og skólamatinn? Viljum við hraðahindrun í götuna okkar? Og hvernig gengur að sleppa bílnum og hjóla eða taka strætó? Verður einhver rólóvöllur opinn í sumar?
Eitt af því sem skiptir mig máli í mínu sveitarfélagi er hvernig búið er að hundum og hundaeigendum. Ég hef haldið hunda í Kópavogi meira og minna í 25 ár. Alltaf haft þá skráða eins og lög og reglur gera ráð fyrir og borgað stórfé í leyfisgjald til bæjarins. Er alltaf með poka í vasanum og eftirlitsyfirvöld hafa ekki þurft að hafa fyrir mér og mínum voffum. Útgjöldin hafa öll verið mín megin.
Í Kópavogi eru frábærir stígar og stór græn svæði þar sem gott er að ganga með hunda í taumi. En það eru engin tilgreind svæði í bænum þar sem hafa má hunda lausa, þar sem þeir fá að hlaupa um án þess að vera í taumi, hnusað og leikið sér eins og þeir hafa þörf fyrir. Samt eru mörg svæði hér í nágrenninu sem gætu hentað sem hundasvæði en þau eru frátekin fyrir ýmislegt annað og kannski notuð einu sinni á ári. Þess vegna þurfa hundaeigendur í Kópavogi annað hvort að stunda borgaralega óhlýðni og leyfa hundunum að vera lausir þar sem það truflar engann en eiga það þá jafnframt á hættu að vera gómaðir og klagaðir eða eiga bíl svo hægt sé að keyra á hundasvæði í nágrannasveitarfélögunum eða út fyrir þéttbýli.
Þetta er eitt þeirra atriða sem sveitarstjórnarmál eiga að snúast um og eitt af því sem skiptir mig persónulega máli.
Kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum eru fáir og þótt þeir séu allir með eyru eru þeir misduglegir að nota þau. Íbúarnir sjálfir vita best hvað það er sem þarf að bæta. Því ætla ég að kjósa þann flokk sem ætlar að berjast fyrir íbúalýðræði í bænum mínum, Dögun og umbótasinna. Þá get ég sjálf krafist þess að tekið sé tillit til okkar Loka.
- Baráttan um Ísland - 27/10/2017
- Hvaða máli skiptir ný stjórnarskrá? - 23/10/2017
- Forsetinn veitir undanþágur frá lögum … - 20/10/2017