Hin launaða heimska
Það er fátt sem mér er jafn erfitt að umbera og launuð heimska. Það lá við að ég hrykki upp af standinum þegar ég las það á Vísi.is, núna klukkan þrjú þann 7. maí, að á fjórða tug alþingismanna hafi í hyggju að lækka veiðigjald um eitt þúsund og þrjú hundrað miljónir króna sem áður hafði verið reiknað með að rynni í ríkiskassann. Þetta er beinn afrakstur hinnar launuðu heimsku.
Í fréttinni er haft eftir Þorsteini Sæmundssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, að þetta sé gert til þess að gert til að mæta neikvæðum horfum í rekstri útgerðarinnar. „Ef við gerum þetta ekki er stórhætta á því að útgerðir leggist af … Ríkissjóður er ekki bólginn af peningum og þetta er ekki sársaukalaus aðgerð, en með þessu viljum við tryggja að greinin verði ekki fyrir miklum skaða.“
Í fréttinni kemur þetta líka fram: Hreinn hagnaður útgerðarinnar árið 2012 var rúmar 25 þúsund milljónir samkvæmt Hagstofu Íslands.
Ég endurrita:
Hreinn hagnaður útgerðarinnar árið 2012 var rúmar 25 þúsund milljónir samkvæmt Hagstofu Íslands.
Við tíðindi sem þessi játa ég hiklaust að ég þarf að taka á honum stóra mínum til þess að brúka ekki þau orð sem eiga rétt á sér en gætu flokkast sem meiðyrði. Hins vegar get ég ekki stillt mig um að fullyrða að ef gerð væri sú krafa til þingframbjóðenda, að þeir hefðu vott af ályktunarhæfni, lámarksþekkingu á þjóðfélagsmálum og allt að því grips vit, hefði þessi ríkisstjórn aldrei komist á koppinn. Stjórnin, braskarar í útgerð og þjófar í paradís eru að tortíma lýðræðinu. Og þeim mun takast það ef hin launaða heimska fær að vera við stjórnvölin öllu lengur.
- Bakteríur sem þrífast á lyfjunum - 18/03/2019
- Bráðum á hann hvergi heima - 08/08/2018
- Hin helga vík - 24/04/2017