Hið árlega LOL
Horfði á Gísla Martein. Og varð hugsi.
Við fengum þarna svona mini-áramótaskaup, snögga speglun af þjóðinni, með athugasemdum og álitsgjöf, og margvíslegri tjáningu gesta.
Niðurstaða? Já, kannske, en þetta þó fyrst.
Sigríður Rut Júlíusdóttir komst að allnokkrum kjarna máls í einu kommenti. Að það sé hægt að fara í sleik við skúnk og liggja svo á sturtubotninum í fósturstellingu fram að sveitarstjórnarkosningum, en losna samt ekki við lyktina. Hún var að tala um Vinstri græn.
Og Styrmir Gunnarsson sýndi á sér alveg nýja hlið. Hann sagði „pass“ þegar hann var spurður um LOL ársins (það þýðir ekki „hláturskast“, Gísli Marteinn. Hláturskast er meira svona ROFL. Með kveðju frá unga fólkinu.)
Styrmir sagðist aldrei hafa séð neitt spaugilegt við íslenzkt samfélag, en bætti svo við í svari við næstu spurningu að fáeinar setningar sem Ásmundur Einar Daðason lét út úr sér fyrir skömmu gætu hugsanlega valdið straumhvörfum í samfélaginu næstu áratugina.
Með þessu eina tilsvari útskýrðist í einni sviphendingu allt sem Styrmir Gunnarsson hefur skrifað í Moggann og heilu bækurnar frá því ég man eftir mér.
Styrmir er launfyndnasti maður landsins.
Í þessum forsmekk að áramótaskaupi kristallaðist sumt það heimskulegasta sem við vitum um okkur sjálf, en viljum ekki kannast við eða viðurkenna nema einu sinni á ári.
Það kjarnast í neyzluplebbanum sem keypti gíraffann í Costco á nokkur hundruð þúsund, en vill sennilega ekki borga fimm þúsund krónum meira í skatt á mánuði til að laga það sem þarf að laga.
Það sýndi sig líka óvænt í þeirri skoðun eins álitsgjafans, að endurkoma Mitsubishi Outlander hlyti að vera helztu tíðindi ársins.
Wtf? (Þú flettir þessu bara upp, kæri Gísli Marteinn.)
En sem betur fer kom hin hliðin sterkar fram, sú sem við viljum halda á lofti þegar við erum spurð. Jafnréttisbyltingin gegn kallpúngunum og gamla kerfinu, og sú sem kviknar alltaf þegar maður sér ungt og skapandi fólk geisla og njóta sín – plís hættiði að skattleggja bækurnar og tónlistina, hættiði að rukka fyrir nám og skólagögn. Hættið að vera fávitar.
En líka plís hættiði að halda fátæku fólki fátæku á meðan þið neitið að skattleggja þá sem sleppa alltaf, hættiði að skrökva og pukrast, og hættið að leigja heimilislausum herbergi á fimmtíuþúsundkall þar sem strætó gengur ekki – á meðan biskupinn leigir einbýlishús í miðbænum á níutíu þúsund og kvartar undan því.
Þetta horfum við upp á samantekið og samandregið einu sinni á ári, flissum soldið yfir vitleysunni og ruglinu, og höldum svo áfram þaðan sem frá var horfið.
Að kaupa drasl sem við þurfum ekki og kjósa þá sem kaupa það öðrum fremur.
Undarlega mikið í Garðabænum.
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019