trusted online casino malaysia
Gestastofa 27/03/2015

Frelsi og mannfórnir

Frelsi franska byltinginEftir Kristin Hrafnsson

Í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna segir að rétturinn til lífs, frelsis og sóknar eftir lífshamingju sé helgur. Ég hef alltaf verið hrifinn af þessu plaggi, ekki síst vegna þess að í fáum öðrum mikilvægum pólitískum skjölum sögunnar er talað um hamingjuna. Helgi lífs og frelsis er svo auðvitað grunnstef í okkar pólitísku hugmyndafræði.

En fátt er algilt og ef alvarlega er sótt að frelsinu, telja flestir það réttlætanlegt að fórna mannslífum í varnarbaráttu.  Það þykir jafnvel hetjuskapur að falla í baráttu gegn ófrelsinu.

Frelsið skerðum við nú samt, sjálfviljug, á forsendum heilbrigðrar skynsemi. Við teljum í lagi að banna almennan vopnaburð enda myndi hann leiða til fjölgunar manndrápa. Við viljum sem sagt ekki færa þær mannfórnir til að verja rétt manna til að ganga um miðbæinn með hlaðinn byssuhólk. Við sættum okkur við það að skerða frelsi reykingarmanna til að reykja á veitingastöðum til að verja þá sem ekki reykja. Við viljum ekki fórna heilsu þeirra fyrir frelsi reykingarmanna. Það var nokkuð möglað þegar þetta bann var sett á, en fáir myndu kjósa að fara til baka.

Það var einnig möglað töluvert þegar frelsi manna til að aka án bílbelta var skert, en sú aðgerð hefur bjargað mannslífum og minnkað örkuml vegna umferðarslysa. Ætli nokkur vilji afnema það núna, í nafni frelsis?

En nú er gunnfáni frelsisins hafinn á loft í baráttunni fyrir frelsi manna til að kaupa áfengi í matvöruverslunum. Þetta snertir frjálslyndisstrenginn í brjóstum margra.  Ef fánaberi hugmyndarinnar, þingmaðurinn Vilhjálmur Árnason, væri mælskur gæti hann spilað á þennan streng með orðflúri úr þjóðernisbólgnum menningararfi; vísað í skelfingu dönsku einokunarverslunarinnar þar sem maðkað mjöl var skammtað langsoltnum lýðnum yfir búðarborðið. Hann gæti bent út um glugga þinghússins á bronsaðan Jón Sigurðsson og spurt ábúðarfullur: „Til hvers var barist!?“ Að vísu var fátt um mannfórnir í þeim slag þó að vissulega hafi  frelsishetjurnar  lagt sig í talsverða heilsufarslega hættu þar sem þeir tæmdu úr ótal krúsum á reykfylltum ölstofum Kaupmannahafnar. Já frelsið er gott.

En svo er það þetta með mannfórnirnar.

Í Finnlandi þurftu menn að breyta sölufyrirkomulagi og verðlagningu á áfengi, að hluta vegna inngöngu í ESB, og dauðsföllum vegna skorpulifrar fjölgaði verulega. Það er auðvitað miður. Í Svíþjóð stóðu menn fast á því að halda sinni ríkiseinkasölu, þrátt fyrir inngöngu í ESB, og lögðu einfallt mat á það hvað það myndi þýða að hverfa frá henni og leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum.  Verðið fyrir þá breytingu var talin drykkjuaukning um 37,4% og mannfallið; 2000 dauðsföll á ári og 20.000 líkamsárásir

Ef til vill erum við líkari Bretum en Svíum og Finnum. Í Bretlandi hafa ótímabær dauðsföll vegna lifrarbilunar (aðallega skorpulifur) fimmfaldast hjá fólki á vinnualdri á síðustu 40 árum. Þetta er nú þriðja algengasta dánarorsök þar í landi.

Dr. David Nutt hélt erindi í Háskóla Íslands í haust en hann var vímuvarnarráðgjafi Tony Blair eða allt þar til hann sýndi, með eigin rannsóknum, að áfengi væri skaðlegasta vímuefnið – skaðlegra en heróín. Þá var hann rekinn.

Í erindi sínu benti Nutt á stigvaxandi áfengisneyslu síðustu áratuga í Bretlandi og sýndi hvernig mesta aukningin varð þegar sala áfengis var leyfð í stórmörkuðum. Meðfram jókst markaðssetning á blönduðum drykkjum, sem aðallega beindist að ungu fólki, rótsterkum bjór og billegum brenndum drykkjum. Breskar matvörukeðjur vita að það er gott að laða kúnna í búðina með ódýru alkóhóli og voru því farnar að selja það allt að 12% undir kostnaðarverði.  Fátt laðar betur að en ódýrt bús.

Bresk stjórnvöld brugðust við í fyrra með að gera kröfu um lágmarksverð á áfengi, þrátt fyrir múður frá framleiðendum og seljendum sem skilja ekkert í þessari aðför Camerons og breska Íhaldsflokksins að frelsinu. Þá var nú betra að hafa Blair sem er fjarri góðu gamni, upptekinn við að koma á friði í Mið-Austurlöndum, með árangri sem við getum lesið um daglega í fréttum.

