Hatur sem viðskiptahugmynd
Það er ekki alltaf auðvelt að átta sig á hvað vakir fyrir stjórnmálamönnum þegar þeir slá fram fullyrðingum. Eru þær byggðar á raunverulegri sannfæringu eða er þeim eingöngu ætlað að falla í frjóan jarðveg og kaupa flokknum eða þeim sjálfum fylgi án þess að mikil alvara fylgi máli?
Í starfi mínu í stjórnmálum hef ég veitt því eftirtekt að sumum finnst allt í lagi að gefa afslátt í málaflokkum þar sem við þurfum alltaf að vera á tánum; mannréttindamálum. Þá virðist hugmyndin vera sú að fordómafullar og forpokaðar skoðanir séu „jaðarskoðanir“ sem muni hvort sem er aldrei ná fótfestu. Það sé allt í lagi að daðra við rasisma, homofóbíu, islamofóbíu eða láta sem maður taki ekki eftir slíku því þær skoðanir verði hvort sem er aldrei ofan á. Sagan er þó stútfull af dæmum um annað.
Mannréttindi eru algild. Meira að segja gamla stjórnarskráin okkar tryggir jafnræði borgaranna:
65. gr. [Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.]1)
Fólk sem skilur það ekki á ekkert erindi í stjórnmál.
Kannski var það bara tímaspursmál hvenær einhver stjórnmálaflokkur eða stjórnmálamenn ákváðu að nýta sér ótta sumra kjósenda við trú eða menningu sem er þeim framandi. Fyrir hrun mátti sjá tilhneigingar í þá átt en þær virtust gufa upp í kreppunni, allavega til að byrja með. Lítið fylgi elsta flokks landsins, einkum á höfuðborgarsvæðinu, virðist þó á síðustu misserum hafa vakið athygli áhrifamanna þar á að þarna úti væri kjósendahópur, dauðhræddur við útlendinga, sem enginn væri að tala til. Kannski 10-15%? Og kannski væri það bara tímaspursmál að einhver nýr flokkur yrði stofnaður sem gerði út á einmitt þetta og hrifsaði þetta fylgi til sín eins og gerst hefur í ýmsum nágrannaríkjum okkar. Og þá var kannski best að vera bara fyrri til.
Og svo er það bókhaldið: Daður Framsóknar- og flugvallarvina skilaði framboðinu tveimur borgarfulltrúum af fimmtán. Það er mikið á þeim stutta tíma sem kosningabaráttan stóð yfir. Þeir fiska sem róa. Trixið virkaði.
En hvað var í raun á bak við þetta? Kjörnir fulltrúar framboðsins hafa verið iðnir við að afsaka sig og reyna að þvo af sér rasistastimplana eftir kosningar. Umræðan snérist bara um skipulagsmál, þær meintu þetta ekkert og kjósendur sem væru andstæðingar múslima hefðu veðjað á rangan hest!
Kannski fáum við aldrei að vita hvaða alvara var á bak við hegðun og málflutning Sveinbjargar Birnu í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga. Mér finnst allt eins líklegt að þetta útspil og fleiri úr herbúðum Framsóknarflokksins hafi verið sett fram á markaðslegum forsendum frekar en að þeir aumu stjórnmálamenn sem það hafi gert óttist múslima og moskur í raun og veru. Skömm þeirra er þó ævarandi og fólk sem getur hugsað sér að taka þátt í slíku er ógeðfellt.
Þessar tilhneigingar Framsóknarmanna voru þó farnar að grassera töluvert fyrr eins og ég benti á í þessari grein, mörgum mánuðum áður en Sveinbjörg Birna steig fram með sinn hálfkæring. Og forystufólk Framsóknarflokksins hefur aldrei andhæft popúlískum málflutningi Sveinbjargar Birnu eða annarra framsóknarmanna í áhrifastöðum, jafnvel ekki þótt góðir og gegnir flokksmenn til áratuga hafi gert það og sagt sig úr flokknum með hurðaskellum. Gagnrýni er afgreidd sem loftárásir.
Það virðist hafa verið tekin meðvituð ákvörðun um að flokkurinn kannaði þessar lendur til að sjá hverju það skilaði í kjörkassana. Og markaður virðist því miður vera fyrir hendi.
Árið 2011 þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lagði fram þessa fyrirspurn kann það að hafa virst nokkuð hættulaus leikur að reyna fyrir sér á þessum slóðum. Athuga viðbrögðin. Kannski var það mál manna að svona jaðarskoðanir næðu hvort sem er aldrei meirihlutafylgi og því væri engu að tapa en allt að vinna. En staðan er nokkuð breytt núna. Hryðjuverkin sem nokkrir fávitar frömdu í París í síðustu viku munu að öllum líkindum ala á ótta fólks og valda því að enn fleiri dæmi venjulegt fólk út frá trú þeirra og uppruna.Venjulegt fólk er ekki hryðjuverkamenn og ber ekki ábyrgð á voðaverkum öfgamanna, óháð öllum trúarbrögðum.
Þetta er hættulegur leikur að eldi sem auðveldlega gæti brotist út og skaðað okkur öll varanlega.
Það er óhugnanlegt að sjá þingmann Sjálfstæðisflokksins, Ásmund Friðriksson, feta í fótspor hins stjórnarflokksins í þessum efnum en sem betur fer hefur frjálslynt, ungt fólk í flokknum hans fordæmt orð hans og krafist þess að hann biðjist afsökunar á ummælum sínum. Þegar þetta er ritað hefur hann þó ekki gert það né hafa samþingsmenn hans eða forysta flokksins tjáð sig um fáránlegar tillögur hans um að afnema mannréttindi minnihlutahóps á Íslandi. Hóps sem engum vanda hefur valdið. Og það finnst mér alvarlegt mál.
Vondir hlutir gerast þegar gott fólk gerir ekkert og ég er hrædd um að þeir séu þegar farnir að gerast. Stofnun íslandsdeildar Pegida samtakanna eru ekki góð tíðindi. Það er á ábyrgð okkar allra að svara rasískum stjórnmálamönnum sem ala á fordómum, ótta og hatri fullum hálsi og skapa hér samfélag þar sem öllum getur liðið vel og fjölbreytileikinn dafnar.
- Baráttan um Ísland - 27/10/2017
- Hvaða máli skiptir ný stjórnarskrá? - 23/10/2017
- Forsetinn veitir undanþágur frá lögum … - 20/10/2017