trusted online casino malaysia
Jón Knútur Ásmundsson 03/11/2014

Hugsað upphátt um Stöðvarfjörð

StöðvarfjörðurÞað er stutt síðan ég bjó í bæ þar sem allt var að „fara til helvítis“. Meira að segja góða veðrið var farið suður (sumsé: til helvítis). Að vísu var næg vinna í Neskaupstað rétt fyrir síðustu aldarmót en það breytti því ekki að fólki fækkaði. Hægt og afar bítandi.

Þú getur ekki útskýrt móralinn á stöðum þar sem fólki fækkar fyrir fólki á suðvesturhorni landsins. Því miður. Það er einfaldlega ekki hægt. Ég held að þetta sé eitthvað sem þú þarft að upplifa svo hægt sé að ræða þetta við þig af einhverju skynsamlegu viti. Svona eins og þú talar ekki um sjómennsku við ósiglda menn eins og mig. Ég myndi bara stara á þig skilningssljóum augum og kinka kolli. Stundum á réttum stöðum í samtalinu – ef samtal skyldi kalla – en stundum á stöðum þar sem það meikar engan sens.

Fólkið sem hefur ekki upplifað svona ástand er sama fólkið og segir þér að tína fjallagrös þegar allt virðist í steik.

Djöfull er þetta lið firrt, hugsar maður.

Undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði maður barist gegn uppbyggingu stóriðju á Reyðarfirði og ég get sagt það núna, þessum árum síðar, að þetta er og verður sennilega skítsófrenískasta tímabil ævi minnar. Mínar vinstri rætur liggja ansi djúpt og það þýðir ýmislegt skal ég segja ykkur. Ég tortryggi t.d. stórfyrirtæki og ég tortryggi patríótisma (eins og t.d. þessa einstaklega spes þjóðrembu sem Austfirðingar fundu upp í Eyjabakkadeilunni).

En samt gat maður ekki annað en stutt þessar framkvæmdir. Afsakið, best að axla ábyrgð og segja þetta vafningslaust: En samt gat ÉG ekki annað en stutt þessar framkvæmdir.

Ég reyndi að gera það „málefnalega“. Vildi t.d. ekki að Ómar Ragnarsson missti vinnuna hjá RÚV vegna skoðanna sinna sem þrátt fyrir allt lituðu bersýnilega þær fréttir sem hann flutti af málinu. Ég klappaði ekki við undirskriftina í íþróttahúsinu á Reyðarfirði, skaut ekki upp flugeldum eða dró fána Alcoa að hún þegar niðurstaðan um byggingu verksmiðjunnar lá fyrir.

Mig minnir að ég hafi ekki verið glaður. Mig minnir að ég hafi hugsað eitthvað á þessa leið:

„Ó, sjitt. Eins gott að þetta drasl virki.“

Ég vildi bara að fólk hætti að flytja suður og tilgangurinn helgaði meðalið.

Og síðan þá hef ég varið þessa ákvörðun með ráðum og dáð. Kannski var það eftir á að hyggja vegna samviskubits sem maður gerði það. Kannski var hugsunin þessi: Best að ganga alla leið og styðja þetta þar til yfir lýkur svo maður verði ekki sakaður um það af hægrimönnum að vera ósamkvæmur sjálfum sér.

Nokkurn veginn klemma landsbyggðarkratans í hnotskurn frá árinu 1999.

Á þessari bloggsíðu má örugglega finna stuðningsyfirlýsingar útum allt fletti maður í möppum frá árunum 2003 til 2005. Ég nenni því ekki sjálfur. Mig langar ekki að lesa þær.

Sérstaklega núna. Á tímum þegar það á að fara flytja grunnskólabörn á milli bæjarkjarna í Fjarðabyggð vegna „loðnubrests“. Ferðalag barnanna verður um einn hættulegasta veg landsins. Á hverjum virkum degi. Allan veturinn.

Maður hugsar:

Til hvers var barist þegar grunnþjónusta í álbænum Fjarðabyggð er skert vegna loðnubrests? Hvers vegna voru gljúfrin upp á hálendinu sprengd í tætlur ef það var ekki til bæta mannlífið m.a. á Stöðvarfirði?

Skoðum fleira:

Til hvers er maður stoltur af „lókal“ stórfyrirtækjum eins og Síldarvinnslunni og sættir sig við það þegjandi og hljóðalaust að jafnaldrar manns á sjónum séu með a.m.k. fimmfalt grunnskólakennarakaup?

Hingað til hefur það verið vegna þess að maður trúir því að þetta sé „for the greater good“.

Ef stórfyrirtækin hafa það gott þá hafa allir það gott. Ikke?

En þetta er sennilega bara kjaftæði er það ekki?

Komið mér endilega í skilning um annað. Endilega sýnið mér í næsta tekjublaði Austurgluggans að um leið og við skerðum þjónustu við börn á Stöðvarfirði taki milljónerar bæjarins á sig myndarlega launaskerðingu.

Það væri stórmannlegt er það ekki? Menn þyrftu kannski að skipta Landcruisernum út fyrir Skoda Octaviu og fara til Flórida með fjölskylduna ef til vill bara annað hvert ár. Vissulega fórn en við erum jú að tala um grunnskólabörn.

Fólki fækkar enn á Stöðvarfirði. Ég man enn hvernig tilfinning það var þegar enginn virtist vilja búa í bænum manns. Og hvað það er niðurlægjandi þegar „kerfið“ skrúfar fyrir opinbera þjónustu þegar allt virðist í steik. Kallast að sparka í liggjandi mann og ég man líka hvað það var helvíti sárt.

En jafnaldrar mínir í bæjarstjórn virðast vera búnir að gleyma því.

Hvenær ætli þeir bjóði Stöðfirðingum að tína fjallagrös?

Latest posts by Jón Knútur Ásmundsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,201