Og heppnir eru íslenskir hagsmunaaðilar að hafa Vilhjálm Árnason, ekki síst þessar þrjár keðjur matvöruverslunar sem stjórna 90% af þeim markaði og fá glýju í augun við tilhugsunina um að geta aukið veltu sína um 30-40 milljarða króna. Ef til vill meira, ef söluaukningin yrði eitthvað í líkingu við það sem Svíar spáðu hjá sér. Og ef við lögum mannfallsspána þeirra að íslenskum mannfjölda, þýðir frumvarpið hans Vilhjálms aukningu um 67 dauðsföll og 667 líkamsárásir, á ári. Vitaskuld kann að vera að Íslendingar standi samt framar öðrum þjóðum á þessu sviði og þessar hrakspár eigi ekki við um okkur. Við séum svo spes. Vilja menn prófa?

Það er farið að flökra að mér að þetta mál snúist ef til vill ekkert um frelsi almúgans. Þetta sé ef til vill þema þeirrar stefnu sem ætti nú að teljast nokkuð fullreynd á Íslandi; að afnema ríkisrekstur í nafni frelsisins til þess að færa yfir í frelsi einkavina til að skara eld að eigin köku? Erum við hér að berjast fyrir frelsi Hagkaups, Bónuss og Krónunnar? Vilja menn færa mannfórnir í þeirri frelsisbaráttu?

Það er erfitt að ætla Vilhjálmi Árnasyni það vera í raun ekkert að hugsa um frelsi einstaklingsins heldur frelsi stórmarkaða til að græða. Nú, eða ætla honum greindarskort. Jafnvel þó að dr. Kári Stefánsson hafi haldið því fram að „Guð hafi ekki verið örlátur þegar hann bjó þingmanninn til“ sannar það ekkert. Nema að dr. Kári Stefánsson er dóni. Olræt?

Nú þegar 28 umsagnir hafa borist Alþingi vegna áfengislagafrumvarpsins (skv. netinu) er fróðlegt að sjá að nánast allir mæla gegn því, með þremur undantekningum; Samtök Iðnaðarins, Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu styðja það, með hálfum huga samt. Þessir þrír aðilar telja að það gangi allt of skammt; vilja meira frelsi, sum sé frelsi til að auglýsa áfengið.

Nú skal viðurkennast að frjálslyndisstrengurinn í mínu brjósti hefur aðeins slaknað við skoðun málsins. Ef þingmanninum er virkilega annt um frelsi einstaklingsins, hvers vegna er ekki farið í fulla lögleiðingu á því að brugga og brenni sína drykki, heima í bílskúr eða búa til berjavín úr innlendu hráefni, nú og selja afurðirnar á frjálsum markaði? Þá yrði líflegt í Kolaportinu.

En það er hægt að staðreyna raunverulega frelsisást þingmannsins með einföldu prófi: Er þingmaðurinn reiðubúinn til að snýta frá sér frumvarpi um lögleiðingu kannabisefna? Þar er nú aldeilis efni fyrir frelsiselskandi þingmann sem hann getur, af mælsku, talað fyrir í sölum Alþingis. Ef til vill ekki vitnað mikið í Jón Sigurðsson en allavega getur hann gerst skáldlegur og sagt ábúðarfullur: „Herra forseti. Jóna gengur nú logandi manna á milli um heiminn; jóna frelsisins!“ Getur síðan bent suður til Portúgals og vestur til Colorado, þar sem slík lögleiðing hefur verið framkvæmd, með góðum árangri.

Frjálslyndisstrengurinn í mínu brjósti myndi strekkjast ef hann væri til í þetta. Endilega spyrjið Vilhjálm Árnason að þessu og líka meðflutningsmenn hans að áfengisfrumvarpinu, en þau eru: Björt Ólafsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Willum Þór Þórsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Guðlaugur Þór þórðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Birgir Ármannsson, Pétur H. Blöndal, Jón Gunnarsson, Brynhildur S. Björnsdóttir, Karl Garðarsson og Haraldur Einarsson.

Ef þau segja öll já, þá fer ég að trúa því að þau séu virkilega að hugsa um frelsi einstaklingsins en ekki frelsi Hagkaups, Bónuss og Krónunnar. Ég er ekkert endilega viss um að Læknafélagið, landlæknir, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag lýðheilsufræðinga og Félagsráðgjafafélag Íslands styðji frumvarpið, en get þó fullyrt að þessi félög hafa ekki sömu skotfæri gegn því og áfengislagafrumvarpinu. Þau munu ekki finna tölur um hrikalegan skaða fyrir samfélagið. Ekki séns að þau geti veifað tölum um 67 dauðsföll og 667 líkamsárásir.

Á meðan ég bíð eftir útkomu úr frelsisprófi Alþingis ætla ég líka að reyna að bægja frá mér þeirri hugsun að þetta áfengislagafrumvarp sé bara falskur tónn úr fiðlu Nerós, til að dreifa athyglinni frá raunverulegum vandamálum samfélagsins. Meðal annars til þess að fá mig til að eyða tíma í að skrifa svona langlokur og ykkur til að lesa þær.

Höfundur er blaðamaður

Flokkun : Efst á baugi, Pistlar
1,422