Hallgrímur Helgason og Eggert Stefánsson
Það er einsog venjulega þegar vinur minn Hallgrímur Helgason gefur út hugverk, eftir að blekið er þornað á blöðunum tekur hin ógurlega propagandamaskína við keflinu og hleypur með það útí móa – venjulega flestum til nokkurrar skemmtunar.
Eins er það nú, þegar hann ofl. hafa unnið leikgerð útfrá verkinu hans, Konan við 1000 gráður, þá fer þessi ógnarlegi markaðssetningarskriðdreki á stað með drunum og dynkjum, yfirgnæfir allt annað og nær til sín athyglinni svo að með ódæmum er.
Ekki efa eg að þetta nýja verk hans þarsem Guðrún S. Gísladóttir fer áreiðanlega frábærlega með sitt erfiða hlutverk, sé vel heppnað leikhúsverk. Það er hin hliðin á þessum peningi, að þetta efni er svo „heavy“, að eg efa að aðsókn að því verði veruleg. En það skiptir hann litlu máli. Hann hefur náð sínu fram – og það er Schram-fólkinu alveg nægjanlegt.
Eg þekkti Brynhildi Björnsdóttur Björnsson, sem átti „níu líf“ og var stórsjarmerandi kona þá, en hún átti erfitt í lífinu. Allskonar missir varð henni þungbær. Um allt þetta fjallar Hallgrímur í sögunni. Sagan er byggð á lífi þessarar rismiklu konu, en það er skáldverk og lýtur því ekki lögmálum heimilda, heldur skáldskapar. Það er skiljanlegt, að fólki Brynhildar þyki erfitt að lesa um örlög hennar.
En þau eru ekki að því. Þau eru að skoða fingraför Hallgríms á ævi hennar. Þessu má ekki rugla saman. En það gera nú margir. Jafn sárt er fyrir fólkið hennar að lesa um þessar þjáningar, – en þarna eru þær skáldskapur, ekki lífsreynsla.
Helga Kress, einhver skarpasti ritskýrandi okkar hefur þráfaldlega greint þennan mun og gert það nægilega skýrt. Samt er þessu ruglað aftur og aftur saman. Þetta er ekki leikrit um Brynhildi Björnsson, heldur um aðalpersónu leikrits eptir HH.
Það varð ekki þetta fjaðrafok þegar Halldór Laxness skrifaði Brekkukotsannál, þarsem persónan Garðar Hólm skríður uppá hlöðuloptið, þegar hann á að vera að frægja landið með söng. Það verk var heldur ekki um Eggert Stefánsson óperusöngvara, sem greinanlega er þó fyrirmynd Laxness að Garðari Hólm. Og það varð heldur ekkert fjaðrafok þegar sú bók kom út. Það var auðvitað líka vegna þess að hann var nýorðinn Stóri-Nóbel og nánast eins ósnertanlegur og kýrnar á Indlandi. Þa’ð varð ekkert írafár og vesen þá. En núna er teygjan strekkt alveg að slitnun.
Eggert var stórkostlegur listamaður og kostuleg fígúra, mikill vinur Laxness og alltaf við sumarmál sendust þeir á skeytum eða kveðjum. Nokkru eptir að Eggert var orðinn roskinn, – hafði fengið heilablóðfall, sem virkaði á mæli hans, ákváðu þeir að hittast og Laxness kemur á kaffihús að hitta vin sinn, sem var þar mættur ásamt háttsettum ítölskum menningarpáfa í Róm.
Laxness spurði vin sinn um heilsuna og ekki stóð á svarinu. „Það er allt í lagi, kæri vinur, en eg er kannski ekki alveg jafn brilljant og eg var.“ Enginn efaði þessi orð.
Þegar Laxness ritar um vini sína tekst honum oft frábæra vel upp og ekki sízt um Eggert Stefánsson. Greinin um hann í Skáldatíma er gæsahúðarstrekkjandi upplifun.
Eg kynntist Eggerti sem betur fer á æskudögum. Hann var, einsog Laxness lýsir honum líktog Ágústus keisari, tignarlegur í sinni auðmýkt, enda gnæfði hann yfir umhverfi sitt.
Eggert hélt ungur til tónlistarferils í Evrópu, náði opt, einsog Laxness greinir svo vel frá að vekja athygli „fyrir“ tónleikana, en fáir tóku eptir nöldrinu í blöðum daginn eptir, enda listamaðurinn þá kominn lengst burt í átt til næsta tónleikahalds.
Eg hitti Eggert nokkrum sinnum og þáði af honu elskulega hlýju og risnu. Eitt sinn hitti eg hann í miðbænum og hann bauð mér að koma með sér í stóran sal í húsi Helga Magnússonar járnsmiðs. Þar las hann yfir mér mikla þulu um alþjóðlega menningu og listir og gaf mér árituð eintök af bókum sínum, Lífið og eg.
Eggert Stefánsson gekk að eiga ítalska, sterkefnaða kaupmannsdóttur, hún fylgdi honum þegar honum þókti og var honum alltaf til reiðu utan þess tíma, sem hann brúkaði til ferils síns í hraðlestinni London-París-Róm.
Á efri árum voru þau mest saman og mikið á æskuheimili hennar í smábænum Schio nærri Feneyjum. Þar bjuggu þau þegar hann lézt um svipað leyti og nágranni hans ljóðskáldið Esra Pound í Rapallo hvarf einnig af þessum heimi. Ekki myndi Eggerti Stefánssyni hafa þótt lakara að verða skáldinu samferða.
- Hallgrímur Helgason og Eggert Stefánsson - 24/10/2014
- Ásta Sigurðardóttir og Kamp Knox - 01/10/2014
- Dauðaslys í fjölskyldu litlaskáldsins - 25/09/2014