Guðfaðirinn Guðni
Eitt sinni héldum við að Guðni Ágústsson væri seinheppinn sveitamaður sem vildi Ísland fyrir Íslendinga og konuna á bakvið eldavélina. En þar höfðum við rangt fyrir okkur. Því Guðni reyndist miklu klárari en við héldum og varð á endanum “darling of the nation”, ástkær skemmtikraftur og sjarmatröll, konungur eigin kjördæmis á Kanarí. Og lengi vel höfðum við þá mynd af manninum. “Léttur í lund” hét enda bókin hans. En einnig í þessu höfðum við rangt fyrir okkur, því nú birtist okkur glænýr Guðni: Mjólkurmafíósinn, guðfaðir kerfisins, brosandi grimmur og miskunnarlaus.
“Það er bullandi samkeppni í þessum bransa.” Svona talaði hann í liðinni viku, af ísmeygilega mafískri kaldhæðni, en fyrirtækið sem hann frontar er með 99% markaðshlutdeild. “Það er bullandi samkeppni og allir velkomnir í mjólkuriðnaðinn.” Marlon Brando hefði ekki getað orðað þetta betur, í sínu frægasta hlutverki.
Í einfeldni minni hélt ég eitt sinn að nýtt starf Guðna Ágústssonar, “framkvæmdastjóri afurðastöðva í mjólkuriðnaði”, ætti við öll fyrirtæki í þeim bransa. Líka Mjólku, líka Kú, líka Biobú, og líka Örnu, öll litlu fyrirtækin sem reyndu sig og reyna enn í samkeppni við risann MS. En það var auðvitað fjarri sanni. Auðvitað starfar Guðni ekki fyrir allar afurðastöðvar, heldur bara fyrir sínar, fyrir MS og KS og fyrirtækin sem tengjast þeim. Fyrir þá sem borga launin hans. Og talar samkvæmt því.
Stundum erum við nefnilega aðeins of auðtrúa og ómeðvituð. Líkt og þegar okkur bauðst allt í einu laktósafrí mjólk og gátum aftur farið að borða morgunkorn án ónota í maga. Það var fyrir ári síðan sem við uppgötvuðum þessa nýjung á markaði. Hún var reyndar ekki alltaf til í búðinni, en stundum til frá öðru fyrirtæki sem við þekktum ekki og heitir Arna. Við tókum bláu fernuna frá þeim ef sú gula fannst ekki en hugsuðum annars ekkert út í það frekar. Nú er sagan okkur ljós: Það var litla fyrirtækið, Arna í Bolungarvík, sem fékk þessa hugmynd: Að framleiða laktósafría mjólk, fyrir fólk með mjólkuróþol, vara sem ekki hafði áður verið fáanleg á íslenskum markaði. Hvað gerði mjólkurrisinn MS þá? Hann hóf sjálfur að framleiða sömu vöru, og varð jafnvel fyrri til að koma henni á markað! Hann gat ekki unnt þessum litla mjólkursprota að eiga þá sérstöðu á markaði. Líkt og mafíósi sagði risinn með hásri röddu og lúmsku glotti: Það eru allir velkomnir í mjólkuriðnaðinn! En hvarf síðan í símann og fyrirskipaði framleiðslu á sömu vöru, til að reyna að drepa sprotann í fæðingu.
En það hefur ekki alveg tekist enn. Enn má kaupa spillingarfría mjólk frá Bolungarvík í betri búðum landsins. Hún fer enn betur í maga en laktósafría mjólkin frá MS.
Kastjós mánudagsins rúllaði yfir samskonar sögur sem hafa endurtekið sig allt frá því að Thor Jensen skoraði Framsókn á hólm fyrir næstum því hundrað árum. Hið kommúníska einokunarkerfi flokksins hefur staðið af sér allar slíkar tilraunir, þrátt fyrir hrun SÍS og Íslands, Búsáhaldabyltingu og almennar þjóðfélagsbreytingar, frá kreppu til kanasjónvarps til iPads. Landbúnaðarkerfið er lífseigasti fastinn í samfélagi okkar og rammasta lögmálið í íslenskri pólitík er þetta: Á stóli landbúnaðarráðherra skal ævinlega sitja forhertur karldurgur með framsóknarsál, ótölvuvæddur bindisberi sem ekkert getur og ekkert gerir, en er geymdur inní þeim skáp sem ráðuneytið er og kallaður þaðan út þrisvar á ári til að klippa á borða íklæddur hæfilega kauðslegum jakkafötum með nafnspjaldi sem á stendur: Hr. Enginn Einskisson.Það er einmitt af þessum sökum sem maður eins og Ólafur Friðriksson hefur áratugum saman getað setið á vegum þessa ráðuneytis í öllum nefndum sem tengjast mjólkuriðnaðinum, samtímis því að sitja í S-hópnum, KS-hópnum og MS-hópnum. Af því að Enginn er og hefur alltaf verið landbúnaðarráðherra.
Jafnvel fyrstu hreinu vinstristjórn sögunnar tókst ekki að brjóta þessa reglu, því þá gengdu embættinu tveir ósvíkjandi sveitamenn úr VG. Laumuframsóknarflokkurinn sá greiddi enda atkvæði gegn afnámi á undanþágu MS frá samkeppnislögum síðast þegar sú tillaga var borin fram. Jafnvel ungt, nútímalegt og lítt karlað fólk eins og Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Auður Lilja Erlingsdóttir gengu þar í kerfisbjörgin með hinum lurunum.
Framsókn er víða, svo vitnað sé í Engla alheimsins.
