Helmingurinn lygi
Þetta er klassík. Alger klassík.
Það er sumsé komið fram frumvarp um brennivín í búðir (fyrsti flutningsmaður Þorsteinn Víglundsson). Einu sinni enn. Það er ágætt, af því að það gefur tækifæri til að fara yfir fáein atriði í opinberri umræðu og um hlutverk löggjafans.
Ég nenni ekki núna að fara yfir rökin með málinu – staldra miklu fremur við gagnrökin. Þau eru einkum af tvennum toga, eins og fram hefur komið í viðbrögðum fólks í dag.
Annars vegar hin lýðheilsulegu. Þau eru flest um að með bættu aðgengi aukist neyzla á áfengi, og sérstaklega er þar horft til ungs fólks.
Ekki hvarflar að mér að draga þessi rök í efa, semsagt að neyzla aukist með fjölbreytilegra aðgengi. Tölur virðast sýna það svo ekki verði um villzt. En.
Þetta eru sömu rökin og voru notuð gegn bjórnum í gamla daga, og einhvern veginn hafa nú flestir blessunarlega komizt sæmilega óskaddaðir í gegnum þær hremmingar. Þó vitaskuld ekki allir, hjálpi okkur hamingjan.
En þetta með aðgengið vefst samt fyrir mér. Það er nefnilega nánast algert nú þegar. Eftir að vínbúðinni hefur verið lokað er flestum í lófa lagið að fara á næsta veitingastað og kaupa bjór eða rauðvín á margföldu verði. Og þegar veitingastaðir eru lokaðir er einfaldasta aðgerð í heimi að hafa samband við „skutlara“ á facebook og fá sent heim það áfengi sem hver kýs. Aftur á uppsprengdu verði.
Þeir sem hafa áhyggjur af því að unga fólkið drykki meira ef rauðvín fengist í Krónunni eru þess vegna á talsverðum villigötum. Allt það unga fólk (á suðvesturhorninu í það minnsta), sem svo kýs, getur pantað ómælt áfengi í gegnum facebook allan sólarhringinn. Það eru „góðir bílar“ á ferðinni alla nóttina.
Þeir eru að vísu sjaldnast með rauðvín, sýnist mér af stöðufærslum þeirra, en þar er sannarlega hvorki spurt um aldur né skilríki. Og lögreglunni mun aldrei takast að loka á þessi viðskipti. Skutlararnir hafa kannske eina e-pillu með í kaupbæti, til að treysta viðskiptasambandið neðan jarðar.
Fíkillinn finnur alltaf vímuefnið sitt og grípur til allra tiltækra ráða til þess. Það er hluti af eðli fíknarinnar. Þess vegna (meðal annars) eru þessi viðskipti á facebook til. Hrein efnahagsleg og félagsleg rök hníga þess vegna að því, að leyfa brennivín í búðum. Það gerir fátækari alkóhólistum lífið bærilegra. Þetta virkar kannske undarlega á okkur, en er samt satt.
Allt að einu falla aðgengisrökin um sjálf sig í ljósi aðstæðna. Aðgengið er nánast algert nú þegar. Bara sorrí með það.
Hin rökin eru undarleg og reyndar ekki boðleg, en eru þó óspart notuð. Þau eru að meiri hluti þjóðarinnar sé á móti brennivíni í búðir.
Ég veit varla hvar skal byrja með slíka endileysu. Sú staðreynd, að meiri hluti þjóðarinnar er á þessari eða hinni skoðuninni – gerir hún þá skoðun sjálfkrafa rétta? Eða er þar með tvímælalaust augsýnilegt að sú hin sama skoðun skuli vera opinber stefna og þess vegna sé kjánalegt eða tímasóun að bera fram mál, sem vísar í öndverða átt?
Þeir sem nota þessa röksemd þurfa varla að skoða hug sinn lengi til þess að sjá, á hvaða leið þeir eru með málflutning sinn. Að ekki sé talað um nauðsyn lýðræðislegrar umfjöllunar um umdeild mál eða þá stærsta samhengið – réttleysi meiri hlutans til að setja hegðun og vali minni hlutans íþyngjandi og ómálefnalegar skorður. Að við þessi gáfuðu og góðu bönnum hinum að gera eitthvað, af því að við treystum þeim ekki fyrir sjálfum sér.
Í brennivínsmálinu er þetta síðastnefnda ekki stórvægilegt, en rökin um að vinsældir skoðana geri þær réttar eru svo ævintýralega hættuleg að þeim á að sópa út af borðinu strax.
En svona hefur umræðan verið og verður eflaust enn. Algerlega klassísk.
Þá er freistandi að vitna í aðra klassík eftir Megas. „Helmingurinn lygi, en hitt allt fals og tál.“
Það er náttúrlega ofmælt. En samt ekki.
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019