Forsetinn veitir undanþágur frá lögum …
Í dag er 20. október 2017. Fimm ár eru liðin síðan haldin var þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarp stjórnlagaráðs þar sem mikill meirihluti kjósenda samþykkti að vinna stjórnlagaráðs yrði grunnur að nýjum stjórnlögum. Það er óþarfi að rekja ferlið, það hefur vakið heimsathygli enda þátttaka almennings tryggð á öllum stigum máls.
Engu að síður hefur lítið gerst í málinu síðan 2013. Haft er eftir gömlum pólitíkus að stjórnmál snúist stundum um að fresta málum nægilega lengi þangað til að þau skipti ekki lengur máli. Ég held að það hafi verið planið hjá andstæðingum stjórnarskrárbreytinga. Þeir treystu á að um leið og meiri ró kæmist yfir samfélagið félli krafan um nýja stjórnarskrá niður. Við færum aftur að græða á daginn og grilla á kvöldin.
Sú er ekki raunin. Efnahagsástandið hefur reyndað batnað og fleiri græða því á daginn en fyrr en stjórnmálin eru enn í tómu rugli og krafan um nýja stjórnarskrá hefur ekki gufað upp, þvert á móti. Í þessu máli vinnur tíminn með okkur sem viljum breytingar.
Það eru nefnilega sífellt að koma upp mál sem væru öðruvísi eða hefðu jafnvel aldrei komið upp ef nýja stjórnarskráin hefði tekið gildi.
Við sem viljum breytingar erum oft spurð hvers vegna og þurfum að rökstyðja það. Þeir sem engu vilja breyta þurfa hins vegar sjaldnast að rökstyðja íhaldssemi sína. Það er undarlegt enda er núgildandi stjórnarskrá ekki einungis gamaldags og úrelt heldur að mörgu leyti skrýtið og stórgallað plagg. Nokkrar undarlegar staðreyndir um núgildandi stjórnarskrá:
- Þrátt fyrir að eiga að lýsa og halda utan um stjórnskipan landsins er hvergi minnst á ríkisstjórn í stjórnarskránni.
- Það er heldur ekki minnst á hæstarétt.
- Í grunninn er gamla stjórnarskráin sú sem danski kóngurinn gaf okkur í afmælisgjöf árið 1874. Hún er samin af dönskum embættismönnum. Körlum.
- Þótt breytingar hafi verið gerðar í gegnum tíðina kom sennilega engin kona að þeim fyrr en eftir 1990 þegar deildir Alþingis voru sameinaðar og svo þegar mannréttindakaflinn var uppfærður nokkrum árum síðar. Allt hitt er kvenmannslaust.
- Hlutverk forseta er svo óskýrt að hægt er að toga það og teygja í allar áttir. Síðustu kosningar til embættis forseta hafa að mestu farið í að frambjóðendur útlisti sinn skilning á því.
- Í stjórnarskránni er forsetinn einskonar kóngur. Hann er sagður gera allskonar og ýmislegt, t.d. gera samninga við erlend ríki og flytja embættismenn úr einu embætti í annað.
- Í 13. gr. segir: „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.“ Flestallt sem forsetinn er sagður gera „lætur hann“ sem sagt ráðherra gera. En flest þetta gera ráðherrarnir nú samt bara án afskipta forsetans, eða sleppa einfaldlega að gera. Forsetinn gerir þó samt alveg sumt sjálfur. Náðuð þið þessu?
- Samkvæmt 46. gr. skera alþingismenn sjálfur úr um hvort þeir séu löglega kosnir.
- Ein fáránlegasta greinin er sú 30. „Forsetinn veitir, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.“
Væri ekki nær að spyrja andstæðinga nýju stjórnarskrárinnar hvers vegna í ósköpunum þeir vilja standa vörð um jafnundarleg ákvæði? Er æskilegt að einn maður, þótt hann sé þjóðkjörinn, geti veitt undanþágur frá lögum?
Þann 26. september 1915 var styttan af Kristjáni IX afhjúpuð á Stjórnarráðsblettinum. Eins og sjá má af myndinni hér að ofan var þetta nokkuð vandræðaleg uppákoma. Íslendingar vildu nefnilega alls ekki þessa stjórnarskrá. Þeir vildu sína eigin.
Árið 1851 hafði verið haldið þjóðfundur eða stjórnlagaþing í Reykjavík. Þinginu var ætlað að fjalla um frumvarp konungs um stöðu Íslands í „fyrirkomulagi ríksins“. Nokkrum árum áður, árið 1848 tók danska stjórnarskráin nefnilega gildi en þá varð Danmörk að þingbundnu konungsríki. Íslensku þingmennirnir sögðu álit sitt á frumvarpi konungs og fannst það passa illa og ekki eiga við hér á landi. Eðlilega. Í nefndaráliti þeirra sagði (og sennilega hefur Jón Sigurðsson haldið þarna á fjaðurpenna):
„.. en slík óvissa er öldungis óhæfileg í hverju lagaboði sem er, hvort það er heldur skoðað í tilliti til skyldna eða réttinda, en þó allra óviðurkvæmilegust í grundvallarlögum, sem af öllum mannlegum lögum eru hin mest umvarðandi af því þau eiga að tryggja hin æðstu réttindi manna, og sem þess vegna þurfa að geta fest rætur hjá þjóðinni, og áunnið ást og virðingu hennar …“
Fór það svo að nefndin tefldi fram sínu eigin stjórnlagafrumvarpi. Barátta okkar fyrir nýrri stjórnarskrá er nefnilega ekki nýtilkomin. Og krafan mun ekki gufa upp þótt tíminn líði. Við þurfum nefnilega okkar eigin grunnlög.
- Baráttan um Ísland - 27/10/2017
- Hvaða máli skiptir ný stjórnarskrá? - 23/10/2017
- Forsetinn veitir undanþágur frá lögum … - 20/10/2017