Það er hinsvegar alþjóðlegt lögmál að sá sem býr við einokunaraðstöðu mun alltaf misnota hana, mun alltaf nota sér hana til hins ýtrasta. Aðstaðan hreinlega breytir mönnum í mafíósa og lætur þá tala eins og harðsvíruðustu guðfeður, jafnvel svona: “Ólafur í Mjólku hefur ekki verið drepinn.” Þessi ótrúlegu orð mælti guðfaðirinn Guðni á Bylgjunni og var víst að hrósa sér og sínum fyrir tillitssemina. Semsagt: Það var gert allt við þann mann nema að drepa hann. Í sjónvarpsþætti gaspraði Guðni síðan um gamlar skuldir Mjólku, og vitnaði í einkasamtöl sín við bankastjóra um fjárreiður einkafyrirtækis, og gerði svo lítið úr nýju fyrirtæki hins ódrepandi Ólafs, sagði hann tala “út úr Kú”.
Þessi eru viðbrögðin þegar samstæðurisinn hefur verið sektaður og gerður uppvís að markaðsmisnotkun. Engin auðmýkt, engin lærdómur, hvað þá kurteisi, bara haldið áfram að berja á minni máttar.
Guð hjálpi þeim sem reyna sig í samkeppni við þetta kerfi, hugsaði fólkið sem heima sat. Mannorði hans er rústað um leið og tækifæri gefst. Hinn grimmi guðfaðir er sendur fram á vígvöllinn, eftir að prúðleitur og gustlítill forstjórinn hafði fyrst verið settur í Kastljós til að sitja þar stífur og fullæfður af neyðarteymi almannatengla – “aldrei lyfta höndunum, aldrei æsa sig, aldrei segja nafn spyrjandans, og svona já, láttu sjást aðeins betur í ermahnappana…”
Sú litlausa og lygum prýdda framkoma leiddi strax hugann að amatörismanum sem forstjórinn ríkir yfir, hinu almenna getuleysi þessa gerilsneydda fyrirtækis sem fengið hefur 100 ár til að æfa sig í framleiðslu mjólkurafurða með þeim ágæta árangri að hérlendis er nú hvorki hægt að fá keypt almennilegan ost né almennilegt jógúrt. Af þeim óteljandi ostategundum sem MS framleiðir er aðeins einn sem kemst hænufet í átt að einhverskonar bragði, í átt að Gruyere eða Emmentaler, og það er Tindur. Allir hinir bragðast nákvæmlega eins. Og langi menn í gamla góða skyrið sem þeir muna úr bernsku er besta leiðin til þess núorðið að kaupa “grískt jógúrt”! Fyrirtæki Framsóknar, þessa mikla Íslands- og landsbyggðarvinar, hefur jafnvel glutrað niður sjálfri skyr-uppskriftinni, stolti íslenskrar matarhefðar, eins og Gunnar Smári Egilsson benti á í mögnuðum matarpistli fyrir margt löngu.
“Þegar við lítum yfir hvernig Mjólkursamsalan hefur farið með íslenska mjólkurhefð getum við þakkað fyrir að fyrirtækinu væri ekki treyst fyrir útgáfu fornritanna. Þau væru þá öll komin á teiknimyndaform,” skrifaði Gunnar Smári í Fréttatímann, ásamt Þóri Bergssyni, 2. september 2011.
Sem betur fer er nú hægt að fá lífrænt skyr, sem maður heldur að sé eins og íslenskt skyr á að vera, frá fyrirtækinu Biobú, sem guðfaðirinn uppnefndi einmitt í einum þættinum: “lítið sætt mjólkurbú í Reykjavík”. Yfirlætið lak af hverjum samhljóða. Það rímar við orðin sem hann, þá verandi einn af þeim tuttugu tilgangslausu landbúnaðarráðherrum sem Íslandssagan geymir, lét falla við Ólaf í Mjólku er hann hóf sinn rekstur: “Þú ert með fallegt lítið blóm í höndunum. Farðu vel með það.” (Og láttu það ekki vaxa um of, því þá drepum við það. Blómið sko, en þú sleppur kannski sjálfur.)
Nýlegan úrskurð Samkeppnisstofnunar kallaði guðfaðirinn “umferðalagabrot” í öllum þeim þáttum sem hann var sendur í. Hann hefði vart getað valið ósvífnari samlíkingu. Þegar risinn stígur á “fallega litla blómið”, sem er eina “ógn” hans á öllum akrinum, öllum markaðnum, skref sem verður til þess að blómið deyr, þá er það eins langt frá því að vera umferðarlagabrot og hugsast getur. Markaðslegt morð væri nærri lagi. Og síðan fylgdi guðföðurlegt sjálfshólið (ó, vér góðmennin!) er Guðni sagði um Ólaf og Mjólku: “Svo kemur Kaupfélag Skagfirðinga og bjargar honum. Og hann sleppur við sitt eigið gjaldþrot!” Fyrst knésetjum við hann, svo björgum við honum, og þá á hann að koma skríðandi og kyssa okkur á tærnar. Starfsaðferðir mafíunnar eru allstaðar eins, nema hvað hérlendis eru menn kannski ekki drepnir.
PS. Þegar ég hafði ýtt á send og greinin flaug til DV ók ég heim á leið en kom við í 10-11 í Lágmúla til að kippa með mér einni fernu frá Örnu, en greip í tómt: Við blasti tíu metra langur hillukælir hlaðinn af vörum MS eingöngu. Markaðshlutdeild Mjólkurmafíunnar er víst sumstaðar 100%.
(grein upphaflega birt í Helgar-DV 10.okt)
- Guðfaðirinn Guðni - 12/10/2014
- Bókaþjóð með búrastjórn? - 16/09/2014
- Siðareglur ríkisstjórnarinnar - 08/08/2014